Sunday, October 29, 2006

"sláturgerð"












































































Gærdagurinn var undirlagður hallóvínskri sláturgerð. Það var keypt grasker og nýtt á marga mögulega vegu. Nú býr graskerakóngur hjá okkur og skelluhlær, við átum yfir okkur af graskerapæi og graskerafræin verða notuð í salat. Þetta var ljómandi gaman og litar októberlok og markar einhvernveginn að nú sé tímabært að fara að hlakka til jólanna. Lilý kom í kjötbollur og við höfðum það svo gott sem sófakartöflur það sem eftir lifði af laugardegi.

Wednesday, October 25, 2006

enn erum við að flytja





































Jæja komin úr viðburðaríkri ferð frá Lund. Frábærar móttökur sem við fengum og veisluhöldin voru nánast óslitin. Framtíðarpælingarnar hituðu upp húsið slíkar voru þær. Eftir að hafa skoðað nokkur hús ákváðum við að kaupa einbylishús sem er ennþá í byggingu en verður til í vor. Húsið er staðsett í Stångby sem er einungis 4 km frá Lundi. Lestarstöðin er í göngufæri og það er 5 mín lestarferð inn í miðbæ Lundar og 15 mín inn í Malmö. Malmöháskóli eða Lund háskóli tekur vonandi á móti mér opnum örmum og ég stefni á masternám í lýðheilsu útfrá uppeldis- og listfræðilegum sjónarhornum...hlakka svo til. Skoðuðum skóla barnanna sem var ákaflega vinalegur og hlýr. Lítill, gamall, sænskur og 42 nemendur frá 6-9 ára. Það var vel tekið á móti okkur og börnin eru jákvæð gagnvart þessu öllu þó þar vegi vissulega þungt loforð um skjaldböku. Tveimur bekkjum er samkennt þannig að Hörður Breki verður í sömu kennslustofu og Einar Tómas vinur hans ásamt 2 kennurum og 20 nemendum. Þegar hann svo verður 9 ára færist hann í aðra skólabyggingu ásamt bekkjarfélögum sínum. Svona í líkingu við þegar ég gekk í Árskógarskóla hér í gamla daga og upphefðin var slík að skipta um skólabyggingu því þá varð maður svo stór. Svona svipað og að sitja aftast í skólarútunni.

Skrýtin tilfinning samt að fara frá Örebro næsta sumar, hér erum við búin að eignast góða vini og Örebro er mjög fallegur staður. En við Valli erum bæði að klára okkar nám hér og einhvernveginn erum við hvorug tilbúin að fara strax aftur til Íslands, eða byrja venjubundin hversdagsleika hér, viljum nýta tækifærin hérna betur og þessvegna ákváðum við að færa okkur um set til staðar með mikið af námstækifærum og ekki skaðar að eiga góða vini þar, nálægðin við Kastrup og þarafleiðandi fjölskylduna heima á fróni segir sitt, vikuleg íslenskukennsla handa börnunum vegur þungt og já kostirnir eru allavega margir.

*Dæs* já enn erum við að flytja eins og sagði í bók Stefáns Jónssonar að mig minnir.

Friday, October 20, 2006

Lundarævintýri framundan

Hæ elskurnar mínar, erum farin til Lundar að skoða hús, skóla og skemmta okkur.

Læt heyra í mér eftir helgina
elska ykkur
Brynjalilla

Wednesday, October 18, 2006

að fíla og þola ekki

Ég fíla eftirfarandi:
1. Hafragraut á morgnanna með fræum, kanel og sænskri kotasælu. Bragðast betur en það hljómar.
2. Chaite þessa dagana, dásamlegt indverskt te með flóaðri mjólk og minnir mann á hlýju og öryggi.
3. Msn, elska að blaðra við vini mína og fjölskyldu.
4. Freyðibað og hvítvín í hendi og munni.
5. Morgnar um helgar þegar krakkarnir skríða upp í.
6. Mjúk tónlist sem gerir mann rólegan, hlusta mikið á Cörlu Bruni þessa dagana.
7. Kúbverskt salsa.
8. Þegar ég er þreytt og önug og Valli kemur óvænt með kerlingamynd handa mér og súkkulaði.
9.Fjöll, jöklar, hafið, náttúran öll.
10. Vinkonur og fallegir kjólar.

Ég þoli ekki eftirfarandi:
1. Lifur
2. Þegar ég kaupi mér flík sem ég fer svo aldrei í.
3. Skítug gólf.
4. Heimþrá
5. Væl í Svíum og vanþroska í að taka ákvarðanir
6. Þegar fólk reykir í bíl.
7. Að éta yfir mig.
8. Að skipta um sængurver.
9. Að geta ekki knúsað vini mína þegar þeir þurfa á því halda.
10. Að vera þreytt og hugmyndasnauð.

En þið en þið, hvað fílið þið og hvað þolið þið ekki?

Sunday, October 15, 2006

yndislegur dagur

























Þetta var yndislegur dagur. Hann byrjaði á að prinsessan opnaði pakkana sína og gleðin var mikil þó þeir innhéldu hvorki trampolín, garð né dúkku sem grætur alvöru tárum. Prinssessutjald eins og Helga vinkona hennar í Lundi á vakti mikla kátínu og Prinsessukjóllinn og litlubarnabratzsdúkkan frá Herði Breka gerðu það að verkum að systkinn föðmuðust svo fallega, þakklætið var einlægt og Hörður Breki svo glaður því eins og hann orðaði það svo vel "mamma mér finnst rosalega gaman að fá gjafir en það er eiginlega skemmtilegra að gefa þær".

Afmælið hófst svo formlega klukkan hálftvö, Dagrún var búin að dubba sig upp og henni leið vel, spennt yfir athyglinni og öllu tilstandinu og ákaflega meðvituð um að nú væri hún að verða fimm ára og velti m.a. fyrir sér hvort nú færi hún að missa tennur og hvort hún væri örugglega ekki aðeins stærri en í gær. Gleðin ríkti frameftir degi, hér var borðað sælgæti, kökur, popp og ís, hér var dansað og leikið sér. Þegar prinsessuafmælið var búið þá var "fullorðins" veislan sem ríkti fram á kvöld. Héðan fóru allir sáttir og ánægðir. Kvöldið endaði svo á því að börnin fengu max hamborgara og sofnuðu þreytt en glöð. Við foreldrarnir stóðum í tiltekt frameftir laugardagskvöldi og vorum auðvitað glöð líka yfir vel heppnuðum degi en of þreytt til að nenna að opna hvítvínsflöskuna sem var í kæli inn í ísskáp, hún bíður betri tíma.

Friday, October 13, 2006



Afmælisundirbúningur í fullum gangi, kremgerð, skreytingar og tiltekt. Ungfrúin í baði, vill sofa með fléttur í nótt svo hún verði með krullur á morgun...mér finnst þetta svo gaman og morgundagurinn uhmm þá verður stuð og át verður í óhófi.

Vildi samt óska þess að fjölskyldan og vinirnir kæmust líka í herlegheitin...framhald fljótlega

Monday, October 09, 2006

með fjóra í útvíkkun


Fyrir fimm árum var ég sirka 20 kg þyngri en ég er í dag, kasólétt og beið spennt eftir komu krílsins sem var búið að hreiðra vel um sig í móðurlífinu mínu. Ég hvíldi mig, borðaði kökur og straujaði lítil ungbarnaföt. Þess á milli naglalakkaði ég mig, fór í klippingu og dekraði við mig. Dekrið skilaði sér því þegar fyrsti hríðarverkurinn kom klukkan 2 um nótt, var ég svo tilbúin í slaginn. Að vísu undrandi þar sem krílið ákvað að koma uppsettan dag en ekki láta bíða eftir sér eins og frumburðurinn gerði. Ég fór í bað, las í bókinni "máttur jarðar" eftir Jón Björnsson en amma Dagbjört hafði gefið mér bókina og þegar hún dó 5 vikum áður ákvað ég að lesa hana. Ég læddist um því það var svo notalegt að njóta þessarrar stundar í einrúmi, eitthvað svona óútskýranlegt milli krílsins og míns. Um morgunin þegar búið var að skutla Herði Breka á leikskólann fórum við hjónin upp á fæðingadeild og allt var komið vel af stað, 4 í útvíkkun. Mikið varð ég hissa og glöð því fyrri fæðingareynsla var þannig að þegar ég var komin með 2 útvíkkun þá hélt ég í fullri alvöru að verra gæti það ekki orðið...það var vitlaust. En við fengum bæjarleyfi því allt í einu varð það svo gríðarlega mikilvægt að kaupa barnabílstól. Hríðirnar ágerðust, man einmitt eftir einni vænni á bílastæðinu og ég sá að ég færi nú ekki á bláu könnuna í leiðinni.
Við tók fín fæðing, drulluvont en allt gekk svo snurðulaust, ég hélt heljartaki í Valla og hláturgasgrímuna meðan sóttin herjaði og gleymi ekki þegar fyrsti rembingurinn kom með tilheyrandi rembingshljóðum, heilbrigð stúlka fæddist svo 14:45 16. október. Hún Dagrún Kristín mín sem kom beint upp á magann minn og það var ást við fyrstu sýn.

Nú er skottið mitt að verða fimm ára, mikið um að vera og ný afmælisplön hjá ungfrúnni hvern dag. Það er búið að baka masarínumuffins. gulrótarköku, marengstertu að hætti ömmustínu, súkkulaðiköku sem verður þegar upp er staðið pils alsett sælgætisgimsteinum og sælgætisperlum og Bratzdúkka með uppsett hárið fær heiðurinn að eiga pilsið. Dagrún er prinsessa, hún vill bara vera í bleiku og helst í kjól eða pilsi. Hún er sjálfstæð og eftir því ákveðin að fá sínu framgengt en nokkuð hlýðin. Hún elskar að sulla og baðar gjarnan dúkkurnar sínar, þó ekki upp úr klósettinu eins og ég gerði víst eitt sinn á jóladagsmorgni. Hún er tónelsk og finnst mjög gaman að syngja og hlusta á tónlist. Hún er félagslynd, ráðrík, brosmild og er hrædd við þrumur og eldingar. Henni finnst gott að knúsast og elskar kartöfluflögur og nammi. Hún er mjög meðvituð þessa dagana að læra stafina og segir gjarnan ábyrgðarfullt að nú þurfi hún að gera lexíurnar sínar og á þá við íslenskukennslu heimilisins sem felst mest í stafainnlögn. Hana langar mikið í trampolín og garð og dúkku sem getur grátið alvöru tárum.

Mikið er maður nú lánsamur.

Thursday, October 05, 2006

Alibaba

Ég er nýkomin í gegnum ákveðið tímabil sem líklega flestir þekkja sem búa eða hafa búið í útlöndum. Tímabilið einkennist af ákveðnu rótleysi sem lýsir sér í óþreyju og óþolinmæði. Þörfin að tilheyra samfélagi algjörlega þar sem tungumál, trúarbrögð og menningarlegur bakgrunnur er tiltölulega einsleitur vaknar. Dagdraumar um að búa í litlu íslensku sveitaþorpi þar sem farið er á kökubasar og bingó um helgar og daglegt líf einkennist af því að baka brauð og sinna vinnu sem er algjörlega sniðin að þínum þörfum skjóta upp kollinum.

Þessu tímabili er lokið í þetta sinn. Ég nýt þess að fara í "alibaba" búðina þar sem ég kaupi mér falafel, framandi grænmeti, þurrkaða ávexti af öllum mögulegum og nánast ómögulegum gerðum og heyra töluð allavega 10 tungumál í frekar litlu rými. Ég nýt þess að fara í skólann, gefa mér færi á að vera listamaður og spjalla við Finna, Svía, Breta og Mongóla og ég er þakklát að börnin mín og við hjónin fáum góðan skammt af menningarlegum breytileika sem vonandi skilar sér í aukinni víðsýni og aðlögunarhæfni. Í gær fékk ég aftur tilfinninguna "ég á heima í Örebro" mjög velkomin tilfinning. Var búin snemma í skólanum, fór á markaðinn "bra og begagnad" eða gott og notað. Keypti mér 26 heklaða pottaleppa og 10 blúndudúka og markmiðið er að búa til listaverk þar sem ég held áfram að þakka konum fyrir mig.

Fór á kaffihúsið "Bara Vara" og hitti Lilý vinkonu mína. Við drukkum Chai te og áttum góða gæðastund. Sótti börnin, gaf þeim graut, sótti Lilý og við fórum í Willys. Ég verslaði matvörur, keypti m.a. fisk frá Víetnam sem er góður í wok og afar ljúffengur. Þaðan fórum við í Ikea því jólin eru komin þar og keyptum okkur ilmkerti. Áttum svo gott samtal á leiðinni heim í haustþokunni. Heima beið Valli, börnin sofnuð og ég hlammaði mér í sófann og sofnaði fyrir framan sjónvarpið.