Thursday, December 14, 2006

Ísland, gamla Ísland, ástkær fósturjörð





Jæja nú erum við búin að pakka, taskan er 24 kg, mér finnst það vel sloppið miðað við þrjá. Valur kemur svo á þriðjudaginn með án efa nokkur kg til viðbótar. Vöknum klukkan hálfsjö í fyrramálið og leggjum í hann eftir hafragraut og seríós. Sjáumst á Íslandi elskurnar mínar!

Wednesday, December 13, 2006

Lúsía og íslenskur harðfiskur













































Búið að vera mikið um að vera í dag. Dagurinn byrjaði klukkan sex, Dagrún eins og spjót á fætur og var ekki lengi að koma sér í lúsíubúninginn sinn. Í leikskólanum var boðið upp á kakó og smurt brauð klukkan 7 og börnin sungu svo fallega, voru svo heillandi, ljómandi og einlæg. Við vorum stolt af okkar stúlku sem söng, svo vel heyrðist um lúsíur, piparkökur og veiðimann í skógi.

Klukkan 9 var lúsíulest í mínum skóla, vissulega ekki eins heillandi og ljómandi og hjá Dagrúnu en eins einlæg. Við sungum ekki neitt en buðum upp á íslenskan harðfisk, jólaglögg og kökur. Kökurnar og jólaglöggið kláraðist, harðfiskurinn rann ljúflega niður eftir mátulegt fussum svei og fitjun upp á nefið...

...okkur finnst lúsía skemmtileg.

Monday, December 11, 2006

fiðringurinn vex

Það er púki á annari öxlinni minni sem hvíslar í eyrað mitt og kitlar mig og lætur mig langa til að hrekkja einhvern, Skemmtileg tilfinning en erfitt að láta undan henni þar sem siðferðið hvíslar í hitt eyrað. Kannski líður mér svona af því fyrsti jólasveininn kemur í kvöld. Börnin settu skóna í gluggann í gær, bara til að tékka en það var ekkert þjófstart hjá vinunum okkar þannig í dag ríkir eftirvæntingarfull spenna.

Hér er rigning og rok og jólaljósin sveiflast til í grámyglunni, samt er jólalegt, ferðataskan er komin út á gólf, innpakkaðir jólapakkar fylla hana hálfa, jólakortin bíða þess að vera sett í umslög og fiðringurinn vex innra með okkur öllum. Við Valur ræddum aðeins í gærkvöldi hvað okkur þætti mest skemmtilegt við að vera fara til Íslands...fyrir utan það sjálfssagða að hitta fjölskyldu og vini þá hlökkum við svo til að geta farið 2 ein í bíó á eitthvað annað en barnamynd. Að geta skroppið eftir bíóið á kaffihús og bara verið án þess að þurfa að hugsa um neitt annað en sjálf okkur þá stundina. Já það verður yndislegt að hafa þétt og sterkt fjölskyldunet í kringum sig. Upplifa hefðirnar og gleðina að vera saman en um leið fá tækifæri til að bregða sér frá án þess að þurfa að taka börnin með í hvert skref sem stigið er.

Sunday, December 10, 2006

brúnu eða svörtu stígvélin?

jiminn og allir hans vinir, fimm dagar í Ísland og ég er enn ekki búin að ákveða hvaða kjóla, skó og jakka ég á að fara með mér...*dæs* en það skiptir engu máli því bráðum knúsa ég mömmu mína og pabba minn og fjölskylduna og vinina. Efast um að nokkur pæli í því hvort ég sé í brúnu eða svörtu stígvélunum.

Wednesday, December 06, 2006

Rigningin og ræktin

Kæra dagbók

klukkan er hálfsjö að morgni og ég er nýbúin með morgunteið mitt og er að rökræða við sjálfa mig að hendast út í rigninguna og drullast í ræktina. Ég er enn þreytt eftir ferðalag helgarinnar en andlega endurnærð eftir að hafa hitt vini mína í Lundi. Við erum búin að velja flísar í nýja húsið okkar, ekkert húmmbúkk bara einfaldleikinn sem gildir og húsið vex og dafnar með fyrirheit um góða daga í Lundi. Valur fór í viðtal á heilsugæslustöð sem er í 10 mín hjólafjarlægð og við bíðum spennt eftir viðbrögðum. Fórum á Íslendingaball og rifjuðum upp drykkjusiði landa okkar og borðuðum rúgbrauð. Fengum goðalambalæri hjá Tobbu og Sveinbirni, sem var ljúffengt. Skruppum til Kaupmannahafnar og hittum tengdaforeldrana í tívolíunu sem var ljósum skreytt og náði rétt að keppa við brosin sem börnin og við öll settum upp við endurfundina, mikið var yndislegt að hitta þau og koma börnunum svona skemmtilega á óvart, faðmlögin voru hlý í hellirigningunni. Fórum svo á "skissernas museum" í Lundi á sunnudeginum, virkilega gaman að sjá skissur og undirbúningsvinnu ólíkra listamanna og kvenna. Hafði sérstaklega gaman að því hvað Herði Breka fannst gaman að sjá handbragð Picassós. Verslaði með Tobbu á mánudeginum og drakk með henni chaitee sem bragðast best með vinkonum. Keyrðum heim eða altso Valur en ég las "svefnhjólið" eftir Gyrði Elísasson, skemmtileg bók.

En núna er það rigningin og ræktin.