Friday, July 27, 2007

Veðurbitið

Hér rigndi eldi og brennisteinum í nótt. Húsið lýstist blátt og drunurnar svoleiðis glumdu í eyrunum að enginn var svefnfriðurinn. Þetta var samt ótrúlega notalegt, stórhríðartilfinning og við Valli kúrðum bara og nutum þess að þurfa ekki að fara á fætur þar sem það var jú mið nótt. Sólin skein svo í morgun og lét eins og ekkert væri, spái að hún sýni sig í klukkutíma eða svo en síðan taki skýjaþykknið við sem er búið að hanga yfir okkur mestan part sumars, fussum svei. Merkilegt nokk hvað samviskubitið lætur á sér kræla þegar veðrið er ekki gott og von er á Íslendingum í heimsókn. Maður skammast sín hálfpartinn eins og blautveðrið sé sér að kenna. En veðurbitið verður slævt með öðrum unaðssemdum og ég hef uppi áætlanir að elda eitthvað gómsætt í sólarstað. Annars sit ég með tebollann minn og er að reyna að hrökkva í gang og dröslast í ræktina...Langar meira til að naglalakka mig og undirbúa mig fyrir Kaupmannarhafnarferð, 7 ára brúðkaupsafmæli á döfinni og því mikilvægt að skarta sínu fegursta.

Wednesday, July 25, 2007

djúpsteikt pylsa með öllu.

Átti frábæra viku á Íslandi-Akureyri. Veðrið ljómaði og fjöllin montuðust í sumarskrúðanum og þóttust aldrei fegurri verið. Ég fagnaði með þeim og leit upp til þeirra. Samhliða því fylltist ég angurværð og tregatilfinningu, fann hversu ég hef vaxið frá Akureyri allavega þessar stundirnar í lífi mínu. Man eftir svipaðri tilfinningu til Árskógssandsins sem vaggaði mér í æsku, þegar ég var búin að hleypa heimdraganum. Vona samt eiginlega að söknuður eigi eftir að grípa mig, sé alveg fyrir mér fallegt hús í heiði með stórum gluggum og stórri vinnustofu.

En ég átti frábærar gæðastundir með vinkonum mínum og fjölskyldu. Náði einkatíma með nánast flestum sem ég hafði ekki hitt lengi, sérstaklega Fanney minni sem ég hafði ekki hitt í tvö og hálft ár. Stelpukvöldið í hópi vinkvenna minna var afskaplega skemmtilegt, opinskátt og náið. Kjötsúpa með fjölskyldunni var unaðsleg. Kjarnaskógur, sundlaugin, pengsnúðlur og Brynjuísinn á sínum stað og nutu sín vel í veðurblíðunni. Brúðkaupið þeirra Jóhönnu og Nonna var yndislegt, látlaust í fallegu Möðruvallarkirkju og presturinn mælti sköruglega og vel. Veislan var stórkostleg og vel var veitt af mat og drykk og ég kynntist góðum hópi kvenna sem ég vonandi hitti aftur.

Ég kíkti í bæinn, tók sveiflu á Kaffi Akureyri, fékk mér djúpsteikta pylsu og franskar, horfði inn í lygnan eyjafjörðinn um miðja nótt. Sem sé gerði margt og mikið á einni viku.

Börnin erum enn á Íslandi, fara á hverjum degi í sund og heimsækja vini og vandamenn og fýla sig í botn. Á meðan erum við Valur ein heima sem hefur ekki gerst á þriðja ár. Njótum þess í tætlur og erum að fara í rómantíska ferð til Kaupmannahafnar um helgina. Sækjum svo börnin á völlin á mánudaginn sem koma í fylgd afa og ömmu, systur minnar og fjölskyldu...í þessum skrifuðum orðum finnst mér þetta ekki geta verið betra.

ps:Engar myndir voru teknar í Íslandsförinni en myndavélin og tölvan voru líka í fríi.

Sunday, July 15, 2007

Andalúsíuhundur og annað góðmeti



Við erum búin að eiga góða sólardaga um helgina. Fengum vinina okkar í heimsókn, Arnar, Hönnu og börnin þeirra, Grím og Unni. Þau stöldruðu við á leið sinni til Madridar þar sem þau ætla að búa næstu árin. Auðvitað skörtuðum við okkar fínasta, lékum okkur, borðuðum góðan mat, horfðum á skrýtnar kvikmyndir, t.d. Andalúsíuhundinn sem Salvador Dali og Luis Bunuel leikstýrðu. Við nutum samverunnar og lögðum fyrstu drög að því að heimsækja þau til Madridar vonandi innan langs tíma, vona að ykkur gangi vel í Madrid kæru vinir!

Dagrún spurði mig í dag klukkan 16:00 hvort við ættum ekki bara að fara að sofa til að tíminn liði hraðar. Íslandsför í fyrramálið og alveg indæl tilhugsun um auðvelt ferðalag, Kastrup-Akureyri. Allt pakkað og klárt. Ég verð eina viku á fróni en börnin tvær vikur og því margt framundan. Þau ykkar sem langar að hitta mig viljið þið hringja í mig í:
8610035
en það er símanúmerið sem ég verð með þessa viku. Við finnum stund til að snæða, drekka kaffi, fara í labbitúr í fjörunni eða bara eitthvað annað unaðslegt.

Og hér komum við Ísland...

ps: Klukkan er 22:40 og börnin loksins sofnuð eftir endurtekin köll "mamma ég get ekki sofnað" Ég læddist inn til Dagrúnar til að kíkja á hana og get ekki annað en hlegið. Hún er sofandi en búin að klæða sig í fötin ætluð morgundeginum með töskuna sína við hliðina á rúminu.

Tuesday, July 10, 2007

PIppsúkkulaði

Tæp vika í Íslandsferð og maður leyfir sér að detta inn í Íslandsþrá. Hlakka til að heilsa upp á fjöllin, sjóinn, víðáttuna, Brynjuísinn, pippsúkkulaðið, sundlaugina, kjarnaskóg og náttúrlega fjölskylduna og vinina.

Hér er annars góður fílingur, veðrið er gott og við borðuðum úti á palli í gærkveldi, það var yndislegt og okkur var alveg sama þó sólin skini í augun, buðum hana velkomna eins og vini okkar Hjörvar og Árnýju sem kíktu við ásamt 3 börnum sínum, Hrefnu, Unu og Loga. Grillaður túnfiskur rann ljúflega niður og kirsuber, epli ásamt ítölskum blámygluosti fylgdu á eftir.

Læt nostalgíuíslandsmyndir fylgja með.


Friday, July 06, 2007

sullskór og rauður vörubíll

þetta var fyndið í dag þegar börnin fóru í baðfötin og hoppuðu á trampolíninu. Komu inn köld, hundvot en glöð og fengu kakó búið til úr súkkulaðiíssósu og mjólk, góður drykkur. Rigningin er búin að lemja hér allt svoleiðis sundur og saman og hitastigið skitnar 14 gráður. Núna þegar klukkan er hálf tvö að nóttu er ég svo uppveðruð og blaut í tærnar að ég verð að deila því með ykkur. HÉR ER FLÓÐ. Lánsamlega erum við enn ekki á hættusvæði en vinafólk okkar og nágrannar standa í stíflugerð og hjáveitum og Valur aðstoðar við hjálparstörfin. Ég var að koma heim úr skoðunarleiðangri. Fólk misvel klætt og skóað gengur um göturnar hálfringlað sumt en annað fókusað og vinnur hratt og örugglega við að bjarga rósarunnum og sumarblómum frá drukknum. Í huga minn skaust minning um læk og stíflugerð og rauðan plastvörubíl sem ég átti, held að ég hafi unnið hann á bingói. Löggan er mætt og björgunarsveit en enn sjást bara myndugleg ljósin blá og rauð en lítið um aðgerðir. Á leiðinni heim til sofandi barna óð ég fram hjá einmanna umferðaskilti sem rak undrandi upp hausinn úr vatnsflauminum. Það kallaðist á við ljósastaur sem rétt gat látið ljós sitt skína og vorkenndi honum óskaplega.

Þetta er ekki lengur fyndið og það er spáð meiri rigninu, þá vil ég heldur almennilega íslenska stórhríð, hægbráðnandi vor og rauðan plastvörubíl.
http://www.aftonbladet.se/vss/malmo/story/0,2789,1113500,00.html
Tékkið á linknum.

Monday, July 02, 2007

Glóð frá guði


Afrakstur dagsins, ókláraður

...já ég veit dramatískur og brynjulegur titill. Hann bara passaði svo vel við stemminguna í dag og undanfarið. Við erum sem sé búin að eiga góða og rólega daga undanfarið, lyft þeim upp með jarðaberjatínslu, hellaskoðunarferð í Tykarpsgrottan, kastalaheimsókn og rólegheitum heima við. Eldað góðan mat, bakað kanelsnúða, gert ískokteila, horft á vídeó og dundað í garðinum. Börnin eru úti á línuskautum með Nönnu sinni sem sér um þau meðan ég sit og mála. Finnst ég hafa fundið sjálfa mig einu sinni enn við að eiga stundir framan við trönurnar mínar, geta látið hugan reika og fyllt mig þessari orku sem sköpunargleðin og góð litasinfónía skilar af sér. Dæs en nú er tebollinn búinn og þessi umferð vonandi orðin þurr og ég munda pensilinn á ný.

Myndirnar eru af ofangreindum herlegheitum auk stelpukvölds, leikrænum tilþrifum frá heimsókn í "sagogarderoben" fyrir 3-8 ára og frá tveimur innsetningum sem við kíktum á.