Friday, September 28, 2007

Hauststemming með steiktu eggi

Ekki beint heimþrá en eitthvað....Hauststemmingin er notaleg, svona rás eitt og soðin ýsa í hádeginu og maður horfir út um sjósleikta glugga meðan kjammsað er á ýsunni með smjöri. Annars hertekur tölfræðin líf mitt þessa dagana og fer ekkert of mildum höndum um mitt sálartetur. Finnst hún leiðinleg en já ég veit, nytsamleg...ég þrauka því allt hitt nærir sálina og það er íslenskt lambakjöt á matseðli helgarinnar.

Í gær var helsta innihald dagblaðsins okkar auglýsingar um jólahlaðborð og ég var reglulega trufluð af börnum sem voru að selja jólablöð hér í hverfinu. *Dæs* jólin, er farin að leika mér að því að hlakka til "kleinachten", piparkökugerðar og logandi ljósa í hverju horni.

En fyrst...unglingurinn á heimilinu verður 16 ára á morgun, músalúsin mín sem elskaði prinsessukjóla og glit en vill nú frekar góða ferð í H&M. Ég man svo
ósköp vel eftir því þegar ég sá hana fyrst, í hlýjum örmum móður sinnar, dökkhærð og fallega krumpuð. Þessi minning fer saman við fyrstu dagana í tilhugalífi mínu og Vals þannig óhjákvæmilega varð músalúsin strax hluti af tilveru okkar . Við færðum henni óróa keyptan á Spáni, skreyttann marglitum skeljum. Líklega forljótur en þá fannst okkur hann fallegur og hugsanlega það fyrsta sem við skötuhjúin keyptum saman.

Man þegar ég var 16 ára með hræðilega ljóta eighties hárgreiðslu og bleikann varalit. Nanna er sem betur fer ekki í þeim pakka, falleg, klár og svo óendanlega skynsöm. Kann samt alveg að hafa gaman af tilverunni og kennir okkur hinum fjölskyldumeðlimunum mikilvæga unglingstakta sem gaman er að gera grín af. Opnar okkur heim sem var gleymdur, unglingamenning, sem er náttúrlega ótrúlega merkilegur heimur og í rauninni heilmikill lúxus. "O my god" eru orð sem við heyrum oft og rjóðar ástfangnar kinnar unglingsins gefa okkur færi á að rifja upp eigið tilhugalíf og gefa hauststemmingunni frekari lit.

Já til hamingju með afmælið Nanna músalús, við elskum þig jafnvel þó að óskaafmælismáltíðin þín sé Pytt í panna-pizza, herregud, með steiktu eggi og rauðrófum!

Monday, September 24, 2007

Draumur á haustdegi

Ég sit við gamla skattholið sem ég keypti um daginn á loppis á 280 kr. Unaðslega fallegt og ætlað til innblásturs við lærdóm. Sólin skín en til að lifa mig enn betur inn í sögu faraldsfræða, dró ég fyrir kveikti á kertum, drekk kaffi og sé fyrir mér hörmungar tengdum bólusóttum, inflúensu, kóleru og annarra faraldra. Er ýmist stödd í íslenskri harðneskju, í iðnvæddum stórborgum eða í frumskógum Afríku og upplifi sult og seyru, barnsgrát og vanmátt. Til að færa mig reglulega til míns þægilega veruleika kíki ég öðru hvoru í tölvuna og dreymi um haustferð okkar hjóna til Prag í nóv.

Erum búin að panta okkur miða á tvo viðburði:
http://www.myspace.com/gogolbordello
http://www.viennaticketoffice.com/detail_en.php?ID=3981
Enginn vanmáttur sem fylgir þessu!

Thursday, September 20, 2007

seven minutes

....hef 7 dýrmætar mínútur. Bækurnar engjast og kalla: 473 blaðsíður í dag góða mín. Já lestrartörnin byrjaði ekki svo glatt. Ég átti góðan málunardag, endaði hann reyndar á að mála yfir málverk sem ég er búin að hanga í öðru hvoru en aldrei orðið ánægð. En ég náði þó nánast að klára annað sem ég er virkilega ánægð með. Næsta dag var litla músin mín lasin og þann þar næsta og afköstin eftir því enda í forgangi að hlúa að, gefa vatn og knúsa dýrið á milli þess sem dvd spilarinn fékk að ofhitna. Í dag er engin afsökun. Ég er búin að fara í ræktina, fá mér hafragraut, tebolla og nú er klukkan 2 mínútur í 10:00. Ætla skella í einn tebolla í viðbót og þagga niður í bókunum.

Thursday, September 13, 2007

utbränd, bra, the og and

allamallamá, er búin að taka eftir skánskum framburði hjá mér 2 daga í röð. Sagði "utbränd" og "bra" með fáránlega ýktu kokuðu r-hljóði...og ég sem er svo stolt af íslenska framburðinum mínum sem minnir mig mest á finnlandssænsku sem er svo falleg og skemmtileg. Hugsa samt að þetta hafi nú bara verið tilviljun en samt er alveg merkilegt hvað framburður manns litast af því við hvern talað er. Ekki nóg með að skánskan troði sér óvelkomin að heldur er ég búin að tala ensku síðusta 2 vikur með kínverskum, rúmenskum, amerískum og indverskum hreim. Er núna að æfa mig í að vera bara skýrmælt og leyfa íslenskum einkennunum að njóta sín og hef svei mér þá leitað fyrirmynda í fræga Íslendinga eins og Björku og Jón Pál. Það virkar. En annars þetta er búið að vera vika þar sem orðin utbränd og bra eiga vel við. Ég er búin að vera í fyrirlestralotu sem ég vil helst kenna við andskotann þar sem farið er í tölfræði faraldsfræði á ljóshraða og á tímabili fannst mér ég skilja tvö orð: "The" og "and". Var að hugsa um brenna upp bara og snúa mér að bakstri en sem betur fer hélt þrjóskan mér uppi og ég sem sé er farin að átta mig á áður óþekktum hugtökum sem er jú "bra" auk þess sem ég er búin að kynnast bekkjarfélögum mínum betur og sé í augsýn verðandi vini, er meira að segja búin að fá eitt heimboð í hús við svarta hafið.

Sé í augsýn helgi þar sem námsbækur eru að mestu í fríi, en pizzuát, videógláp, útivera og samvera með fjölskyldunni eru í akkorði. Ætla svo að gefa mér gjöf á mánudaginn. Leyfa námsbókunum að sofa út og munda rykfallna penslana sem kvarta sáran yfir hreyfinarleysi.

Góða helgi

Friday, September 07, 2007

fjórir hundar

Ég var spurð að því í gær af kínverskri skólasystur minni hvernig ég gæti verið í námi með 2 börn, eitt fósturbarn og fjóra hunda. Ég leiðrétti hana fljótt en er enn að hlæja yfir þessum misskilningi, 4 HUNDA???? Vissulega gerir hundaleysið mér auðveldara fyrir og ég er í skýjunum yfir náminu. Ég finn að ég höndla það, allavega ennþá og að bakgrunnur minn og áhugamál fléttast ljúflega inn í það. Við komum frá öllum heiminum t.d. Kína eins og hefur komið fram, Ghana, Nígeríu, Eþiópíu, Danmörku, Rúmeníu, Serbíu, Svíþjóð, Kanada, Palestínu og fleira. Fróðlegur kokteill, hagfræðinga, lyfjafræðinga, lækna, tannlækna, líffræðinga, sjúkraþjálfara, sálfræðinga nú og uppeldisfræðinga svo eitthvað sé nefnt. Heimurinn er allvega búinn að stækka óneitanlega mikið hjá mér í vikunni og frábært að fá bónusinn sem felst í þessum margbreytileika. Ég viðurkenni alveg að þetta er heilmikil vinna, en ég hef mikla ánægju af því að fá útrás fyrir skipulagsáráttu mína og allajafna ætti vinnudagur 8-17 að nægja og með góðum skammti af iðni get ég tileinkað listagyðjunni í mér allavega einn dag í viku, það er jú mín lýðheilsa.

Annars er rútínan komin góða leiðina í þriðja gírinn. Ég er vöknuð 6 til að setja á mig gloss og þvo mér undir höndunum. Svo vek ég liðið, sérstaklega yngri lilluna mína sem þarf langan tíma til að vakna og er enn sármóðguð yfir þeirri ósvífni að fá ekki lengur að sofa út, hún er hinsvegar hæstánægð með skólann og finnst ekki verra ef hún kemst í glosstúbbu móðurinnar. Nanna fósturlillan mín þarf líka að sinna mikilvægri glosstækni á morgnanna áður en hún fer í menntaskólann en herramennirnir á heimilinu herra morgunhress og herra tralli láta slíkt um lönd og leið og óskapast yfir því að vera komnir í kynjaminnihlutahóp á heimilinu og berjast fyrir þeim mannréttindum að fá afnot af baðherberginu.

En nú er ljúft föstudagskvöld og yndislegt að hanga í tölvunni og gera ekki neitt nema bara að njóta hversdagsgæðanna, afslöppuð og sátt við guð og menn. Ekkert hundslegt við það.

Saturday, September 01, 2007

Auschwitz, ágúst 2007

Eins og gefur að skilja var þetta ekki kátínudagur ferðarinnar. En vissulega fræðandi, dapurlegur og óhugnalegur. Það er merkilegt að sækjast í að skoða þessar hamfarir og mikilvægt að gera það með réttu hugarfari. Með virðingu. Mér fannst kjánalegt og virðingarlaust að sjá pizzustaði, pylsusala og íssjobbur þarna í kring en samt einhvernveginn líka gott því lífið heldur jú áfram. Það er mikilvægt að minna sig á og komast í nálægð við söguna. Það er nauðsynlegt að taka í hnakkadrambið á sjálfum sér og segja ég dæmi ekki hópa eða fólk eftir ákveðnum sérkennum innri sem ytri.

Það var erfitt að ákveða hvort börnin ættu að fá að fylgja okkur inn í útrýmingarbúðirnar. Við viljum ýmist vernda þau og leyfa þeim að lifa í áhyggjulausum heimi sem lengst eða kenna þeim staðreyndir lífsins svo þau læri, dafni og lifi með raunhæfar væntingar. Það er erfitt að staðsetja helförina í uppeldislegum pælingum, en er vissulega atburður sem mikilvægt er að muna eða eins og svo hyggilega er mælt "The one who does not remember history is bound to live trough it again"