Tuesday, October 30, 2007

Minning

Ég er svo heppin manneskja, þekki svo marga sem hafa haft góð áhrif á mig með dugnaði sínum og persónuleika. Ég dáist að manneskjum sem láta ekki deigan síga í amstri dagins með reglulegum áföllum sem lífið bíður upp á. Manneskjur sem halda haus, ekki rétt hangandi heldur með stolti. Iðjusemi og einlægni eru dyggðir sem ég dáist að og reyni að temja mér, kryddaðar með góðum skammti af húmor, tryggð, ákveðni og heiðarleika myndar slík blanda góðan einstakling sem lánsemi er að kynnast og jafnvel vera samferða um tíma.

Ég er svo heppin manneskja að hafa þekkt hana Petreu Konráðsdóttur. Kjarnakona sem lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Glæsileg kona sem bar höfuðið hátt og tók mér svo vel þegar ég bættist í vinkonuflóru hennar Ingveldar minnar. Mikið virti ég hana, ljósmóðir og móðir einnar mestu og bestu vinkonu minnar, myndarleg í orði og verki og alltaf svo hugguleg. Þegar við Petrea hittumst í sumar vissum við báðar að það yrði í síðasta sinn. Við deildum svo yndislegri stund þar sem við drukkum heimalagað chaite haldandi í hendur, leyfðum tárum að renna, en hlógum mest og rifjuðum upp minningar, sérstaklega matarminningar. Grillveisla í Helgamagrastræti, kótilettur í raspi í Háalundinum og skúffukaka sem yljaði okkur Ingveldi gjarnan í löngufrímínútunum í Lerkilundinum. Við ræddum um nútíðina, ég sagði henni fréttir af börnum og framtíðarplönum, hún sagði mér frá veikindum sínum og æðruleysi og kjarkur Petreu var aðdáunarverður. Við léttum brúnina með að rifja upp fyrstu kynni hennar af Val, þegar hann mætti galvaskur til hennar klæddur köflóttum hjálpræðishersjakkafötum sem voru keypt með svitalykt og öllu. Við horfðum á upptöku með Hemma Gunn að spjalla við fræga íslendinga, gerðum nett grín af þeim en nutum þess líka að eiga hversdagslega stund saman.

Blessuð sé minning hennar Petreu Konráðsdóttur, takk fyrir allt, öll fallegu hrósin sem þú gafst mér og mínum, tryggðina í gegnum tíðina og áhugann á lífi mínu.

Elsku Ingveldur mín og allir þínir nær og fjær við vottum ykkur samúð okkar, sendum ykkur allar okkar bestu og fallegu hugsanir og þegar við hittumst næst ætla ég að elda kótilettur í raspi og hafa skúffuköku í eftirmat!

Friday, October 26, 2007

Brynjulegt frá hjartanu

Langaði bara að senda ykkur þetta ljóð, alltaf svo fallegt með mikilvægum boðskap.

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti,
sem brast við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.

Munið að brosa til náungans og ykkar sjálfra, ekki vera fúl í röðinni í Hagkaup/Ica, ekki láta þvottinn í körfunni fara í taugarnar á ykkur, ekki láta yfirmanninn eyðileggja daginn, ekki hafa áhyggjur af jólunum, ekki pirrast út í makann af því hann setur ekki tappann á tannkremstúbbuna, ekki velta ykkur upp úr gömlum erfiðum minningum, andið bara djúpt að ykkur, njótið augnablikisins, farið vel með ykkur og ykkar nánustu. Kaupið ykkur afskorin blóm, kveikið á kertum, hlustið á góða tónlist, fáið ykkur góðan heitann drykk í góðum félagsskap, knúsist. Ég ætla að leggja mig sérstaklega fram þessa helgi þar sem ég er að fara að byrja í 2 vikna fyrirlestrarlotu og þarf að byggja mér upp jákvæðnisforða og eiga góð og einlæg bros á lager. Hmmm já það er alltaf betra að brosin komi frá hjartanu en ekki rassgatinu.


ástarkveðja og góða helgi
Brynja

Wednesday, October 24, 2007

léttur og löðurmannlegur

Mig vantar svo góða uppskrift af einföldum en ljúffengum forrétt sem passar að hafa sem aðdragana að íslensku lambakjöti. Sem sé ekki of þungann heldur léttan á fæti og löðurmannlegan. Eruð þið með hugmyndir? Gæti skipt máli en ég er að fara til Kaupmannahafnar þar sem er gott úrval matar...kann einhver uppskrift af einhverju dönsku góðgæti, altso þá einhverju öðru en flööödeskum

Flöööööööööööödeskum
Brynja

Tuesday, October 23, 2007

Geggjað að geta hneggjað!


Góla, gagga, hlaupa um nakinn eða eithvað álíka á almannafæri? Ég fékk þessa tilfinningu mjög sterkt í dag. Var í hverfisbúðinni og á auglýsingatöflu var risaplakat af galopnum munni, auglýsingin greip mig en ég tók ekkert eftir því hvað verið var að auglýsa, þetta var bara flott mynd sem minnti mig einhverra hluta vegna á hest. Yfir mig kom þessi rokna tilfinning og löngun að syngja hástöfum " það er svo geggjað að geta hneggjað" Hef sjaldan fengið svona sterka löngun til að láta vaða, söngurinn gjörsamlega kraumaði í mér. Ég leit í kringum mig, indverskar konur í sari, þroskaheftur maður, gamlar konur með göngugrindur, unglingsstúlka með bleikt hár og þreytt húsmóðir með tvíburana sína sem voru báðir grenjandi. Ég bældi sönginn niður til hálfs en leyfði mér að humma þetta ásamt einhverri laglínu sem fylgdi í kjöfar hneggsins, held svei mér þá að hún hafi verið heimatilbúin. Auðvitað er ég búin að gleyma þessari laglínu núna en er sátt við að hafa lagt fjölbreytileikanum í búðinni lið.

Thursday, October 18, 2007

sykurhúðaðar veitingar


Já það er óhætt að segja að það hafi verið stuð og sykurhúðaðar veitingar runnu ljúflega niður. Takk fyrir allar afmæliskveðjurnar, skottið mitt litla er afar ánægt með þetta allt og finnst felast mikil ábyrgð í því að vera orðin 6 ára...
Knús frá okkur öllum og góða og skelfilega helgi, er ekki annars halloween að nálgast múhahahaa!

ps: það var engin rotta í gildrunni í dag



Tuesday, October 16, 2007

Ein af þeim

Ilmurinn kitlaði hana í nefið. En freistingin varð samt ekki skynseminni yfirsterkari. Gleði hennar jókst dag frá degi og samband hennar við íbúa hússins varð æ nánara. Tengslamyndunin var orðin
sterk og traust ríkti. Hún var jafnvel búin að fá leyfi til að bjóða gestum en þá ályktun dró hún þegar veisluborðunum fjölgaði. Mikið ofsalega elskaði hún húsbændur sína heitt. Greinilegt var að ekki var um jólahlaðborð að ræða heldur staðfestingu á gagnkvæmri væntumþykju, hún var ein af þeim...


Friday, October 12, 2007

Aðgerðin dauði

Alveg síðan hún varð viðskila við systkini sín fannst henni lífið hálftómlegt. Dagarnir voru fylltir einmannaleika og hún nærðist eingöngu á því sem varð á vegi hennar. Algjör skortur á lífsvilja. Einhvernvegin var samt þessi sterka eðlisávísun þess valdandi að hún kúrði sig ekki bara niður undir steini og dó. Hún tórði og það kom jafnvel fyrir að henni tókst að njóta einstakra sólardaga og stundum fékk hún félagsskap sem gaf henni tímabundna gleði. Tómleikinn var samt ekki langt undan, Þessi ætandi tilfinning sem gat gert hana svo leiða og þreytta og ekki bætti úr skák að rigningardögum fjölgaði og myrkrið var smám saman að verða æ fyrirferðameira.
Það var einmitt einn rigningardaginn sem hún ákvað að þetta væri orðið nóg. Hún fann sér kyrrlátt skot, lagðist fyrir og lokaði augunum. Þessu litla lífi var lokið. Hún grúfði sig niður og beið, reyndi að tæma hugann og hægja á allri líkamsstarfssemi með sjálfsaganum einum. En það var erfitt, unaðslegur matarilmur, skarkali, hlátur og mildar samræður trufluðu hana við aðgerðina "dauði". Hún opnaði augun og sá að þetta gengi ekki og tróð sér inn um gatið þaðan sem skarkalinn og ilmurinn barst.

Hún var stödd í paradís. Gnótt matar, hlýja og spennandi umhverfi sem beið þess að vera uppgötvað. Hún sá fjölskyldu sitja að snæðingi og fann fyrir svo innilegum tengslum við ljóshærða konu sem minnti hana helst á móður sína og ömmu. Börnin voru hvert öðru yndislegra og heimilisfaðirinn gaf frá sér þægilega öryggistilfinningu. Augu hennar fylltust tárum, hún var komin heim og tómleikanum létti og í staðinn kom þessi unaðslega tilfinning að tilheyra einhverjum, að þykja vænt um einhvern og vera virkur hluti af lífi einhvers.

Hún bjó um sig, hvíldíst og nærðist og fór svo að skoða sig um í krókum og kimum eldhússkápa og veggja hússins. Hún var enn ekki búin að finna kjark hjá sér að opinbera sig algjörlega en af útsjónarsemi gerði hún vart við sig svo aðrir heimilismeðlimir næðu að kynnast henni í rólegheitum og gefa henni tækifæri sem ein af fjölskyldunni.

Þetta tekur bara tíma sannfærði hún sjálfa sig. Einhvernveginn gekk þetta samt ekki eins vel og hún áætlaði í upphafi. Fjölskyldan var búin að sannfærast um að það væri draugur í húsinu og viðleitni hennar til að gera vart við sig á mildan hátt eins og að naga ruslapoka og skella niður flöskum í ruslaskápnum olli mun meira uppþoti en hún átti von á. Væntumþykjan og ástin sem hún hinsvegar upplifði varð bara sterkari með hverjum deginum því betur sem hún kynntist mannfólkinu. Ómur endurminninga um ráð móður sinnar um að mannfólk væri hættulegt, varð æ ógreinilegri og að lokum kom að hún gleymdi ráðunum alveg. En hún vissi að hún var ekki svo góð í félagslegum samskiptum, hún bara var enn svo feimin. Hún varð að finna leið til að heilla fólkið. Hún lék listir sínar inn í veggjum og glufum, hoppaði og rótaði, klóraði og spilaði lög en allt kom fyrir ekki því svo virtist sem hún ylli æ meira uppnámi. Unglingurinn á heimilinu flutti inn í annað herbergi vegna draugagangs og fór að vekja forráðarmenn sína með endurteknum símhringingum um miðja nótt kvartandi um draugagang og að hún þyrði ekki ein á klósettið. Börnin voru farin að tipla um á tánum til að styggja ekki svefnlausa foreldra sína.

Þetta er ekki rétta leiðin, hún stappaði í sig stálinu, lagaði til í húsinu sínu og ákvað að líklega væri best að opinbera sig gagnvart þeirri sem minnti hana á móður sína. Hún beið spennt þar til þær voru einar í húsinu. Puntaði sig og reyndi að anda rólega og hunsa kvíðaknútinn í maganum. Hún þekkti orðið venjur húsmóðurinnar svo vel. Vissi að brátt myndi hún opna skápinn og henda kaffikorgi í ruslið. Hún stillti sér upp, reyndi að brosa lítillega, passaði sig samt á því að vera ekki með neitt glott og loksins opnaðist hurðinn inn í ruslaskápinn og hún rétti út framfæturna. Móðir mín. Hurðin skelltist aftur og ámátlegt öskur barst og húsmóðirin dansaði undarlegan stríðsdans í kjölfarið, hristi sig alla og skók. Undarlegir eru siðir þessa fólks hugsaði músalúsin en var samt nokkuð ánægð því svona sterk viðbrögð gáfu til kynna að hér væri gagnkvæm væntumþykja til staðar. Hún var róleg og beið á sínum stað, hurðin opnaðist aftur og hún brosti og horfði djúpt og undirlát í augu húsmóður sinnar. Ég vildi bara þakka þér fyrir að leyfa mér að búa hjá ykkur, hurðin skelltist aftur, blótsyrði og annað fruss voru svörin sem bárust eftir þessa þakklætisyfirlýsingu, skrýtið, best að skjótast í burtu og athuga hvað gerist næst, hún tróð sér niður um gatið sem leiddi hana inn í óravíddir veggjanna og hvíldi sig, þetta tók á því hún var jú ekki vön svona samskiptum. Hún heyrði að eitthvað mikið gekk á í húsinu hennar...hún fylltist dásamlegri tilfinningu, það er hugsað um mig, mamma er að gera huggulegt hjá mér.

Hún læddist rólega að innganginum sínum. Það var búið að troða viskastykki í gatið hennar. Hmm skrýtið, en þá rann upp fyrir henni ljós, hún hafði nefnilega séð mannfólkið nota sængur. Þau er að gefa mér mína eigin sæng. Hún táraðist af gleði og hjartað hennar tók kipp þegar hún sá að það var líka búið að leggja á borð fyrir hana. Sérkennilegt borð skreytt glitrandi boga með girnilegum ostbita á sér miðju freistaði hennar. Hún ákvað samt að bíða aðeins því hún var búin að safna að sér smá forða í einum veggnum. Mest að klára það og geyma hitt til jóla...

Sunday, October 07, 2007

fjölskyldumyndir, önnur tilraun

Það er nú meira hvað tíminn líður hratt, það er næstum því alltaf helgi, sem betur fer. Hér er sem endranær annríki á öllum vígstöðvum en allir sáttir svona fyrir utan geðvonskuköst frúarinnar sem reyndar eru á undanhaldi því viti menn, tölfræðiskrímslið óvinur hennar er farið að taka á sig æ greinilegri mynd og er jafnvel skemmtilegt á stundum og jafnvel helvíti gagnlegt. Aldrei að vita nema okkur takist að bindast vináttuböndum. En þetta var góð helgi með sígildu pizzuáti og idoláhorfi. Mér tókst að fara einu sinni út að hlaupa og í leiðinni í þeim túr náði ég að fara á 2 myndlistarsýningar, misgóðar... en dýrmætt augnablik sem ég átti með sjálfri mér. Við vorum svo hjá Hirti og fjölskyldu í kristianstad á laugardagskvöldið og áttum mjög ljúfa stund með þeim og Magga Teits og fjölskyldu. Gróðursettum svo skrilljón haustlauka í góða veðrinu sem lék um okkur í dag og nutum dagsins með blandi í poka og okei lítið rómantískum heimalærdómi.

Læt fylgja með nokkrar velvaldar "ekkigrettumyndir" frá síðustu tveimur vikum.