Friday, April 25, 2008

Gleðilegt sumar


Gleðilegt sumar vinir mínir nær og fjær. Yndisleg vikan heldur áfram, sól og sumarylur og ég komin með far af útiverunni sem ég hef náð í lok vinnudags, tókst að skila af mér þremur verkefnum í vikunni og byrja á því næst síðasta þessarar annar, sem er svolítil eigindleg rannsókn. Það eru forréttindi að hafa foreldra sína hjá sér og fá að njóta með þeim kvöldstunda. Höfðum rækjuveislu í fyrradag og grillaðan kjúkling í gær en enn er óákveðið hvað kvöldið í kvöld býður upp á. það eru svona vikur þegar maður hefur allt, sól og fjölskylduna sem skilja eftir sig hlýju sem hægt er að sækja í þegar aðstæður eru þannig. Nú er það tesopi, hafragrautur með öllu og rannsóknarvinna....hún verður stutt í dag.

Monday, April 21, 2008

freknurnar fleiri en þrjár.

Íklædd gallapilsi, bleikrósóttum stígvélum, með úfið hár, bleikt gloss og rauðvín í glasi, stakk hún upp kryddjurtabeðið. Tók karlmannlega á sem var ekki alveg í stíl við stígvélin en kom myntunni sem var búin að skríða um allt kryddjurtabeðið og kæfa graslauk, timjan og steinselju til ólífis, í stálbalann. Þrýsti frekum mynturótunum ofan í balann, þéttaði moldinni vel að og fékkst ekki um skítinn sem þrýstist undir vel snyrtar neglurnar. Hún naut þess að finna sólina hita sig en fá samtímis vindkælingu, sem lyfti einnig gallapilsinu lítillega. Útsýnið vakti athygli nágrannanna sem stóðu út í glugga, hún veifaði, brosti og hló innra með sér. Best að gefa þeim ástæðu til að undrast yfir Íslendingunum eina ferðina enn. Hún handlék sumarblómin með blíðu og með natni gróðursetti hún þau í mismunandi potta með þeim loforðum að vel skyldi með þau farið. Þau kinkuðu kolli og litu stórum augum á nýja heimilið sitt, hreiðruðu um sig, hóstuðu lítið eitt og reyndu að finna þægilega stellingu. Hún festi gamla hakkavél made in Sweden á pall, tyllti fjólubláu blómi í og þreifaði á ávölum blöðum blómsins. Datt inn í hugsanir mjúkra munna og saup á rauðvíninu, roðinn í kinnum var vaxandi og freknurnar fleiri en þrjár.

Thursday, April 17, 2008

morgunverkin

Sit hér enn, skoða flug heim til Íslands, er með hjartsláttartruflanir yfir væntanlegum flugútgjöldum, þetta er ekki fyndið verð og ekki gott, passar ekki inn í sænskt budget, vildi við gætum farið syngjandi heim í staðin fyrir fljúgandi. Ætla út að hlaupa, læt verkefnahlaðann sem öskrar á mig draga úr mér mátt, rífst við sjálfa mig, víst fer ég út að hlaupa, verð duglegri í verkefnavinnu fyrir vikið, merkilegt hvað ég reyni að sannfæra mig um annað þó ég viti svo vel að hreyfingin er mín leið til að virkja kveikinn í mér. Þreytt eftir 4 tíma fund gærkvöldsins um hvernig hægt er að bæta heilbrigðiskerfið í Uganda hvorki meira né minna, langar að klára að lesa flugdrekahlauparann, fara til Kaupmannahafnar og kaupa mér kjól. Blöh er ég er á leiðinni inn í gnällkór Svía? Neibb, ég er hætt að "gnälla". Dagrún missti fyrstu tönnina sína í fyrradag, velur sér föt á kvöldin og raðar á gólfið snytilega í réttri röð. Hörður Breki stendur sig vel í må bra þemanu í skólanum og langar í skrefateljara, ég ætla að gefa honum einn slíkann. Valur stundar íþróttir, huga og handar og snóker kjuðinn hans er farinn að slitna. Hann eldaði líka plokkfisk, altso Valur en ekki kjuðinn, í gær úr íslenskum þorski, við borðuðum flatbrauð með og allir átu yfir sig. Ég hélt á yndislegri nýfæddri stúlku í gær, skoðaði litlu tásurnar og fingurnar og var snortin af þessum kraftaverkum sem stöðugt eru að gerast, ég er umvafin frjósemi þessa dagana, til hamingju vinir mínir nær og fjær sem eruð búnir að vera svo duglegir að eignast börn undanfarið, líka þið hin sem eigið eldri börn, til hamingju og til hamingju ég.....nú er ég farin að hlaupa

Monday, April 14, 2008

kjammsað á klukkutíma

Dásamlegt alveg hreint og ég smjatta og kjammsa vel á þessum klukkutíma, pásuklukktími og húsið svona hreint og fínt eftir vorhreingerningu helgarinnar, Valli hélt mér við efnið og gerði mér þann greiða að vera ber að ofan á meðan á þessum dúett okkar hjóna stóð. Ég datt í það að skoða myndir frá ferðalaginu okkar í ágúst 2007 til Tékklands og Póllands. Erum núna að skipuleggja fjallahéraðsferð til Rúmeníu í ágúst...slurp. En myndirnar já lýsa einu magnaðasta fjölskylduferðalagi sem ég hef farið í



















Wednesday, April 09, 2008

Sólarkveðja

Miðvikudagur, fyrsti dagurin í langan tíma þar sem ég næ í skottið á sjálfri mér og hef tíma fyrir hugsanir og hef því uppi áætlanir að sinna mér, fjölskyldu minni, heimili mínu og vinum mínum. Byrjaði daginn á því að sofa út, lesa skemmtibók sem heitir "húsvagnar". Fékk mér te og súkkulaði, sat aðeins úti á palli með bráðnandi súkkulaðinu og lagði línurnar í huganum um að koma pallinum í sumarskrúðann enda 14 gráður og sól í dag. Er ennþá í jogginggalla. Skrapp í ICA og keypti þrennskonar "powersápur" gluggarnir verða þvegnir á næstu dögum! Forgangsröðun er orð dagsins, þessvegna er húsið enn á hvolfi en ég hinsvegar er öll að ná mér saman eftir lengstu námslotuna og eiginlega erfiðistu, við komumst þó langt á partýi föstudagskvöldsins sem var alveg hreint algjörlega laust við "social event" syndrome, þemað var "the other side of you" þannig að ýmislegt krassandi var opinberað. Allir þó hálf slegnir yfir, þó vissulega nauðsynleg ráðstöfun, að það sé búið að reka Farhan tannlækninn minn og Dr Rza annar frá Pakistan úr náminu. Eiga það skilið, svindl og svínarí eru ekki þeir námshættir sem koma manni langt. En það er ekki hægt annað en vorkenna mönnum sem yfirgefa fjölskyldur sínar og börn, fara á milli heimsálfa að klúðra málunum sínum svona algjörlega, bara svo það sé á hreinu þá átti ég ekki nein tök í þessu þó ég hafi setið hér og tuðað löngum yfir ekkisamstarfi mínu við Farhan, tók snemma þá afstöðu að vera ekki sú sem klagaði hreinlega vegna þess að ég hafði ekki orku né löngun í það. En já annað orð dagsins er jákvæðni þannig ég vona að Farhan og Rza bara læri sína lexíu og þeir nái að rétta sig í tilverunni á ný.

Ég er búin að yfirheyra Val um Íslandsdvölina, hann kom ánægður og sáttur heim enda búinn að draga björg í bú. Stundum langar mig heim, stundum nenni ég ekki heim, stundum fæ ég þæginda og vellíðunartilfinningu við að hugsa heim en stundum fæ ég kvíðahnút við tilhugsunina að flytja heim, sem sé greinilega ekki tímabært allavega að fara á fasteignir.is. Við reyndar erum að láta okkur detta í hug að kíkja heim næsta vetur og máta Ísland meðan ég safna gögnum í litla rannsókn sem enn er bara fræ í huga en kannski vísir að masterverkefni mínu, en ég fór á fyrsta masterfundinn í gær og hlakka mikið til að bullast í þessu. Sjáum hvað setur. Allavega hlakka ég til að koma í sumar, heilsa upp á fólk, fjöll og firnindi. Fyrirhugað eru tvær til þrjár fjallagöngferðir,(hita sig upp fyrir Galdhöpiggen) gyðjupartý, hlaup í eyjafirði, sumarbústaðir mömmu og pabba, fiskiferð með pabba og fleira dýrindis sem þið kannski komið okkur á óvart með.
En jæja sólin skellihlær og segir mér að opna glugga, hurðir og lofta út ég tek hana á orðinu, fegin að hún hún sé ekki föst með nagla og nái því að gleðja fleiri sálir en mig.
Sólarkveðja til ykkar fallega fólkið mitt