Thursday, May 14, 2009

Monday, May 11, 2009

Að hreinsa til í fataskápum, geymslum, skúmaskotum og jafnvel eigin hugarskotum gefur tilefni til nýrra drauma.

Ég er glöð og fersk, hrein og fín. Er í fríi í nokkra daga áður en ég undirbý vörnina mína í byrjun júní. Hlakka til og í dag hef ég mestar áhyggjur af því í hverju ég ætla að vera á vörninni. Um helgina var tekið á ruslahaugum sem hafa fengið að safnast upp í skúmaskotum, geymslu, skápum og háalofti. Merkilegt hvað kemur upp þegar byrjað er að róta og undirbúa flutninga. Allskonar góss sem einhverntíma hafði gildi sem horft er nú á með undrun, hugsanlegu þakklæti fyrir liðnar gæðastundir en fær nú blákaldan dóminn "henda" "gefa". Gamlar skólabækur, glósur, föt, minjagripir, leikföng sem heimilisbúar eru vaxnir upp úr og blettóttir dúkar fylla ruslapoka. Það er merkilegt hvað þessu fylgir mikill léttir, allt í einu er andað dýpra og frelsið er fyrirferðameira. Það er t.d ákaflega þægilegt að opna fataskápinn sinn og vita að þar eru bara nothæf föt en ekki flíkur sem bergmála unaðsstundir liðinna daga. Djammbolir og buxur sem hafa skinið úr sér allt skin og aflausn þeirra gefa fyrirheit um nýjan slíkan búnað þegar fram líða stundir.

Ég fékk lokakomment frá proffsanum mínum á laugardaginn, varð feimin og glöð og er í vinnu við það þessa dagana að trúa því. Hann hefur verið spar á hrósin í þessu ferli okkar en svo kemur þetta hrós sem ég í hégóma mínum og stolti vil deila með ykkur:

Hej Brynja


Bra jobbat - endast minor comments
Detta är jättebra du är smart skriver bra, bättre än de flesta av våra doktorander
Good Luck
Jan

Jan Sundquist, MD, PhD
Distriktsläkare/Family physician
Professor and Director,
Center for Primary Health Care Research
Lund University/ Region Skåne
Consulting Professor, SPRC, Stanford University School of Medicine


Því miður kemst hann ekki á vörnina þar sem hann verður að kenna í Granada. En þessi maður hefur haft heilmikil áhrif á mig. Hann er í fyrsta lagi 6 barna faðir, um tíma var hann einstæður með 3 börn og flutti þá til Suður Ameríku til eigindlegra rannsóknastarfa, yngsta barnið 6 ára. Allt gekk vel og þau öll spænskumælandi í dag og með ævintýragen í blóðinu, allavega þessi maður sýnir að það er hægt að láta drauma rætast.

Draumar eru svo mikilvægir, að lifa þá er yndislegt, en nýjir draumar eiga alltaf að vera velkomnir. Umfang þeirra þarf ekki að vera stórt og betra er að þeir séu raunhæfir. Þeir gefa okkur hreyfanleika, svigrúm fyrir nýjar upplifanir og gleði sem fylgir náðum markmiðum og kraft til að setja sér ný. Að hreinsa til í fataskápum, geymslum, skúmaskotum og jafnvel eigin hugarskotum gefur tilefni til nýrra drauma.