Thursday, October 22, 2009

halfandhalf

Það var hvorki þokuloft né þungur sjór. Hún gekk sem mest hún mátti við hliðina á pabba sínum í allt of stórum stígvélum, þau áttu að endast næstu tvo vetur. Stórstíga pabbinn og smágerð stelpan skrifuðu skemmtilegar samsíða nótur í snjóinn, hraðar og trítlandi, þungar og djúpar. Skúrarnir hjúfruðu sig saman og rauð bárujárnsþökin virtust hreinni en venjulega. "Var mikill afli" spurði sú stutta, "ja allavega um 800 kíló" sagði pabbinn og tuggði svolítið pípuendann sinn. Hún leit upp og skríkti "og fæ ég að gella?" "ha jájá auðvitað, jájá" sagði hann og dró upp halfandhalf-pokann úr rassvasanum og tróð vel í pípuna.
(Árskógssandur okt. 1979).

Það var þokuloft en stilla. Hún stakk höndunum inn í flípeysuermarnar og horfði á ósköpin. " afi þetta er óðgeðslegt en líka svo fallegt". Hann hló og rétti henni gamla málarahanska í öllum regnbogans litum. "sjáðu hér eru garnirnar og finndu hér hvað þetta er gróft, það er af því steinbíturinn étur skeljar og steina". Hún snerti innyflin varlega , "hvað er þetta" "þetta er hrognpokinn" "jáhá, má ég fá pinna?" "pinna?" "já eða svona prik". Henni fannst þetta áhugavert, hún skoðaði fiskana og fannst sérstaklega gaman að strjúka fingrinum eftir svörtu röndinni á ýsunni, hún velti mikið fyrir sér hvar heilinn væri og þegar afi hennar tjáði henni að fiskar væru heilalausir en með kvörn og kalt blóð dillihló hún.
(Akureyri okt. 2009).














Sunday, October 18, 2009

gaman og já fimm



Afmælið, tvöföld veisla, ein stelpuveisla og ein fullorðins. Ljúfur dagur í takt við rigninguna sem gerði manni auðvelt að vera inni fyrir. Það var yndislegt að sjá Dagrúnu með vinkonum sínum, glaða, þær dönsuðu við undirspil Metallica og tóku júróvisjónslagara inn á milli. Dagrún er farin að svara spurningunum: "hvernig er í skólanum" og "ertu búin að eignast vini" með: "gaman og já fimm" í stað "veit ekki" það gleður okkur öll og skottan gisti hjá vinkonu sinni í nótt með sykurpúða í poka. Skrýtið að hafa hana ekki hérna í morgunsárið. Það var gott að hafa vini og fjölskylduna hér í gær, það hlýjar manni alveg frá hvirfli ofan í tær. Gleðin réði ríkjum, lætin og galsinn og ofát eins og venjulega.

spennandi
Glaðar
Mikið fjör
Dagrún og ósýnileg blaðra
frábærar
Þessi er handa Nönnu og Brynju Völu, við söknuðum ykkar
Þessi er handa Tobbu "manstu þegar við keyptum þennan kjól"?
læknaþing
Litli ormurinn
namms
Veisla
terta í maga og kerti á hausnum
dúllur
hlegið og melt
Dagrún og Karólína
þau taka sig vel út
.

Wednesday, October 07, 2009

bannað að kveikja á sjónvarpinu.

Sonurinn enn í júdófötunum og dóttirin með úfið hár og eyrun útundan húfunni, falleg bæði tvö. Við hjónin sæmilega hress, búin að jafna okkur eftir rifrildi fyrr um daginn sem rekja mátti til óskýrra skilaboða eða óskýrs skilnings eftir því hvort frúin eða kallinn hafði orðið. Frúin beið á vitlausum stað í 45 mínútur og karlinn á réttum stað, eða öfugt. Allavega mætti hann of seint en engin dó á meðan sem var gott. Frúin (kjellingin) sá húmorinn í þessu fljótlega og hætti við að það væri kallinum lífsnauðsyn að eiga farsíma, gerfiþörf og hún skammaðist sín í smástund.

Litli kisi Binni tók á móti okkur í gættinni ásamt heimasætunni. Stemmingin var strax rétt, hvorki útvarp né önnur tilbúin umhverfishljóð hljómuðu fyrir utan einstaka væl í geimúri. Lýsingin var mjúk og hlý og eldur ljómaði í gleri en ekki í stó. Kjötsúpuilmurinn fyllti húsið og húsráðandi var ekki feiminn við að hafa fitu á kjöti sem var gott. Allir borðuðu vel, Dagrúnu fannst þetta glæra best, altso soðið.

Hrútaspilið var kynnt til sögunnar, minnir á legg og skel en samt alls ólíkt og því hefur ný alvöru þörf skapast, hrútaspil þurfa kall og kella að eignast. Hjónin fóru í kollhnísa í skrabbli og voru ásökuð um að hafa ekki lifað lífinu í Svíþjóð öðru en því að spila skrabbl alla daga og krydda með rómantískum bloggsíðufronti, hér verða engar játningar sagðar.

Börnin spiluðu veiðimann, hrútaspil og kubbuðu. Stílbrot var framið í formi rískakna með jógúrtsúkkulaði, ágætt en betra var þegar harðfiskurinn var dreginn fram ásamt dýrðlegu kaffilatti sem tapari skrabblsins reiddi fram án exports og var það vel. Grænlenska þjóðsagan var lesin með mikilli alvöru en undirtektar litlar og lélegar. Þrátt fyrir mök konu og sæskrímslis, særinga og óveðurs var sagan samkvæmt börnum leiðinleg og viðburðalítil. Húslesturinn blandaðist um stund skapvonsku 6 ára drengsins sem langaði í meiri jógúrtköku en hann varð glaður á ný þegar hann fékk að leika við ljóðin. Ljóðin féllu í betri farveg enda íslenskufræðingurinn við lestur. Sagan um leiðinlegu hjónin og bóndann sem dó lifandi fegin voru fyndnar og látbragð hins 6 ára bættu um betur.

Þetta var gott baðstofukvöld og þegar heim var komið var bannað að kveikja á sjónvarpinu.

Saturday, October 03, 2009

Hún kallaði sinn "hundinn"

Hún hnipraði sig saman, þreytt á þessu leikriti. Hnúturinn óx og hún þrýsti lófunum á magann, upp og niður til að mýkja hann. Hún hafði lesið í blaði að best væri að láta sér þykja vænt um kvíðann og jafnvel gefa honum nafn. Hún kallaði sinn "hundinn". Hún hafð prófað að kalla hann "Snata" en fann það strax að það var útilokað, Snatar eru hlýjir og skemmtilegir og það var vissulega "hundurinn" ekki, helvítið. Hún kveikti ljósið, skyldi henni takast þetta enn einn daginn? Krakkarnir voru hjá pabba sínum þannig þessi morgun var allavega auðveldari en margir aðrir. Hún velti fyrir sér hvaða búning hún ætti að velja fyrir daginn í dag, 2 fundir, ein kynning, hópavinna og svo átti hún víst að sjá um að koma með föstudagsgúmmilaðið, fjárinn því hafði hún gleymt. Hún skellti sér í gallabuxur, hvíta skyrtu og vissi að ítölsku stígvélin og penir eyrnalokkar myndu fullkomna þetta, sjálfstæð, svolítið kærulaus, kona full öryggis. "Hhahahhahaha" djöfull var hún góð í þessu. "Verkefnið" lá á borðinu, hún myndi skutla því til kennarans á leiðinni í vinnuna, fínt. Hún hafði verið svo heppin að fá þetta efni þar sem hún hafði verið þróunarstjóri svipaðrar vöru í fyrra hjá fyrirtækinu. Hún vissi að það hafði ekkert með gáfur að gera að þetta var gott verkefni.

Hún tók súkkulaðikökuna úr álbakkanum, skellti henni á disk, dreifði óreglulega kókos yfir, sko alveg eins og heimabakað. Vinnufélagarnir myndu ekki fatta neitt. "Hundurinn" gelti og snéri sér í hring, helvítið. Hann sýndi tennurnar og hún hafði áhyggjur af svitablettunum sem voru að myndast undir höndunum, best að taka með aðra skyrtu til vara.

Hún stormaði inn, meðvituð, rétti úr sér og setti kökuna á borðið. Margrét brosti "hvað kemurðu með bakarísköku...æi skil þig vel" Djöfulsins tíkin, hudurinn ólmaðist en hún brosti bara, það hafði komist upp um hana.

Verk dagsins hófust og henni tókst að leika leikritið til fulls, hundurinn gróf beinin sín og pissaði í öll möguleg skúmaskot en hún hélt höfði. Henni tókst meira að segja að vinna aðeins í markaðsgreiningunni í hádeginu og hitta hópinn sinn á netfundi í kaffitímanum, eins gott þar sem næsti skiladagur var eftir viku.

Föstudagssundið, fasti punkturinn hennar. Þar leið henni oft vel enda merkilegt nokk var hundurinn þá nokkuð slakur, klóraði sér bakvið eyrað og geispaði.

Hún lét sig síga niður í pottinn, enginn sem hún þekkti, það var gott. Hún lokaði augunum og velti fyrir sér hvort kennarinn væri byrjaður að lesa verkefnið sem hún hafði skilað í morgun, hann væri líklega ekki lengi að sjá hvað það var grunnt og illa uppsett, ruglið í henni að halda að þessi drasl vara þarna í fyrra myndi koma henni áleiðis.

"Nei hæ er þetta ekki Antonía, gaman að sjá þig hér er ekki alltaf nóg að gera?"

Hún brosti og vonaðist að hjartslátturinn róaðist fljótt og að hundhelvítið slakaði á. "jú blessuð vertu, enda í 100% vinnu og svo í náminu"

"já er það, en gott samt að þú ert komin úr 150%, þannig var það þegar ég hitti þig síðast, hvað ertu annars að læra?"

Hún strauk hárið aftur og snéri sér yfir á magann, kannski gæti hundrassgatið hætt að skíta á sig, "jú hahaha ég ákvað að minnka það meðan ég tæki masterinn í viðskiptafræðinni með sérstaka áherslu á alþjóðaviðskipti, þar kemur sér svo vel að ég tala 5 tungumál"

"Ég skil nú bara ekki hvernig þú ferð að þessu"

"Veistu þetta er ekkert mál, og er ekki neitt neitt, ég er ekkert að stressa mig, læt þetta bara ráðast hahhahaa, maður má nú ekki gleyma að njóta lífsins"

"nei það segirðu satt, þú ert nú einmitt fyrirmynd í því elskan, alltaf svo flott og fín, veistu við ættum að fara að hittast yfir einni rauðri ha, ég er alltaf til, ég hringi í þig í næstu viku"

"Endilega Gulla mín"

Hún horfði á eftir henni, fegin að holan eftir hundinn sæist ekki, fjárinn enn var hún búin að koma sér í nýtt hlutverk, fljótlega yrði hún að leika vinkonuna sem allt getur, hún þrýsti lófunum á magann, hún hafði nefnilega lesið í blaði að best væri að láta sér þykja vænt um kvíðann og jafnvel gefa honum nafn. Hún kallaði sinn "hundinn".


Lok

Ps: klikkið á linkinn