Friday, March 05, 2010

réttur kvöldsins getur ekki klikkað fyrir vikið

Í bláum náttsloppi á föstudagsmorgni, tesopi, hvorki glossuð né greidd, quality time eftir annasama vinnuviku. Horfi æðrulausum augum á venjubundið drasl sem slappar af með mér. Við munum takast á síðar í dag til að gefa hvítum liljum meira næði til að njóta sín. Hitamælirinn segir 7 og snjórinn brunar niður húsþakið og segir þetta gott í bili. Fyriheit um vor gleðja mig og ég er búin að ímynda mér trén í garðinum með græna slikju við það að springa út og Kaldbakur er komin í ný föt, var nú komin tími til að brjóta upp hið hvíta átfitt.

Allt er í ljómanum sómanum en leitt að Friðrik V sé ekki lengur við völd. Mér finnst "mottumars" dásamlegur og hvet alla karla að safna yfirvaraskeggi. Ég læt vera að hvetja konur til þess arna, það er viðkvæmt mál.

Jan og feb voru ágætir, mest þótti mér um að upplifa aftur eftir langt hlé þessa dásamlegu bleiku birtu sem er guð. Var búin að gleyma, og það má ekki, hversu fallegt er þegar fjallstopparnir teygja sig upp í morgunsólina. Ég fékk mér þorramat einu sinni á diskinn minn og það nægði, finnst betra að fá mér sushi og helst með vinkonum. Ég fór í nokkrar vinnuferðir og það var minn vinnubónus að ná að hitta Frostann, Pallann og Dísina og horfa á fjöllin á leiðinni til Selfoss. Ég fór í rauðu stígvélin og dansaði í takt við aðrar konur til að vekja athygli á hjarta- og æðasjúkdómum kvenna og miðla leiðum til varnar. Ég hitti ástkæra vinkonu sem býr í Sverige og gaf henni fyllt eggaldin stútfull af hollustu og væntumþykju og ég fór í partý með vinnufélögum mínum og fékk mér konjakk. Ég lyfti pensli og hlustaði á Lars Winnebeck um leið, það var gott threesome.

Hef verið löt að bjóða í mat. Vetrarslenið náði smá tangarhaldi á mér og þetta leiðinlega brjósklos, vorkenni mér samt ekki, hættulaust sem betur fer. Heyrði fallega setningu í gær manns sem kallar ekki allt ömmu sína og var í stórri hjartaðargerð, "það er bara ein leið til og hún er upp á við". Flott og einmitt þannig er það, "Það er ekki annað í boði", setning sem ég segi staðfastlega við börnin mín þegar þau vilja fá eitthvað annað en það sem er í boði á diskinn sinn.

Í dag með mátulegri leti, tiltekt og öðru ætla ég að velta fyrir mér hvað ég hef og vil hafa á disknum mínum. Bæði huglægum og hlutlægum, það er pottþétt að réttur kvöldsins getur ekki klikkað fyrir vikið. Ég mæli með að þið gerið slíkt hið sama.

Föstudagsknús á ykkur öll og well mig langar í föstudagsknús til baka.