Thursday, April 23, 2009

silfurspriklandi fiskitorfan er í augsýn.

Hér er lítið skráð en því meira unnið í mastersrannsókninni minni. Ég hugsa sem endranær til ykkar en þar sem lokaverkefnið bjagar forgangsröðunina þessa dagana þá er hér örlítil lágdeyða, samt viðvarandi andvari og sól í lofti. Ég sný aftur þegar nokkrar vikur af sumri eru liðnar. Verið nú dugleg að njóta alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða og farið vel með ykkur og ykkar.

Svona er ég alla daga skælbrosandi við rannsóknarstörf eða næstum því, koma inn á milli dagar þar sem hárið er reytt og neglur nagaðar og rannsóknarsjálfstraustið rúið orku. En nú sér fyrir endann á þessu og það er róið rösklega og silfurspriklandi fiskitorfan er í augsýn.

Wednesday, April 15, 2009

kartöflusúpa og panflautuleikur Orra

Fyrsta útgáfa masterverkefnisins míns farið og mánuður þar til lokaskil eru, yndislegt og ég mun hampa lýðheilsufræðititlinum áður en ég veit af. Í draumum mínum er ég líka búin að selja húsið mitt. Allavega ég er endurnærð eftir yndislegt fríið. Það var svo gaman að hitta Orra, Þóru og barnaskarann þeirra. Við nutum augnabliksins en náðum samt að dagdreyma um ókomna tíma á Akureyri. Það verður yndislegt að hafa aðgang að kartöflusúpu og panflautuleik Orra. Marathon voru hlaupin í vínarbrauðsáti, strandaferðum, dýragörðum, útiferðum, gufuböðum, freyðiböðum og sjóböðum, varðeldum, spjalli, marsmellósgrillun og ekki má gleyma Eje Bahnehöj hæsta "fjalli" Danmerkur. Yndislegt. Hér koma myndir.

Jíha
yndislegust
þetta voru góð egg
Orri er svo rómó
ein loðin kónguló og einn loðinn strákur
Vínarbrauðið er í maganum
Frosti litli
Hoppandi
Stórt fiskabúr
Dagrún og Íris langsætastar
Marsmellós, svona ljómandi klístrað og fínt
Æi greyið
Leika sér á dönskum leikvelli
Fallegur
krabbakló
Hnjooo
uhm
Kuðungarnir mínir
Tyggjókúla í sandi
Noregssnót
Ari
Skeljatínsla
Fallegt
Svona lagleg hjón

Monday, April 13, 2009

mynd af Val á brókinni...

það fór mjúklegum höndum um okkur blessað fríið. Við erum komin heim eftir mörg góð og notaleg ævintýri í Danaveldi. Þegar verkunum sem hafa setið á hakanum er lokið set ég inn fleiri myndir en til að halda ykkur heitum kemur mynd af Val á brókinni...

Friday, April 03, 2009

hvorki mynd af mús, hesti né Val á brókinni.

já hvað get ég sagt, þessi vika er í raun búin að vera ósköp ljómandi góð, hefðbundin en dásamlega sólug. Ég sit og rýni í tölur og held í hendina á tölvunni minni nokkra tíma á dag, við elskumst og rífumst og drekkum mikið te, english breakfast. Tölurnar sitja um mig í vöku sem svefni, elta mig á næturnar í formi ókláraðra stúdentsstærðfræðiprófa meðan Valur liggur við hliðina á mér, dreymandi um að vera á brókinni á Glerártorgi í jólaösinni, veit ekki alveg hvort er betra.

Draumarugl okkar hjóna má líklega skrifa á áhyggjur varðandi húsasölu en áhuginn á húsakaupum þessa daganna er eins og smár, rænulítill og hræddur músarungi. Við horfumst í augu við að hafa fjárfest meðan músin gladdist, dansaði og spilaði á fiðlu í rauðum skóm. Öll partý enda og föl músin fylgir okkur taktvisst og við höfum svolitlar áhyggjur af henni. Íslandshesturinn okkar horast niður ræfillinn, hann ber sig þó vel enda klyfjaður reynslu, þekkingu, gleði og kláruðum verkefnum þannig rýrð er ekki á hann sleginn, þessa elsku. Enn er hann vel tenntur með alla burði til að hlaða á sig kílóum á ný. Við reynum að halda lífi í músinni, gefum henni vatn og vítamín. Vítamín plan B og vítamín plan C, lúra ennþá í makindum enda A vítamín planið besti kosturinn og það vinsælasta hjá okkur, heim í sumar viljum við fara. Við sjáum svo til hvað gerist, kannski er þarna fjölskylda sem vantar hús eins og okkar sem bankar upp á fljótlega og tryggir músinni okkar allavega heilsu og væna strigaskó. Allt í lagi þó hún leggi rauðu skónum sínum, þeir eru slitnir og úr sér gengnir, músin er orðin reynslunni ríkari, praktískari og vill endingabetri skó, sem má skreyta eftir hentugleikum, uppáhaldsliturinn hennar er bleikur.

Indæli föstudagur,við Dagrún eltum appelssínugult fiðrildi, það kom alltaf tilbaka til okkar boðberi hláturs og kætis, sem sé yndisleg stund sem við mæðgur áttum í garðinum í dag. Við náðum mynd af gleðigjafanum en því miður fylgja ekki með myndir af mús, hesti né Val á brókinni.

Á morgun koma góðir gestir.