"Fegurð, gleði, friður-
mitt faðirvor.
Mátti til með að setja þessa setningu hér úr ljóði eftir Kristján frá Djúpalæk, finnst hún falleg enda leiddi hún mig inn í svefninn í gærkvöldi. Í annríkinu undanfarið hef ég átt athvarf í lestri eftir tveggja ára svelti frá öðrum bókum en skólabókum, kær nýbreytni verð ég að segja enda var ég næstum búin að gleyma hvað hægt er að verða glöð af orðum. Hugsanlega leggst ég í íslensk ljóð líka vegna þess að nú styttist í að við komum alkomin til ættjarðarinnar, allavega í bili enda aldrei þessu vant temjum við okkur fullorðinshegðun og setjum okkur lengra plan en tvö ár. En við óskum þess og viljinn til að temja sér það hugarfar að vera um kyrrt í góðan tíma er til staðar. Að renna inn "the middle life" heitir þetta víst, gefum þessu fimm ár allavega svona í upphafi ferðar, sjáum hvert það leiðir okkur en lokum ekki á annað. Sumarið hefur auðvitað einkennst af undirbúningi heimferðar, það þarf að pakka öllu rækilega og merkja, við erum komin vel áleiðis enda kemur gámurinn sem ætlar að halda utan um búslóðina okkar yfir hafið á morgun. Milli pökkunarstríða höfum við notið þess að hér hefur verið miðjarðarhafshiti síðustu vikurnar, buslulaugin hefur verið óspart notuð og skammarlega margir ísar hafa verið innbyrgðir. Fjöldi kveðjustunda eru ekki á fingrum taldar undanfarið, íþyngjandi, erfiðar en minnandi á hvað hér hefur verið gott að vera. Skrýtið hvað mörg smáatriðin verða stór þegar þeirra er notið í "síðustu" skipti. Skokkleiðin mín hefur sjaldan verið fallegri, vindmyllurnar og víðáttan hafa aldrei verið eins tignaleg, hérarnir hafa sjaldan hlaupið eins glaðlega yfir engi, Lundarmiðbærinn hefur aldrei verið jafn ljúfur, umvefjandi og allar aldurskornu byggingarnar, dómkirkjan, bókasafnið, aðalbygging háskólans heilsa með tryggð í rómnum eins og sátt manneskja með loforð um að þarna haldi þær áfram að vera. En það er samt erfiðara að kveðja fólk, vini sem við sjáum ekki fyrr en næstu jól ef heppnin er með okkur og aðra sem óvissan ein leiðir í ljós hvenær við sjáum aftur.
En ég er sátt, ánægð með alla þá uplifun og lærdóm sem síðusta fjögur ár hafa gefið mér. Það er góð lexía að vera sjálfum sér og sínum nánustu nægur, að vera útlendingur, að læra nýtt mál, að takast á við hluti sem annars hefði verið auðvelt að sópa undir teppi, að kynnast nýju fólki með ólíkar upplifanir í fararteskinu, að temja sér "lagom" og endalaust meira. Ég er þakklát fyrir þetta fjögurra ára ferðalag sem er orðið gott í bili, í bili er varnagli sem ég þarf að hafa því markmiðin og draumarnir bera mig víða.
Í dag er það afslöppun og innöndun á öllu því góða sænska, á miðvikudaginn lokum við hurðinni á Signalvägen 20 og leggjum af stað í ferðalagið heim.
Sunday, July 05, 2009
Subscribe to:
Posts (Atom)