Thursday, April 19, 2012

Það er gott fyrir mig eins og sumarið og EvróvisjónÉg vaknaði með svolitla dásemd í kollinum, lagið "Je veux” stórlega viðeigandi meðan Sumardagurinn fyrsti skýtur rótum. http://www.youtube.com/watch?v=Tm88QAI8I5A

Dagurinn hófst á útsofelsi, koma börnum á fjall og í fjöru, eða næstum því. Annað fór á skíði, hitt á leiksýningu. Ég sit nú í gyðjustemningu í Hofinu og prenta út nótur í gríð og erg sem eiga að spilast 5. maí í Hofi. Evróvisjóntónleikar með sinfóníuhljómsveit, kór, bakröddum og alles, cést la vie fyrir nördinn í mér, Þetta er skemmtilegt. Finnst forréttindi að fá að leggja mitt af mörkum til menningar og eflingar á upplifunum Akureyringa og annarra, það er partur af lýðheilsu og tja brynjulegt. Ég fæ mér kaffelatté og hlusta á fleiri lög með Zaz og auðvitað fylgja Evróvisjónlögin með. Læt mig dreyma með því um sumarrómantík í tilefni dagsins. Inn í þeim hugsunum eru háin þrjú: Humar, Hrísey og hlátur. Ekkert endilega í þessari röð.

Það er langt síðan ég kíkti hingað inn, þykir þó vænt um þennan stað. Þetta er eins og góð og gömul frænka. Held ég líti hér inn allavega einu sinni á ári. Það er gott fyrir mig eins og sumarið og Evróvisjón.

Friday, January 28, 2011

Rjómahnoðrar

Skýjamyndirnar sýna rúllandi rjómahnoðra, æðrulausa en markvissa fiskitorfu sem syndir framhjá í rólegheitum í gullnu freyðibaði. Hún er öfundsverð. Henni tekst nefnilega að halda sínu striki þrátt fyrir vindáttir úr ýmsum áttum sem hvísla reiðilega að henni löngu búnar að gleyma gæskunni. Fiskitorfan er ein heild en þegar vel er gáð má sjá smáfiskana sem hana mynda. Hver og einn sáttur við fiska og menn, sammála um að sigla í gegnum þetta boðberar þakklætis, kjarks og glaðværðar.

Þær eru margar sýnilegar og áþreifanlegar vindáttirnar sem blása og bera í sér ógnir á borð við svínaflensu og stjórnlagaþingleysu. Sýnilegar ógnir eru þó þeim kosti gæddar að það er gjarnan hægt að bregðast við þeim á markvissari hátt en þær sem hljóðlátari og ósýnilegri eru, þessar sem læðast og ná tangarhaldi á sjálfinu á svo lúmskan hátt að sjálfið áttar sig ekki einu sinni á því að svona hafi þetta ekki alltaf verið. Kjarkleysi er ein hinna hljóðu ógna, vanþakklæti önnur og fýla hin þriðja. Saman myndar þær kokteil óhamingju og biturleika sem hjá fæstum eru markmiðin með lífinu.
Það skrýtna er að þrátt fyrir að innst inni gerum við okkur öll grein fyrir mikilvægi þess að líta í eigin barm og þakka fyrir okkur þá gerum við það of sjaldan, blinda á gjafirnar sem okkur eru gefnar er ein af aðaleinkennum fýluflensunnar sem hrjáir of marga. Sýktir agnúast út í allt og allt og eru með ósýnilega kryppu á bakinu. Þeir láta ill orð falla um náungann, bera tennurnar og njóta því miður ekki kvöldverðarins með fjölskyldunni, missa af vetrarbirtunni, missa af lífinu hreinlega. Vissulega berum við byrðar sem sliga og við vitum að gjöfunum er ekki útdeilt á sanngjarnan hátt. En í guðsbænum látum vera að vera meðvirk, það gerir alla veikari.

Lækningin er einstaklingsbundin en boðorðin þrjú þakklæti, kjarkur og glaðværð hefur reynst góð lyfjablanda. Það erfiða er þó að hún hvorki fæst í náttúrlækningabúð, gegn lyfseðli eða í hillum Bónusar. Það þarf að hræra í sjálfum sér allduglega og með meðvituðum hætti, stöðugt, því þetta virkar ekki bara á nokkra klukkustunda fresti. Lækningin getur tekið langan tíma og viðbúið er að bakslög komi reglulega yfir tímabilið. Látið samt ekki deigan síga, einsetjið ykkur að flétta boðorðin þrjú inn í daglegt líf.

Finnið rjómahnoðrann innra með ykkur og búið til ykkar útgáfu af gullnu freyðibaði.

Thursday, December 02, 2010

Lofandi jóladagur handan við hornið

Hann fann hvernig gleðin var að taka enda, hún var byrjuð að fjara út. Hann hélt á síðustu gjöfinni og leit ástúðlega á frúna, „gjörðu svo vel þessi síðasta er frá mér“. Rauður pappírinn glitraði svo fallega og skreytt gjöfin sem hafði verið svo vandlega innpökkuð í versluninni með gervigreni og glimmerborðum var orðin svolítið þvæld eftir að hafa verið neðst í gjafahrúgunni. Frúin opnaði pakkann hægt og rólega. Hann fann síðustu innspýtingu þessarar nautnar sem fylgir því að gleðja ástvin hríslast um sig og andvarpaði djúpt og fann magann snúast um leið. Hann streittist á móti en óþægindin voru mætt. „Guð almáttugur minn, Guðfinnur ertu alveg frá þér“ hrópaði frúin fagnandi um leið og hún klæddi sig í kápuna. Sú dýrasta í búðinni en sölukonan hafði sannfært hann um að hver kona ætti skilið að eiga allavega eina slíka yfirhöfn og hann lét því undan þrátt fyrir að hafa verið búin að kaupa bæði armbandsúr , undirföt og auðvitað bækurnar sem frúin hafði verið búin að merkja við í bókatíðindum.
Þetta var síðasta gjöfin. Hann hallaði sér afturábak í sófann og víkkaði í beltinu. Börnin voru spilandi tölvuleikina sína og konan týndi upp sundurrifinn gjafapappír og tætingsleg skrautbönd sem breiddu úr sér á stofugólfinu rúin töfrum. Hann gaf eftir. Kvíðin og sektarkenndin gengu yfir hann eins og brotsjór. Hann lokaði augunum og andaði þungan, kvíðinn efldist og sló í takt við allt of saddan maga. „Guðfinnur minn, rosalega fer vel um þig“ sagði frúin um leið og hún settist við hliðina á honum með bók í hönd og hjúfraði sig upp að honum. Hann brosti, þagði og teygði úr sér um leið og hann hugsaði í örvæntingu um hvernig hann ætlaði að greiða jólaskuldina sem glotti handan við hornið, stærri og ljótari en nokkurn tíma.
________________________________

Hann fann fyrir þessari einlægu jólagleði. Hann var fyrst og fremst sáttur. Krakkarnir horfðu á hann spennt „núna er komið að pakkanum hennar mömmu pabbi, gerðu það“. Hann náði í stærsta og síðasta pakkann undan jólatrénu. Margar tegundir af jólapappír voru margvafðar um gjöfina ásamt límbandi með myndum af grenitrjám og jólasveinahúfum, afskaplega ljótt, víða lauslímt eða klesst og gaf pakkanum engan sérstakan glæsileika. Form hans minnti mest á stækkaða mynd af mislukkuðu trölladeigsföndri sem reynt hafði verið að bæta með gullmálningu og glimmerspreyi. En alúðin var allavega greinileg og ljóst að börnin höfði hjálpað til við innpökkunina. Hún gat ekki annað en hlegið „hvað eru eiginlega að fara að gefa mér, vorum við ekki búin að ræða þetta? Er þetta risaeðla eða hvað?“ Hann leit alvarlega á hana, orðinn frekar stressaður, kannski myndi hún fara í fýlu þar sem þau höfðu samið um að þau gæfu hvort öðru engar jólagjafir í ár, „opnaðu bara“. Hún reif í pappírinn af áfergju en átti í mestu vandræðum með að komast í gegnum litskrúðug marglímd lögin. Hún skellihló og krakkarnir tættu í pakkann með henni. Það sást í gripinn og hún þagnaði og hreyfingar hennar urðu nærgætnari og hún hætti að hlæja. Svo lá hann þarna í öllu sínu veldi, gripurinn, gamli gítarinn, svolítið lifaður. „En hvernig....ég hélt að þú hefði hent honum fyrir löngu í einhverri geymslutiltektinni?“ sagði hún. „Það er orðið svo langt síðan ég hef spilað, ég hef engan tíma en...„ hún tók upp gítarinn og sló nokkra tóna ástúðlega, „ég hef saknað hans“. Hann hallaði sér afturábak í sófann og víkkaði í beltinu. Hugsaði sér samt gott til glóðarinnar, alltaf gott að narta í leyfarnar. Hann hlustaði á frúna glamra heims um ból á gítarinn og dottaði. Handan við hornið beið nartið, hrein sæng og lofandi jóladagur.

Saturday, November 20, 2010

Utan frá og innan frá

Ég er ekki kerling eða hvað? Stend nálægt fertugu en ég man þá tíð sem slíkur aldur þótti vera upphaf elliáranna tja eða miðbik þeirra ef hart var í ári. Hugsanlega er það afneitun á háu stigi eða hreinlega lífsins gangur að þetta verði bara betra með hækkandi sól þó það hljómi án efa sem húmbúkk í eyrum tvítugs einstaklings með mynd af bílnum í vasanum.
Það er eitt sem vex samhliða búkonuhárum á höku en það er dellan. Dellan er vinkona mín. Henni hefur tekist að finna sér marga farvegi í lífi mínu. Ein þeirra birtist í glysgirni og skrautgirni sem nær hámarki þegar jólahátíðin viðrar sig og kíkir fyrir horn. Mikið óskaplega finnst frúnni á Skólastígnum gaman að setja ljós út í glugga og dást að þeim hvort sem er utan eða innan frá.
Utan eða innan frá er gott en utan og innan frá er betra. Saman en sitt af hvoru tagi sjónarhorn sem glæða grámanum lit. Kærleikann þarf að sína í verki, fræðin þurfa að nýtast í praktík, fallegar hugsanir þurfa að birtast í orðum og gerðum. Verum mikið utan og innan frá dagana sem eru í vændum og alla daga ef út í það er farið. Leysum úr læðingi einlægnina. Setjið hana efst í bunkann og setjið Flýtinn og Græðgina neðst og helst í Kompóstið. Jamm I am what I am og ekkert annað jafnvel þó ég þjófstarti og setji aðventuljós út í glugga áður en það er leyfilegt á dagatalinu, mér finnst það bara vera svo utan frá og innan frá og þess vegna hentar það mér ágætlega.

Sunday, November 07, 2010

Myrkrið er úti ekki inni

Það er gott að vakna á undan öllum. Liggja inn í hlýjunni og einbeita sér að því að hlutsta á veðurhljóðin svolítið undrandi á því að það sé kominn morgunn, myrkrið er allsráðandi. Einmanna flaggstögg í nágrenninu syngur fyrir mig. Þessir taktföstu tónar þegar fánasnærið slær stöngina fylla mig alltaf þægilegri angurværð en ég heyri samt engan krumma krunka. En það er allt í lagi myrkrið er úti ekki inni. Karlinn rumskar enda rjúpnaveiði framundan, það er hans algleymi. Morguntebollinn stendur fyrir sínu og þessi notalega sunnudagstilfinning eflist með hverjum sopa. Hugsanirnar dreifast víða ekkert sérlega markvissar, þetta er spurning um að bara vera. Í botni tebollans næ ég í tilfinningar mínar og leyfi þeim að veltast til í munninum áður en ég kyngi. Friður er sú sem kemur fyrst. Þægileg öryggistilfinning sem segir bíum bíum bamba. Sú næsta er tilhlökkun í takt við jólafiðringinn sem vex og dafnar rólega inn í mér eins og efnilegur vindslæðingur sem gefur fyrirheit um almennilegt veður. Ég á von á góðum jólagestum frá Ameríku, við ætlum að hittast og þemað verða ljótar jólapeysur og eggjapúns, það styttist líka í hin árlegu Kleinachten, þau tíundu í ár, jahérna. Söknuður blandast inn í tilfinningasúpuna, vinir minir búsettir í Sverige komu í gærkveldi og borðuðu steiktan fisk og færðu mér fangfylli af dásamlegum pottaleppum sem verða spegluð í málverkum, ég sé þau næsta sumar aftur, þá ætlum við í sumarbústað. Drengur fæddist í síðustu viku, á 10 mínútum svo var hann ákafur í heiminn en hann býr langt frá mér, en þó ekki svo, Helsingborg er ekki svo fjarri. Rauðhærða hyskið mitt í Lundi er alltaf í huga mér. Samhliða þessu jótra ég á dásemdinni sem ég hef, hana get ég ekki upptalið hér til fulls en feitur er bitinn svo úr honum drýpur og dugar mér lengi. Systir mín málar og sparslar og undirbýr komu "fröken Blómfríðar" í bæinn, það er nú komin tími á að blessuð konan flytji í kaupstaðinn með búðina sína, svona fyrst sláturtíðinni er lokið. Fröken Blómfríður setur líklega upp í sig tennurnar þegar búðin opnar, vonandi allavega, það er huggulegra. Tennurnar mínar eru heilar, gott ég hef líka svo góðan tannlækni sem heitir Ásta, hún á líka fiðlu og rauða háhælaða skó.

Það er svo ósköp gott að velta fyrir sér allsnægtum sínum svona í morgunsárið. Vinna meðvitað í þakklætinu og skerpa á tilganginum. í dag legg ég á og mæli um að þið gerið það líka, jótrið á því góða í lífinu ykkar, ekki leyfa byrðunum að ná yfirhöndinni né gleymið ykkur í samfélagslegri kreppumeðvirkni, lítið í eigin barm og skoðið vel hvar þar er að finna, segið upphátt "vá þetta allt hef ég og í dag ætla ég að gera góðverk"

Saturday, May 08, 2010

pilsið í öfuga átt

Ég og norðangaddurinn hjóluðum saman í vinnuna í gær. Ég íklædd svörtu, rómantísku pilsi átti í fullu fangi með að halda því niðri því gaddurinn var eitthvað að reyna að komast inn undir. Ég gat ekki annað en flissað með pilsið í öfuga átt. Gaddurinn áttaði sig þó fljótlega á því að hvorki vildi hann valda mér blöðrubólgu né neyðarlegri hjólreiðarferð þannig hann róaði sig en glotti eitthvað hálf kvikindislega um leið, ég veit ekki hvað hann ætlar sér í framtíðinni skömmin. Í lok vinnudags vorum við Ingveldur samferða heim og völdum fallega leið með grenitrjám og klettum, rómantískar já, við liðum mjúklega fram hjá nývaknaðri náttúrunni og teyguðum að okkur vorkomuna, nei nei við vorum ekki móðar og másandi né með asnalega hjálma...hmmm eða ojæja við vorum allavega með gloss. Kvöldið var skemmtilegt á Pósthúsbarnum þar sem nemendum HA var þakkað fyrir framlag sitt í að kynna skólann. Það er svo hvetjandi og skemmtilegt að gleðjast með nemendum sem hafa lokið prófum og jafnvel skilað lokaverkefnum þann daginn, svo uppfullir af gleði, bjartsýni og skynsemi og merkilegt nokk þarna voru nemendur sem ég kenndi í menntaskóla, fyrirgefðu en það var í gær. Hmm hljóma ég gömul? Tja allavega lenti ég í harðri viðreynslu norðangaddsins um morguninn, þannig eitthvað hlýt ég að hafa enn til að státa af. Ég skutlaði þessum elskum á frekara djamm í rafmagnslausum bæ, þvílík hvíld og það í takt við logn, sól að kveldi og bleikan Kaldbak. Ég sótti stráksa minn í afmæli, hann fékk að sitja fram í og stelpuna til vinkonu og þau undrast enn yfir björtu kvöldunum og neita að sofa því það sé í raun enn dagur. Það náði svo sem ekki langt, duttu bæði útaf eftir heilmiklar vangaveltur um hvernig við myndum haga lífi okkar rafmagnslaus og umræðurnar spunnust út í hvað ef við yrðum vatnslaus, sorgarsaga en ennþá rómantísk þegar rafmagnið kom aftur og ég gat sofnað fyrir framan sjónvarpið. Í þessum skrifuðum býð ég eftir trallanum mínum sem sigrar alla vinda, við ætlum að svitna í ræktinni og fara svo í grautarbjóð og ef heppnin er með mér sannfæri ég trallann um afrek í grænmetisgarðinum, hann er allavega samt búin að mála snúrustaurana hvíta.

Saturday, May 01, 2010

sýróp

Vakna snemma
Borða hafragrautinn rólega um leið og blaðinu er flett
Hlusta á Robin og Nirvana
Lesa kaflana þegar Ásta Sóllilja fæddist og Rósa var jörðuð
Vökva nýsprottin lavenderfræ
Rífa upp grjót í garðinum og leggja línurnar í vorverkin
Baka köku og elda graut
Fá Ástu og fylgifiska í heimsókn
Gefa börnunum bláan bolta og kenna þeim Sjöupp
Fara vinahring með súkkulaðikökur, í pokum, skreytt með bandi og litlum fugli
Finna uppskrift að fylltum paprikum og hlakka til kvöldsins

það er hversdagur með sýrópi