Hann fann hvernig gleðin var að taka enda, hún var byrjuð að fjara út. Hann hélt á síðustu gjöfinni og leit ástúðlega á frúna, „gjörðu svo vel þessi síðasta er frá mér“. Rauður pappírinn glitraði svo fallega og skreytt gjöfin sem hafði verið svo vandlega innpökkuð í versluninni með gervigreni og glimmerborðum var orðin svolítið þvæld eftir að hafa verið neðst í gjafahrúgunni. Frúin opnaði pakkann hægt og rólega. Hann fann síðustu innspýtingu þessarar nautnar sem fylgir því að gleðja ástvin hríslast um sig og andvarpaði djúpt og fann magann snúast um leið. Hann streittist á móti en óþægindin voru mætt. „Guð almáttugur minn, Guðfinnur ertu alveg frá þér“ hrópaði frúin fagnandi um leið og hún klæddi sig í kápuna. Sú dýrasta í búðinni en sölukonan hafði sannfært hann um að hver kona ætti skilið að eiga allavega eina slíka yfirhöfn og hann lét því undan þrátt fyrir að hafa verið búin að kaupa bæði armbandsúr , undirföt og auðvitað bækurnar sem frúin hafði verið búin að merkja við í bókatíðindum.
Þetta var síðasta gjöfin. Hann hallaði sér afturábak í sófann og víkkaði í beltinu. Börnin voru spilandi tölvuleikina sína og konan týndi upp sundurrifinn gjafapappír og tætingsleg skrautbönd sem breiddu úr sér á stofugólfinu rúin töfrum. Hann gaf eftir. Kvíðin og sektarkenndin gengu yfir hann eins og brotsjór. Hann lokaði augunum og andaði þungan, kvíðinn efldist og sló í takt við allt of saddan maga. „Guðfinnur minn, rosalega fer vel um þig“ sagði frúin um leið og hún settist við hliðina á honum með bók í hönd og hjúfraði sig upp að honum. Hann brosti, þagði og teygði úr sér um leið og hann hugsaði í örvæntingu um hvernig hann ætlaði að greiða jólaskuldina sem glotti handan við hornið, stærri og ljótari en nokkurn tíma.
________________________________
Hann fann fyrir þessari einlægu jólagleði. Hann var fyrst og fremst sáttur. Krakkarnir horfðu á hann spennt „núna er komið að pakkanum hennar mömmu pabbi, gerðu það“. Hann náði í stærsta og síðasta pakkann undan jólatrénu. Margar tegundir af jólapappír voru margvafðar um gjöfina ásamt límbandi með myndum af grenitrjám og jólasveinahúfum, afskaplega ljótt, víða lauslímt eða klesst og gaf pakkanum engan sérstakan glæsileika. Form hans minnti mest á stækkaða mynd af mislukkuðu trölladeigsföndri sem reynt hafði verið að bæta með gullmálningu og glimmerspreyi. En alúðin var allavega greinileg og ljóst að börnin höfði hjálpað til við innpökkunina. Hún gat ekki annað en hlegið „hvað eru eiginlega að fara að gefa mér, vorum við ekki búin að ræða þetta? Er þetta risaeðla eða hvað?“ Hann leit alvarlega á hana, orðinn frekar stressaður, kannski myndi hún fara í fýlu þar sem þau höfðu samið um að þau gæfu hvort öðru engar jólagjafir í ár, „opnaðu bara“. Hún reif í pappírinn af áfergju en átti í mestu vandræðum með að komast í gegnum litskrúðug marglímd lögin. Hún skellihló og krakkarnir tættu í pakkann með henni. Það sást í gripinn og hún þagnaði og hreyfingar hennar urðu nærgætnari og hún hætti að hlæja. Svo lá hann þarna í öllu sínu veldi, gripurinn, gamli gítarinn, svolítið lifaður. „En hvernig....ég hélt að þú hefði hent honum fyrir löngu í einhverri geymslutiltektinni?“ sagði hún. „Það er orðið svo langt síðan ég hef spilað, ég hef engan tíma en...„ hún tók upp gítarinn og sló nokkra tóna ástúðlega, „ég hef saknað hans“. Hann hallaði sér afturábak í sófann og víkkaði í beltinu. Hugsaði sér samt gott til glóðarinnar, alltaf gott að narta í leyfarnar. Hann hlustaði á frúna glamra heims um ból á gítarinn og dottaði. Handan við hornið beið nartið, hrein sæng og lofandi jóladagur.
Thursday, December 02, 2010
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
4 comments:
Takk fyrir innleggið, gott innlegg í jólaundirbúninginn;)
p.s. skemmtilega skrifað hjá þér, alltaf svo gaman að lesa skrifin þín
kv. hbj
Brynja ég segi það enn og aftur að þú ÁTT að skrifa ástarsögu. Held hún yrði geðveik. Ég var bara orðin spennt og var viss um að Guðfinnur vildi nú eitthvað krassandi fyrir kápuna en svo endaði þetta bara á ljúfu nótunum hjá þér....ohhh bömmer hahahaha. Þú ert gullfallegur snillingur kæra vinkona. Bíð spennt eftir að sjá þig elsku krútta mín.
Fannsla.
Falleg skrif eins og alltaf Brynja mín, takk :)
Góð áminning, og lesning Brynja mín.
kveðjur úr miklum, fallegum snjó.
Hilma
Post a Comment