Saturday, December 19, 2009

Auðvelt að vera þakklátur

Ljúfi desember, í fyrsta sinn í nokkur ár þar sem prófalestur, verkefnagerð og þessháttar ófriður lætur ekki sjá sig. Í ár verða ekki bakaðar 3 smákökusortir og búið til rauðkál á þorláksmessu, heldur notið þess að vera í faðmi vina og fjölskyldu, rauðkálið er löngu tilbúið í frysti og smákökurnar renna í maga á aðventunni, dásamlegt. Vinnumál tóku jákvæða stefnu í mánuðinum. Ég fékk það skemmtilega verkefni að skipuleggja alþjóðleg barnajól í Ketilhúsinu sem var samvinnuverkefni Norrænu upplýsingaskrifstofunnar, nýbúadeildar Oddeyraskóla og menningarmiðstöðvar Listagils, svo flutti ég erindi á málþingi með heitið "er grasið grænna hinum megin" með tilvísun í búferlaflutninga Íslendinga til Skandinavíu, reglulega áhugavert og í kjölfarið var ég viðmælandi í þættinum
Okkar á milli 7.des ef þið hafið áhuga. Stuttu seinna var mér boðin vinna í afleysingu í eitt ár sem forstöðumaður markaðs- og kynningarsviðs HA. Frábært og ég er mjög spennt að takast á við ný verkefni en "HugHreysti" verður sett í salt um tíma þó auðvitað hugsjónin lifi. Börnin fengu góðan vitnisburð eftir önnina og glöddu okkur mikið. Það er alltaf gott að fá staðfestingu á velgengni, þau hafa lagt hart að sér. Vissulega þarf enn að vinna í íslenskunni en þetta er allt að koma. Dagarnir eru svo ósköp ljúfir og auðvelt að vera þakklátur. Allt er þegar þrennt er gjarnan sagt og á einni viku var pabbi, tengdamamma og tengdapabbi lögð inn á spítala, allir á sitthvorum deginum þó. Allir eru á batavegi og guðisélof að kvillarnir voru minni en á horfðist. Það er þó töluvert langt bataferli framundan hjá pabba en hann þjáist af mænuþrengslum eða Spinal Stenosa, hann er algjör hetja og ég dáist að honum og þolinmæði hans og við vonum öll að aðgerðin sem hann var í beri árangur svo hann fái meiri mátt í fætur og skrokk og dragi úr verkjum. En já ljúfi desember, við njótum þess svo innilega að vera hér á Akureyri og það er sérstaklega gott að geta lagt fjölskyldunni lið og notið samvista við hana. Veðrið er svo fallegt og þessi bleika birta sem lýsir fjallstoppana okkar er guð. Ég stend gjarnan við eldhúsgluggann minn og tala við Kaldbak meðan ég sötra te, já einmitt ég tala við tré og fjöll þannig er það bara;). Ég læt fylgja með myndir sem segja meira en allt en þær voru teknar 12.desember 2009.











Tuesday, December 01, 2009

Kleinachten 2009

smáréttirnir
Allt klárt
Systurnar
sósugerðarkonurnar
kvennaspjall
Herramennirnir
kjútipæs en þrjár vantar
gleðin
Gestirnir ásamt gestgjöfum
þessi skýrir sig sjálf
bæjarstjórinn
fyrrum Lundarbúar
Sérfræðingurinn stýrði spurningaleiknum
vinningshafarnir
látbragðsleikurinn sem breyttist úr sprungnu dekki í kamarferð kætti
Gestgjafarnir taka dansatriði
Namm
skyr getur líka verið skegg
Kleinachten tréð okkar
spennandi að opna pakkann sinn
dans, dans, dans
Palli og Áslaug
góð sveifla
og það var dansað...lengi

Saturday, November 21, 2009

find a way to give a little love everyday

Að vera minntur á hversu allt getur snúist við á einu augnabliki er góð lexía. Því fylgir auðmýkt og þakklæti fyrir allt og allt. Venjulegir dagar fá nýja sýn og hversdagsleikinn og hvunndagsáhyggjurnar eru guðvelkomnar. Hégómalegar óskir missa sín og hamingjuhugmyndin verður tærari og raunverulegri og efnishyggjunni er gefið langt nef. Gleði, fegurð, friður eru dýrmætir eiginleikar og við höfum öll okkar persónulegu skilgreiningu á þessari heilögu þrenningu. Vissulega geta ýmsir atburðir seinkað því að hún taki sér bólfestu í hjarta okkar en með jákvæðu hugarfari, bjartsýni og kærleika sem birtist í orði og verki aukum við líkurnar á tilkomu hennar. Nú er aðventan að renna í garð og eins og Celin Dion vinkona mín segir, dont save it all for Christmas day, find a way to give a little love everyday.

Sunday, November 15, 2009

Ást er

Ást er lykt af steiktum kjúklingi með kartöflum og grænmeti.
Allir sitja við borðið og börnin vilja blöndu af gosi og vatni því það er betra.
Saga er sögð af nautaati í Madrid, maður fær gat milli rifja og það er beðið um meira.

Ást er plastkassi fullur af legó, jólaljós og ropi í kaffivél.
Fullorðnir að lesa og dást að fallegum orðum.
Pabbinn með prjóna, mamman með svuntu og gesturinn með smásögu sem segir 1-0.

Ást er upplestur úr Lovestar og skólaljóðum, Móðurást og Bjössi litli á Bergi.
Fá sér döðlur með gráðosti, snjókarlaís og búa til klósett og legóhamborgara.
Fara seint að sofa og fá að sofna í mömmuogpabbarúmi.








Friday, November 06, 2009

brauð með sultu

Hamrandi,glamrandi hurðaskellir, gól og ákafleg gleðirík læti, brauð með rauðri sultu svo sundferð með skarann. Við Valur vorum hálffegin að koma þeim í sund þar sem við gátum dormað í heita pottinum meðan húsið okkar andvarpaði af feginleika yfir endurheimtri ró




Sunday, November 01, 2009

þegar lullið fær að vera frammí

Merkileg þessi ró, í takt við veðrið. Harla dásamleg og gott að leyfa henni að vera. Að lullast er gott, sérstaklega þegar lullið fær að vera frammí með ís og samviskubitið og sönnunarbyrðin eru í brúnum krumpuðum bréfpoka afturí ásamt samankuðluðu plasti utan af roastbeef samloku.

Dagurinn hófst á ferð í rúmfatalagerinn þar sem var keypt sokkagarn og batterí. Svolítil tiltekt og grautargerð fylgdu á eftir. Hrísgrjónagrautur með rúsínum og krækiberjasaft fylltu öll skúmaskot maganna og graskersskurður tók við og loks "the nightmare before christmas"... ár síðan síðast.