Saturday, May 08, 2010
pilsið í öfuga átt
Ég og norðangaddurinn hjóluðum saman í vinnuna í gær. Ég íklædd svörtu, rómantísku pilsi átti í fullu fangi með að halda því niðri því gaddurinn var eitthvað að reyna að komast inn undir. Ég gat ekki annað en flissað með pilsið í öfuga átt. Gaddurinn áttaði sig þó fljótlega á því að hvorki vildi hann valda mér blöðrubólgu né neyðarlegri hjólreiðarferð þannig hann róaði sig en glotti eitthvað hálf kvikindislega um leið, ég veit ekki hvað hann ætlar sér í framtíðinni skömmin. Í lok vinnudags vorum við Ingveldur samferða heim og völdum fallega leið með grenitrjám og klettum, rómantískar já, við liðum mjúklega fram hjá nývaknaðri náttúrunni og teyguðum að okkur vorkomuna, nei nei við vorum ekki móðar og másandi né með asnalega hjálma...hmmm eða ojæja við vorum allavega með gloss. Kvöldið var skemmtilegt á Pósthúsbarnum þar sem nemendum HA var þakkað fyrir framlag sitt í að kynna skólann. Það er svo hvetjandi og skemmtilegt að gleðjast með nemendum sem hafa lokið prófum og jafnvel skilað lokaverkefnum þann daginn, svo uppfullir af gleði, bjartsýni og skynsemi og merkilegt nokk þarna voru nemendur sem ég kenndi í menntaskóla, fyrirgefðu en það var í gær. Hmm hljóma ég gömul? Tja allavega lenti ég í harðri viðreynslu norðangaddsins um morguninn, þannig eitthvað hlýt ég að hafa enn til að státa af. Ég skutlaði þessum elskum á frekara djamm í rafmagnslausum bæ, þvílík hvíld og það í takt við logn, sól að kveldi og bleikan Kaldbak. Ég sótti stráksa minn í afmæli, hann fékk að sitja fram í og stelpuna til vinkonu og þau undrast enn yfir björtu kvöldunum og neita að sofa því það sé í raun enn dagur. Það náði svo sem ekki langt, duttu bæði útaf eftir heilmiklar vangaveltur um hvernig við myndum haga lífi okkar rafmagnslaus og umræðurnar spunnust út í hvað ef við yrðum vatnslaus, sorgarsaga en ennþá rómantísk þegar rafmagnið kom aftur og ég gat sofnað fyrir framan sjónvarpið. Í þessum skrifuðum býð ég eftir trallanum mínum sem sigrar alla vinda, við ætlum að svitna í ræktinni og fara svo í grautarbjóð og ef heppnin er með mér sannfæri ég trallann um afrek í grænmetisgarðinum, hann er allavega samt búin að mála snúrustaurana hvíta.
Saturday, May 01, 2010
sýróp
Vakna snemma
Borða hafragrautinn rólega um leið og blaðinu er flett
Hlusta á Robin og Nirvana
Lesa kaflana þegar Ásta Sóllilja fæddist og Rósa var jörðuð
Vökva nýsprottin lavenderfræ
Rífa upp grjót í garðinum og leggja línurnar í vorverkin
Baka köku og elda graut
Fá Ástu og fylgifiska í heimsókn
Gefa börnunum bláan bolta og kenna þeim Sjöupp
Fara vinahring með súkkulaðikökur, í pokum, skreytt með bandi og litlum fugli
Finna uppskrift að fylltum paprikum og hlakka til kvöldsins
það er hversdagur með sýrópi
Borða hafragrautinn rólega um leið og blaðinu er flett
Hlusta á Robin og Nirvana
Lesa kaflana þegar Ásta Sóllilja fæddist og Rósa var jörðuð
Vökva nýsprottin lavenderfræ
Rífa upp grjót í garðinum og leggja línurnar í vorverkin
Baka köku og elda graut
Fá Ástu og fylgifiska í heimsókn
Gefa börnunum bláan bolta og kenna þeim Sjöupp
Fara vinahring með súkkulaðikökur, í pokum, skreytt með bandi og litlum fugli
Finna uppskrift að fylltum paprikum og hlakka til kvöldsins
það er hversdagur með sýrópi
Subscribe to:
Posts (Atom)