Skýjamyndirnar sýna rúllandi rjómahnoðra, æðrulausa en markvissa fiskitorfu sem syndir framhjá í rólegheitum í gullnu freyðibaði. Hún er öfundsverð. Henni tekst nefnilega að halda sínu striki þrátt fyrir vindáttir úr ýmsum áttum sem hvísla reiðilega að henni löngu búnar að gleyma gæskunni. Fiskitorfan er ein heild en þegar vel er gáð má sjá smáfiskana sem hana mynda. Hver og einn sáttur við fiska og menn, sammála um að sigla í gegnum þetta boðberar þakklætis, kjarks og glaðværðar.
Þær eru margar sýnilegar og áþreifanlegar vindáttirnar sem blása og bera í sér ógnir á borð við svínaflensu og stjórnlagaþingleysu. Sýnilegar ógnir eru þó þeim kosti gæddar að það er gjarnan hægt að bregðast við þeim á markvissari hátt en þær sem hljóðlátari og ósýnilegri eru, þessar sem læðast og ná tangarhaldi á sjálfinu á svo lúmskan hátt að sjálfið áttar sig ekki einu sinni á því að svona hafi þetta ekki alltaf verið. Kjarkleysi er ein hinna hljóðu ógna, vanþakklæti önnur og fýla hin þriðja. Saman myndar þær kokteil óhamingju og biturleika sem hjá fæstum eru markmiðin með lífinu.
Það skrýtna er að þrátt fyrir að innst inni gerum við okkur öll grein fyrir mikilvægi þess að líta í eigin barm og þakka fyrir okkur þá gerum við það of sjaldan, blinda á gjafirnar sem okkur eru gefnar er ein af aðaleinkennum fýluflensunnar sem hrjáir of marga. Sýktir agnúast út í allt og allt og eru með ósýnilega kryppu á bakinu. Þeir láta ill orð falla um náungann, bera tennurnar og njóta því miður ekki kvöldverðarins með fjölskyldunni, missa af vetrarbirtunni, missa af lífinu hreinlega. Vissulega berum við byrðar sem sliga og við vitum að gjöfunum er ekki útdeilt á sanngjarnan hátt. En í guðsbænum látum vera að vera meðvirk, það gerir alla veikari.
Lækningin er einstaklingsbundin en boðorðin þrjú þakklæti, kjarkur og glaðværð hefur reynst góð lyfjablanda. Það erfiða er þó að hún hvorki fæst í náttúrlækningabúð, gegn lyfseðli eða í hillum Bónusar. Það þarf að hræra í sjálfum sér allduglega og með meðvituðum hætti, stöðugt, því þetta virkar ekki bara á nokkra klukkustunda fresti. Lækningin getur tekið langan tíma og viðbúið er að bakslög komi reglulega yfir tímabilið. Látið samt ekki deigan síga, einsetjið ykkur að flétta boðorðin þrjú inn í daglegt líf.
Finnið rjómahnoðrann innra með ykkur og búið til ykkar útgáfu af gullnu freyðibaði.
Friday, January 28, 2011
Subscribe to:
Posts (Atom)