Er komin á kaf í stjórnunar, skipulags og samskiptafög, kann vel við mig, kennslureynslan kemur sér vel enda hver bekkur eins og áhöfn í sjálfu sér og kennarann skipstjórinn. þvílíkur léttir annars að vera laus undan oki faraldsfræðinnar og líftölfræðinnar. Grátur og gnístran í skólanum en það birtust niðurstöður í dag, ég náði undangreindu með góðum árangri, himinlifandi glöð en þriðjungur þarf að þreyta þorrann aftur, mikið ofsalega er ég fegin að vera ekki í þeim sporum. Annars fátt að segja þar sem dagarnir byrja snemma og enda seint undirlagðir upphafi nýrrar annar. Er komin með góðan lestarstafla nú þegar á borðið og verkefnalistinn fyrirferðarmikill. En fögin eru ekki lengur framandi og óskiljanleg, það er gott að hafa komist í gegnum leiðinlegu byrjunarsíuna og sigla smám saman inn í fögin sem drógu mann í fagið. Fljótlega förum við á fund um nýjar reglur varðandi lokaverkefnið. Hlakka til að heyra um þau mál og ydda svolítið af annars góðum haug hugmynda, það er af mörgu spennandi að taka og dásamlegt að finna fyrir þessum eldmóði, ég hlakka til að takast á við þetta. Ok veit að án efa mun ég á einhverjum tímapunktum bölva fram og aftur svo mikið að Kolbeinn Kafteinn vinur minn mun roðna en æ þá tek ég bara Valíuna og segi "ó ég er svo fögur að ég gæti hlegið"
Ok ég veit lítið áhugavert blogg hingað til, fréttir? Nei svo sem ekki. Nannan stendur sig vel í skólanum og lætur lista- og ástargyðjuna í sjálfri sér njóta sín. Hörður Breki litli maðurinn minn æfir júdó 2 í viku og nýjasta dillan hans er að mála og setja saman kalla sem kallast "warhammer" mjög sniðugt, nokkuð skapandi, fín æfing fyrir fínhreyfingar og einbeitni. Dagrúnlillan er enn á prinsessutímabilinu sínu, hún var búin að safna sér pening sem hún fékk að eyða um helgina. Við reyndum að fá hana til að kaupa sér trivial pursuit disney spil en hún kom heim með bleikt barbihús sem hún reyndar er búin að leika sér í alla morgna núna áður en hún fer í skólann, þar eru teboð og afmælisveislur haldnar á hverjum degi og mikið um dýrðir. Framundan er allt við það sama, elskulegir vinir okkar Frosti og Palli eru á leiðinni til okkar í lok mánaðarins og við hlökkum svo mikið til og ætlum að draga þá með okkur í sjóbað. Vonandi verður hitastigið í sjónum allavega yfir 4 gráðum og engir dularfullir kallar með exi í gufubaðinu. Ætlum svo að fjölmenna öll til Andra og Rósu í Gautaborg og eiga samveru með þessum yndislega vinahópi. *dæs* jahérna er með skrifræpu, svo þægilega letilegt meðan börnin horfa á Bolibomba, sit hjá þeim með tölvuna í fanginu og horfi á ofvaxna elga og börn að læra að hjóla með öðru og blogga með hinu, augnablik sem er dýrmætt þegar það fæst sjaldan.
En o jæja er að hugsa um að fara að lesa glæpasöguna sem Valur gaf mér í jólagjöf en ég faldi hana fyrir sjálfri mér í prófatíðinni. Yndislegt að lesa skáldsögur á ný. Ah frábært get haldið aðeins áfram, fékk svo skemmtilega bók frá Rögnunni minni og Zipponum í jólagjöf, Yozoy eftir Guðrúnu Mínervudóttir. Las hana um helgina. Skemmtilega mannleg en draumkennd um leið, las í einum rykk og tuggði Wasabi hnetur á meðan, nýjasta æðið mitt og hefur þessa stundina ótrúlegt en satt vinninginn yfir súkkulaðið. En bókin já, full af athyglisverðu fólki og pælingum svo ekki sé talað um hvernig stelpan setur saman setningar, bara svo þjált og fallegt hverning hún notar orðin, blessunin. Pínu þunnur endir en náði engan veginn að spilla ánægjunni fyrir mér.
Elskurnar mínar bolibomba er búið, þetta var dagurinn í dag, Sendið mér smá geisla í kommenti.
Brynja