Sunday, August 16, 2009

Ætli ég eigi eftir að mala hana í veiðimanni í dag?

Elskuleg.

Ég sit í sófanum nýpússuð og fín eftir fyrsta útiskokkið síðan ég flutti heim, það gekk betur en ég átti von á eftir rískubbapartýið hér í gækveldi. Það er ósköp gott að vera komin heim til Íslands, merkilegt hvað allir hlutir verða einfaldari og svo lengi sem maður hlustar ekki mikið á fréttir fullar af stofnanamáli, "ef" orðum sem vekja kvíða og frekar illa sömdum og að því er oft virðist óígrunduðum fréttum þá er kreppan ekki í mínu lífi. 'Ég nýt þess að fara í íslenska sturtu á hverjum degi og vildi óska um leið að Íslendingar gerðu sér betur grein fyrir því hvað orkan okkar er mögnuð og ódýr ef út í það er farið. Það er merkilega þægilegt að vera ekki lengur útlendingur, að geta talað tungumálið sitt og sagt meiningu sína hnitmiðað með orðum sem ekki eru til annarsstaðar. Íbúðin okkar er yndisleg, verður yndislegri eftir því sem við verðum þreyttari í bakinu og fáum strengi á skrýtna staði. En þetta er allt að koma, Valur er í þessum skrifuðum orðum að setja flísar milli eldhússkápa, ber að ofan í smekkbuxum, fallegur. Garðurinn okkar er fullur af birkitrjám sem þegar sólin skín varpa skuggamyndum inn á heimilið og minnir á verk eftir Ólaf Elíasson. Nannan var hjá okkur í gær og skrýtið að hún sé svo bara að fara til Sverige aftur án okkar, fullorðinslífið er byrjað hjá henni en ég er viss um að hún spjari sig en auðvitað er ákveðin aðskilnaðarkvíði í gangi og eftirsjá, Við héldum upp á 11 ára afmæli frumburðarins 13. ágúst og því hefur húsið verið vígt hvað varðar veisluhöld, þetta var dásamlegt, vinir og vandamenn fylltu húsið og vinsælasta veislufangið var sænska kladdkakan. Hörður Breki er alsæll og í góðu jafnvægi. Dagrún er öll að koma til eftir strembið upphaf, hún saknar stöðugt Helgunnar sinnar en er núna á sundnámskeiði sem gerir hana glaða eins og hún orðar það og er búin að plata mig í daglega spilamennsku og ennþá er "veiðimaður" og "lönguvitleysa" vinsælust. Þegar spilamennsku dagsins er lokið ætla ég að fara að dedúast í vinnustofunni minni, taka upp úr kössum og búa hana undir sköpunarríkari notkun. Nú tosar Dagrún í ermina mína, ætli ég eigi eftir að mala hana í veiðimanni í dag?

3 comments:

hannaberglind said...

það er yndilegt að fá ykkur heim:)

Anonymous said...

kæru svikarar

til hamingju með afmælið og húsið.
Þetta lítur oggislega vel út.

Helga er saknar Dagrúnar mjög mikið. Verðum að gera eitthvað
í því þegar fram líða stundir.

k.Sveinbjörn og co

Fnatur said...

Kæra vinkona. Til hamingju með nýja heimilið. Yndislegt að heyra að hlutirnir gangi vel. Sakna þín en ég ætla að bæta úr því með símtali þegar allt er komið í rútínu aftir:)