Tuesday, April 27, 2010

alveg magnað

Skrýtið, hugmyndin vakti mig hún var svo mögnuð. Ég fálmaði eftir gleraugunum, kveikti ljósið og fór ekki hljóðlega. Ég varð að flýta mér áður en hugmyndin hyrfi í draumaheimum. Ég stökk fáklædd framúr og fann krumpaða kvittun í skattholinu mínu og ónýtan tússpenna. Ég sleikti tússinn í ofboði og þuldi orðin innra með mér. Loks náði ég að skrá hugmyndina ofan í máða tölustafi áður en ég hlammaðist í rúmið hjá trallanum sem hafði breitt upp fyrir haus. Ég sofnaði á ný, eins og sakleysingi. Um morgunin þreif ég strax kvittunina til að sjá meistaraverkið sem var eftirfarandi:

Slæður, slides, fläkt, muna lýsinguna Brynja


Þetta var alveg mögnuð hugmynd

Ég beið í röðinni, þolinmóð fyrsta korterið, 2 ltr af undanrennu voru öll ósköpin en lífsnauðsynleg fyrir morgunsárið og hafragrautinn, börnin biðu í bílnum, þreytt og vildu appelssínusafa, ég nennti ekki að hafa þau með í búðina. Sá loðni með skýið...svitaskýið afgreiddi. Hann taldi alla krónupeningana sem kvartbuxnamaðurinn hafði sturtað yfir borðið. Kvartbuxi var að kaupa sér rauðan winston. Þetta tók á, sá skýjaði taldi og ruglaðist, taldi og ruglaðist og röðin lengdist. Kvartbuxnamaðurinn horfði girndaraugum á winstonið, það vantaði upp á. Ég borgaði uppávöntunina og mitt. Ég fann fyrir góðmennsku minni á óþægilegan hátt, hefði frekar viljað splæsa í undanrennu handa buxa.

Þetta var alveg magnað góðverk

Jóhannes úr Kötlum sat við hliðina á mér, ég las í fimmtu bók. Gott upphaf um dreng sem sá krumma en langaði að sjá dúfu. Auðvitað drakk ég pepsi max með. Því næst blaðaði ég í bókum fyrir heimskingja "dummies" svo rétt sé með farið og náði í lokin að grípa niður i "vindlum farós" á ensku, íslenska útgáfan er svo miklu betri. Arnar kallaði matur, ofnbakaður fiskur með rækjum, grænmeti og rjóma. Börnin fóru út á línuskauta, ég hélt áfram að blaða í vindlunum, trallinn og vinurinn þögðu saman annar með te og hinn með kaffi.

þetta var alveg magnað kvöld

Þetta var alveg magnað kvöld í alvöru

Sunday, April 18, 2010

fræ í ykkar mynd

Sængin mín er rósótt í dag og eflir með mér rómantík og fær að knúsa mig ofurlítið lengur með hæfilegri leti í morgunsárið. Við byrjuðum á því að hlusta á Söruh Bisko en horfðum líka á mynd um Agnesi, frönsk kvikmyndagerðakona sem gengur aftur á bak rifjandi upp lífið og listina. Hún gerir það fallega og ég og sængin finnum samleið með henni. Hún segir sögur sem eru hlýjar, ástríðufullar, pólítískar, fyndnar en fyrst og fremst sögur úr hversdagsleikanum sem stundum eru sagðar í hvalsmaga eða íklæddri kartöflu.

Hér kemur ein saga úr mínum: Valur gengur inn í grænu úlpunni sinni með fangið fullt af hreinum rúmfötum, hvítum, grænbróderuðum. Hann hendir þeim í sófann hjá mér og ég anda innilega að mér útilyktinni

Þetta er fallegur sunnudagshversdagsleiki og Valli er fyndinn.

Agnes segir að að ekki sé hægt að stjórna tilfinningum. Ég og sængin erum ósammála henni. Það er nefnilega hægt, stundum. Sérstaklega er hægt að vanda sig og lita dagana með húmor og upplifun, koma auga á litina. Það er sunnudagur í dag, frídagur hjá flestum. Ég ætla hvorki að nota daginn til að vera reið né hrædd við náttúruna eða spillingu. Ég ætla að búa um sængina mína, skoða upprenndandi grænmetisgarðinn minn og kaupa fræ. Ég mæli með að þið gerið slíkt hið sama en í ykkar mynd og set ykkur það verkefni að skrásetja það hér.