Það er gott að vakna á undan öllum. Liggja inn í hlýjunni og einbeita sér að því að hlutsta á veðurhljóðin svolítið undrandi á því að það sé kominn morgunn, myrkrið er allsráðandi. Einmanna flaggstögg í nágrenninu syngur fyrir mig. Þessir taktföstu tónar þegar fánasnærið slær stöngina fylla mig alltaf þægilegri angurværð en ég heyri samt engan krumma krunka. En það er allt í lagi myrkrið er úti ekki inni. Karlinn rumskar enda rjúpnaveiði framundan, það er hans algleymi. Morguntebollinn stendur fyrir sínu og þessi notalega sunnudagstilfinning eflist með hverjum sopa. Hugsanirnar dreifast víða ekkert sérlega markvissar, þetta er spurning um að bara vera. Í botni tebollans næ ég í tilfinningar mínar og leyfi þeim að veltast til í munninum áður en ég kyngi. Friður er sú sem kemur fyrst. Þægileg öryggistilfinning sem segir bíum bíum bamba. Sú næsta er tilhlökkun í takt við jólafiðringinn sem vex og dafnar rólega inn í mér eins og efnilegur vindslæðingur sem gefur fyrirheit um almennilegt veður. Ég á von á góðum jólagestum frá Ameríku, við ætlum að hittast og þemað verða ljótar jólapeysur og eggjapúns, það styttist líka í hin árlegu Kleinachten, þau tíundu í ár, jahérna. Söknuður blandast inn í tilfinningasúpuna, vinir minir búsettir í Sverige komu í gærkveldi og borðuðu steiktan fisk og færðu mér fangfylli af dásamlegum pottaleppum sem verða spegluð í málverkum, ég sé þau næsta sumar aftur, þá ætlum við í sumarbústað. Drengur fæddist í síðustu viku, á 10 mínútum svo var hann ákafur í heiminn en hann býr langt frá mér, en þó ekki svo, Helsingborg er ekki svo fjarri. Rauðhærða hyskið mitt í Lundi er alltaf í huga mér. Samhliða þessu jótra ég á dásemdinni sem ég hef, hana get ég ekki upptalið hér til fulls en feitur er bitinn svo úr honum drýpur og dugar mér lengi. Systir mín málar og sparslar og undirbýr komu "fröken Blómfríðar" í bæinn, það er nú komin tími á að blessuð konan flytji í kaupstaðinn með búðina sína, svona fyrst sláturtíðinni er lokið. Fröken Blómfríður setur líklega upp í sig tennurnar þegar búðin opnar, vonandi allavega, það er huggulegra. Tennurnar mínar eru heilar, gott ég hef líka svo góðan tannlækni sem heitir Ásta, hún á líka fiðlu og rauða háhælaða skó.
Það er svo ósköp gott að velta fyrir sér allsnægtum sínum svona í morgunsárið. Vinna meðvitað í þakklætinu og skerpa á tilganginum. í dag legg ég á og mæli um að þið gerið það líka, jótrið á því góða í lífinu ykkar, ekki leyfa byrðunum að ná yfirhöndinni né gleymið ykkur í samfélagslegri kreppumeðvirkni, lítið í eigin barm og skoðið vel hvar þar er að finna, segið upphátt "vá þetta allt hef ég og í dag ætla ég að gera góðverk"
Sunday, November 07, 2010
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
8 comments:
lesið :)
svp
Takk.
Kv. Alma.
Takk fyrir skemmtilega og hlýja lesningu. Hún rann ljúft niður með kaffibollanum hérna megin. :)
Knús - Olga Björt
Gott að byrja daginn á svona lesningu
Þetta er næstum eins og talað frá mínu hjarta þennan sunnudagsmorgun. Við eigum svo margt til að hlakka og þakka fyrir..er hugsum að sleppa því að horfa á Silfur Egils í dag :)og hlusta frekar á Megas
Knús og kram
Ragna
Minn sunnudagur byrjaði ekki ósvipað og sá ég fram á lúfan dag þar til, mitt í kirkjuklukknaóminu, ég komst að því að stóra, mjúka, hlýja vatnsrúmið mitt var farið að leka!
kveðjur heim
Hilma
Ljúf lesning og alveg satt sem þú segir, við eigum svo margt. Vonast til að heyra frá þér á blogginu mínu líka mín elska ;) Og hvenær kemurðu svo suður svo ég geti hitt þig?
Kær kveðja, Ingibjörg
Takk Brynja mín - ljúf eins og alltaf. Takk fyrir þig og þína, ætíð!
Post a Comment