Saturday, April 08, 2006

Rómantík og páskaegg

kæra dagbók!
það er stutt þangað til við förum heim. Mikið verður nú gaman að sjá íslenskt landslag og fjöllin aftur. Stundum dreymir mig þau og einhverra hluta vegna alltaf í ljósaskiptunum, þannig að þau eru virkilega blá, græn og hvít og birtan svo mild og hrein..... greinilega komin tími á að kíkja á þau. Ég er orðin eins og skáldin forðum, sé allt í rómantískum blæ og búin að gleyma grámyglulegum rigningar og súldar dögum, tja svei mér þá ef mér finnst þeir ekki bara líka pínu rómantískir....Merkilegt hvernig ég líka upplifi rýmið öðruvísi þegar ég er í burtu frá heimahögum og kann betur að meta allt þetta rými sem við höfum heima. Geta andað djúpt og séð til allra átta og víðátta, einhversskonar tærleiki sem ég hef enn ekki upplifað hér í náttúrunni, spurning hvort Kebnekaise breyti því?

Málverkin mín bera keim af þessari rómantík, eiga tilvitnun í ís, tærleika og bjarta heima eins klisjukennt og það nú hljómar. Vil samt ekki trúa því að málverkin mín séu klisjukennd heldur frekar nokkuð áhugaverð. Ég get allavega sagt að það hefur verið yndislegt að vinna þau og vera hluti af þessum heimum með öllu því sem leynist í þeim.. vona að þú haldir ekki að ég sé komin með alvarlega veruleikatruflun, heldur einmitt skiljir að þetta er mín hugleiðsla.

En að hversdagslegri hlutum, erum núna að búa okkur undir ferðalag, ætlum sem sé að keyra til Noregs í kvöld.. Heimsækja bróður minn og fjölskyldu og kíkja á nokkra norska ættingja í leiðinni, Elísabetu og Hedvig gömlu sem hafa aldrei séð börnin okkar. Förum svo á þriðjudag, miðvikudag til Stavanger, til Orra og Þóru og verðum þar án efa í í lúxuslífi, fáum t.d. ferskar rækjur, slurp og ekki skaðar að mig grunar að Frosti og maðurinn hans Palli komi með páskaegg handa okkur. það verður svo nóg að gera. Því þegar við komum heim frá Noregi fer ég 3. dögum seinna til Parísar með skólanum mínum og þegar ég er komin þaðan eru bara 3 vikur í bláu fjöllin og fólkið mitt..
Gleðilega páska!
Þín Brynja

7 comments:

Anonymous said...

Hafið það gott á ferðalaginu til Noregs og ég bið að heilsa Orra og Frosta og fylgifólki - hlakka svo til að fá ykkur heim til Akureyrar í vorblíðuna sem þá verður. Lova ya'll.

Anonymous said...

Óskum ykkur góðrar ferðar til Noregs.Fallegur staður Sandefjord.
Hér er búið að snjóa nóg í bili, hlýnandi veður framundan.
Það verður yndislegt að fá ykkur hingað í heimsókn það er ekki svo langt þangað til.
Víst eru fjöllin hérna blá !
Er farinn að æfa fyrir Kebnekaise auðvitað verður maður með.
Bestu kveðjur úr Snægilinu okkur þykir svo rosalega vænt um ykkur !!!

Magnús said...

Ef þið rekist á trefjaplastverksmiðju í Sandefjord, vinsamlegast brennið hana til grunna. Takk fyrir.

imyndum said...

Ég veit nákvæmlega hvað þú ert að meina með að kunna betur að meta rýmið sem maður tekur sem svo sjálfsögðum hlut á Íslandi... og sökknuðinum til fjallanna. Hlakka hryllilega til að sjá þig í París eftir nokkra daga :)kossar

Anonymous said...

Hæ hæ og hó
Ástarþakkir fyrir bréfið.
Myndin af kúlubúanum er alveg frábær. Gaman að sjá að Dagrún ímyndar sér barnið sem stelpu með sítt hár og kórónu. Já og ekki spillir fyrir að hún heitir Dagrún, alveg einsog hún sjálf :)

Hlakka óskaplega til að sjá ykkur í maí, ég fer í vikufrí frá 28maí þannig að það er góur tími til þess að bralla eitthvað skemmtilegt saman !
Njótið ykkar með góðum vinum í páskafríinu, bið að heilsa þeim öllum.

Bestu kveðjur
Edda

Anonymous said...

Ég hef greinilega ekki tengst fjöllunum jafn sterkt og þú því enn sé ég þau ekki í þessum yndislega rómantíska blæ sem þú orðaðir svo vel hér að ofan (hef ég einhvern tímann sagt þér að þú gætir pottþétt skrifað fína "rauða" ástarsögu). Ekki misskilja mig því mér finnast þau yndislega falleg og pottþétt fallegri en allir kornakrar hér í Indiana en mykrið í des-feb, láréttar rigningar, skafrenningar, högl, slabb, 7-17 stiga hiti á sumrin og snjókomur í júní eru enn grafnar í huga minn. Annars finnst mér það illa gert að þér fyrir okkur sem búa í útttlöndum að setja þessa girnilegu páskaeggamynd á bloggið þitt. Sérstaklega af því að í dag kom ég með þá yfirlýsingu á leiðinni heim frá Florida að ég ætlaði ekki að borða páskaegg í ár.... jamms svo er bara að sjá hvort verður af því.
I´m back beibí mhúahahahahahaha.

Bromley said...

Merkilegt þetta með rýmið, ég er mjög oft spurð hvort það sé ekki æðislegt að búa í London en í raun væri ég frekar til í að búa í húsi í Vaðlaheiðinni og anda að mér ferska loftinu og fara í bað á hverju kvöldi án þess að eiga á hættu að klára vatnið. Svo er líka lúxus að vera bara max 5 mín í vinnuna í stað þess að taka helv. undergroundið sem á það til að stoppa 5 hæðir ofan í jörðu í rafmagnsleysi vegna bilunar í signalling kerfinu. Fólk horfir þá á hvert annað og allir eru að hugsa það sama, ætli þú sért með sprengju í bakpokanum?
Þá kýs ég nú heldur Þingvallastrætið og Oddeyrargötuna.
Kveðja,
Ásta