Friday, January 18, 2008

la coligiala

Þegar ég kom úr lestinni í dag, með nýþungan bakpoka á öxlum, bauga undir augum og rauðsprengdar hvítur en létt í sinni eftir erfiða og krefjandi törn undanfarnar vikur, tók á móti mér lag. La coligiala hljómaði úr lestargöngunum þar sem suðrænir, lágvaxnir og litskrúðugir menn unnu sér inn fyrir salti í grautinn.
Mig langaði að bjóða þeim í kaffi fyrir að gleðja mig og fagna með mér prófalokum en henti í staðinn nokkrum krónum í körfuna þeirra. Þar sem það voru nokkrar mínútur í næstu lest fór ég á blómamarkaðinn á torginu og keypti mér vænan blómavönd, blandaði saman túlípönum, rósum, fresíum, nellikum og fleiru krassandi sem hita upp sálina og rétt náði í skottið á lestinni heim. Tók góða skorpu, kveikti á kertum og skipti út málverkum á veggjunum. Er sófakartafla núna en nýt þess að horfa á blómin mín og eiga venjulegt sjónvarpskvöld með fólkinu mínu, litlu lúsunum sem ég hef varla séð undanfarnar vikur. Á morgun ætla ég að halda áfram að verðlauna mig, fara á snyrtistofu og láta vinna á þessum gráma og baugum sem þykjast hreiðra um sig framan í mér. En já, mér gekk vel í prófunum, lagði á mig ómælda vinnu og er nokkuð bjartsýn. Var hrósað fyrir góða vörn og fyrir að vinna sérstaklega vel með að tengja saman praktík og þeoríu. Framundan er dekurhelgi með sjálfri mér og fylgifiskunum. Heilir tveir dagar frí en svo byrjar ballið aftur á mánudaginn með tveggja vikna fyrirlestarlotu. Leggst vel í mig, ný fög, nýjar bækur, nýjar áherslur. Ég ætla að taka lagið inn í þessa önn, muna eftir sjálfri mér, taka upp penslana og byrja á málverki sem ég er búin að vera með í maganum lengi vel. Elskurnar mínar ég er komin aftur!

5 comments:

Anonymous said...

velkomin til baka:) og til hamingju með það hversu vel þér gekk:)
eigðu góða dekurhelgi vina mín í faðmi fjölskyldu og í höndum snyrtifræðinga!!!

Fnatur said...

Elsku kæra vinkona. Mikið hef ég saknað þín. Til hamingju með að vera búin. Njóttu lífsins:)

Anonymous said...

Til hamingju með að vera búin í þessari törn. Auðvitað stóðstu þig vel eins og alltaf. Njóttu svo dekurhelgarinnar. Knús frá mér og mínum. Ingibjörg

Thordisa said...

Velkomin aftur gott að heyra að allt gekk svona vel ekki að mér hafi dottið neitt annað í hug þegar að þér kom. Hlakka til að heyra í þér í síma sem fyrst. kv Þórdís

Lilý said...

Ástin mín hæ! Vor og fiðringur og vorfiðringur og fiðringsvor vei! Ég þarf að tala við þig.. eins og alltaf. Kyss á tá :*