Thursday, September 04, 2008

kvöldgælur

Annríkið er ekki lengi að hreiðra um sig, blessað. Er að reyna að strjúka því og gæla við það, sefa það og róa. Gengur annan hvorn dag. Fæ svolitlar hjartsláttatruflanir öðru hvoru en þær eru enn á byrjunarstigi og ég sleiki útum því það er gaman að vera á öðru ári og vera búin með doðranta sem var leiðinlegt að hafa í rassinum alla daga fyrir ári. Valkreppa gerir þó vart við sig því núna er ég að reyna að velja milli kúrsa í mental health og sexual og reproductive health held að ég muni læra meira af þeim seinni en í hinum kúrsinum er ég á kunnuglegum slóðum sem er svolítið freistandi auk þess sem rannsóknarverkefnið mitt fer inn á það svið meira. Hef samt viku til að ákveða mig og ég mun gera kosta-galla greiningu þangað til.

Dagrún mín litla hrýtur snemma þessa dagana, hún dettur út af rétt eftir kvöldmat og gleymir að velja sér föt fyrir morgundaginn sem þýðir að við þurfum helst að vakna hálftíma fyrr en venjulega til að taka þann höfuðverk. Uppáhaldið hennar núna er bláberjajógúrt með rúsínum. Hún er sátt og sæl jafnvel þó við séum enn ekki enn búin að finna handa henni almennilegan regngalla sem verður verkefni um helgina.

Hörður hinsvegar hrýtur ekki eins snemma og litla sys. Hann vakir lengur og les Tinna, Gottskálk Skelfi, One piece og Knasen. Við mæðgin eigum góðar Tinnastundir og það var alveg magnað að lesa bókina þar sem Akureyri er nefnd....þið eigið að geta í hvaða bók það er. Annars fórum við í júdó í dag og ég fékk ekki að leiða hann yfir götuna... ég fékk samt að kyssa hann góða nótt.

Klukkan er of margt þar sem hér er farið snemma á fætur. Ég er að rýna í kostnaðargreiningu á inngripi til að draga úr endurkomu drykkjusjúklinga á slysadeild með hjálp spúsa, ferlega leiðinlegt en verð að viðurkenna að heilsuhagfræði er bara nokkuð áhugaverð og athyglisvert að skoða ný sjónarhorn á því hvað ýtir undir eða dregur úr áhættuhegðun okkar manndýra.

Kvöldmaturinn var snarl, heitar samlokur, bláberjasúpa og hafragrautur. Þið bara verðið að prófa nýjustu hafgrautssamsetninguna mína, hafragrautur, kotasæla, bláberjasúpa og kanel, amminamminamm, þorið þið eða flokkast þetta undir of mikla áhættuhegðun?

Sofið rótt í alla nótt, dreymi ykkur vel og guð blessi ykkur. Ef það er erfitt að sofna fáið ykkur þá volga bláberjasúpu í bolla, helst bleikan og leyfið hollustunni að fóðra ykkur að innan.

PS: er að skrifa á nýju tölvuna mína og takk fyrir öll kommentin á síðustu færslu. Mér þykir ósköp vænt um ykkur.

7 comments:

Anonymous said...

hmmm þessi samsetning gæti kannski fengið mig til þess að langa í hafragraut því svona old fashioned hafragrautur þykir mér ekki mjög góður !
Gott að Tinni leiðir til góðra samverustunda :)
Knús
Edda

Thordisa said...

Mikið er langt síðan ég hef heyrt í þér ætla að reyna að pikka upp símann og heyra í þér um helgina ef ég næ því milli tarna og ef þú hefur tíma... koss og kreist

Anonymous said...

Haustið er svo yndislegur tími, þátt fyrir valkvíða og skipulags- og skólastess.
það er smá kvíði og hrollur hérna megin líka er á leið til noregs á mið - uff, hlakka geggjað til en er með passelgan kvíðhnút í maganum.
kossar og knús til ykkur allra
love
xxoooxx

Magnús said...

Dularfulla stjarnan!

brynjalilla said...

þú brást mér ekki elsku Maggi

Anonymous said...

Haha, Maggi náði á undan mér hér. Við erum að verða útlærð í Tinnafræðum, enda með bækur og myndir í massavís. Hið besta skemmtiefni. Erum stundum með spurningakeppnir (eitthvað fyrir Magga)...: Í hvaða sögu hittir Tinni Kolbein Kaftein fyrst.. eða Rassópúlos... eða Alkazar hershöfðingja.... bráðskemmtilegt. Á bara eftir að sjá Tinna í Sovétríkjunum, held ég. Elska þig og bloggið.
kv.
eh

Bromley said...

Ég man eftir þessari Tinnabók, mér fannst svo merkilegt að það skyldi vera krá á Akureyri (fyrir tíma bjórsins)
Kv. ÁstaÓ