Snýtið og kvefið er enn að hreiðra um sig í mér, sérlega óvelkomið og ég vinn í því að það hunskist í burtu, borða mandarínur, drekk te og kúri í rúmi í dag. Fúlt þar sem ég missi fyrir vikið af seminar sem ég er búin að hlakka til alla vikuna um homma, lesbíur og mannréttindi. Ég er búin að vera annars á alveg frábærum kúrsi,
Sexual reproductive health and rights, hann tekur á þar sem viðkvæm málefni eru rædd í hópi fólks frá öllum heiminum en vá hvað það einmitt er lærdómsríkt. Önnin sem sé með svona eldrauðan varalit. Í gær var ég á fyrirlestri sem m.a. fjallaði um umskurð kvenna, svakalegt málefni og á morgun mun ég leggja því lið og fyrirlesa um píkublómaprojectið mitt. Nú nýlega hefur
alþjóðaheilbrigðisstofnunin einmitt skilgreint "fegrunaraðgerðir" á píkum sem eina gerð af umskurði kvenna. Art for health er því nálgun mín þessa dagana og ég vona innilega að mér eigi eftir að gefast fleiri tækifæri til að nýta listina í þeim tilgangi.
Ma og pa komu í gær, gott gott, hér verður því þrifið og reyttur arfi næstu daga en þessar elskur vilja alltaf hafa eitthvað fyrir stafni og leggja okkur lið, okkur finnst það dásamlegt. Vona að í kjölfarið myndist reiða á þessu heimili sem geri okkur kleift að taka upp jóladót og byrja að skreyta svolítið og ekki væri verra að leggja í piparkökubakstur eða jafnvel laufabrauð.
Um helgina mun ég ásamt góðum hópi kollega minna, dreifa bæklingum og ræða við unglinga um heilbrigt mataræði, hluti af heilsuverkefni sem við erum að gera, hlakka bara til enda alltaf gaman að ræða við unglinga og jafnvel vekja þá til umhugsunar. Læt fylgja með bæklinginn sem ég og Nannan mín hönnuðum, dásamlegt að hafa aðgang að hæfileikum unglings í tölvuvinnslu og grafískri hönnun. Nú ætla ég að fá mér te og mandarínu og bíða eftir knúsi frá ykkur.
ps: einhverra hluta vegna þá eru litirnir eitthvað asnalegir sem þið sjáið, blár er ekki liturinn heldur rauður, þið verðið bara að nota hugarflugið.


