Saturday, August 22, 2009

Gott kvöld

"Eins og blýantsteikning" sagði tengdamamma mín á leiðinni til Hjalteyrar í gærkveldi. Fjallið skartaði hvítri skyrtu, dimmbláum buxum og gráar slæður skreyttu hálsinn. Ég áttaði mig á fáránleika þess að ég var ekki búin að fara út fyrir Akureyri síðan við komum til að vera. Skýin sleiktu fjallstoppanna og mýktu allar útlínur svo formin runnu saman og ég var skyndilega stödd í þjóðsögu. Ekkert skrýtið að fjöllin svona umlykjandi eru persónugerð með orðum eins og orkumikil, kröftug, æðrulaus og glæsileg. Ég var andaktug hreinlega og það hélt áfram þegar við keyrðum afleggjarann út á Hjalteyri. Grútartankarnir við sjávarmálið veittu mér innblástur og myndirnar á ryðguðu yfirborði þeirra voru óteljandi og krefjast þess að ég vinni með þær. Gömlu hjallarnir römmuðu inn sjávarsýnina og ég hef ekki getað hugsað um annað en tækifærin til innsetningar sem þeir bjóða upp á. Bryggjustólparnir spegluðust undurfallega í sjónum og færðu mig alla leið til Feneyja í huganum, gamlar hugmyndir fengu líf. Verksmiðjan með rauða seríu skrifandi "fish factory" yndislega fyndin andstæða við gráa bygginguna juku á gleðina við innkomuna og skreiðarlyktin var allsráðandi, kunnugleg lykt sem fylgdi mér í gegnum æskuna. Hrá byggingin er náttúrlega yndisleg og það tók á móti mér kindahjörð og Sigga litla systir mín með lamb í fanginu. Skemmtilegt. Gluggarnir lágu hátt og þrír þeirra sem snéru til norðurs voru fagurskreyttir birtunni sem kom fram eftir leiðindaveður dagsins, síbreytilegir.

Þjóðsagan hélt áfram í formi hljóð og sjón upplifunar, engill spilaði á fiðlu, munkur á orgel og sá andlitslausi á bjöllur og sílófón, gnauðið í vindinum, seltan í sjónum, draugar og afturgöngur voru hlutgerð frekar í hljóðgjörningi Hymnódíu blásandi í mismunandi flöskur, hver og einn með sína persónulegu flösku sem gaf hverjum einstaklingi kórheildarinnar andlit. Verkin voru flutt eitt af öðru og undirstrikuðu gluggamyndirnar og færðu mig til heimanna nýja og gamla, ég ferðaðist til bernskuminninga þar sem sjórinn sleikti gluggana á herberginu mína meðan ég las þjóðsögur Jóns Árnasonar, þar sem ég klifraði í "gömlu bryggju" og fann króka og kima sem bannað var að fara á en heillandi kyrrðin dró mig til sín og ýkti upp sjávarhljóðin, dropahljóðin. Það var gaman að horfa á kórinn og kórstjórnandann, það er alltaf eitthvað heillandi við að sjá augnsambandið og traustið sem myndast þar á milli og dans stjórnandans. Hljóðupplifun gærkvöldsins var skemmtileg og yndisleg. Stemmingin sem hún skyldi eftir innra með mér gerði það að verkum að ég fór beint heim og hitaði mér te, ég setti enga tónlist á enda vildi ég treina upplifunina sem lengst og ekki eyðileggja hana með annarri tónlist né kaffihúsaskvaldri, þetta var gott kvöld.

3 comments:

Anonymous said...

Yndislegt Brynja mín, Elvý er einmitt í Hymnodiu og var að segja á fésinu að þetta hafi verið svo skemmtilegt :) Knús úr Helgamagranum

Anonymous said...

Þú sæt.

Systa

Anonymous said...

já en myndin af þér er úr Færeyjum, vil nú barasta endilega fá myndir af íbúðinni ykkar og svoleiðis sko. flott mynd samt, falleg kona falleg fjöll og guðdómlega falleg húfa, má ekki Ína nota hana í auglysingarherferð!
Tobban