Monday, August 03, 2009

kindahorn í fötu

Eftirsjáin var engin en söknuðurinn gerði strax vart við sig. Skrýtið að fá ekki lengur heimalingana sína á skörina á morgnana, rauðbirkna og og freknótta en alls ekki kiðfætta.

Ferðalagið hófst ekki út í óvissuna eins og oft áður heldur Heim og það var notaleg tilfinning sem fylgdi okkur því úr hlaði frá Signalvägen 20. Við áðum í Helsingborg þar sem vinir okka buðu upp á "bullar och saft" og meira. Það var sárt að kveðja litla drenginn þeirra litla peðið sem líklega verður orðin allavega að góðum riddara næsta ár þegar við sjáumst á nýjan leik.

Danmörkin var söm við sig eins og alltaf fyrir utan verðlagið auðvitað og við nutum daganna í Billund á nákvæmlega sama stað og við hófum ferðalagið okkar fyrir 4 árum, örlítið hræddari, yngri og vitlausari þá en nú. Legoland var hvorki leiðinlegt né þjáningarfullt. Börnin komin á aldur kunnandi að njóta lífsins án yfirþyrmandi dramtíkur í formi kúkableyja og grenjukasta og foreldrarnir líka ef út í það er farið. Biðraðir voru viðráðanlegar og kubbaðar lystisemdirnar færðu mann inn í ímyndunarheima barnæskunnar fljótt og vel. Lalandia var eins og börnin orðuðu það "paradís, himnaríki" Það var gott að geta flúið rigningarsuddann inn í gerviheim þar sem alltaf er blár himinn. Sundgarðurinn var tær snilld og vatnsrennibrautirnar meira að segja freistandi fyrir foreldrana, fjölskylduskemmtun með fullt hús stiga.

Ferjan beið okkar á bakkanum, frúin kveinaði svolítið innra með sér og endurupplifði bíómyndaatriði úr Titanic í huganum þar sem hvorki jarpur elskhugi kom við sögu né blúndur og síðkjólar. En káetan var hugguleg og Iceage í sjónvarpinu. Þetta gekk ljúft, foreldrarnir fengu að sofa í efri kojunum og hafið vaggaði okkur öllum notalega inn í svefninn þó sjóveikin hafi truflað frumburðinn sem var um tíma hvítari en fallegar öldurnar sem skipið skar, það gekk sem betur fer fljótt yfir. Rólegheit einkenndu siglinguna og við sporðrenndum í okkur bókum af list milli þess sem horft var á mangamyndir í tölvunni.

Þórshöfn í Færeyjum tók á móti okkur um miðnætti, grámygluleg og fúl yfir því að vera trufluð af túristum þegar annars almennilegt fólk sefur. En glaðbeitt og ánægð náðum við að tjalda stærsta tjaldinu og sofa inn í morguninn. Næstu daga fórum við í tímaflakk milli eyja. Fórum í fjöruferðir nálægt Eyði á Eysturoy þar sem Risinn og Kerlingin stóðu í sjávarmálinu eftir misheppnaða tilraun að draga Færeyjar til Íslands, heimsóttum afskekkt þorp, skoðuðum söfn og hlógum okkur máttlaus við skiltalestur. Einna eftirminnilegast var heimsókn í þorpið Gásadalur á eyjunni Vágar, í grenjandi roki og rigningu. Merkilegt hvað kindahorn í fötu, gamall maður í bláum samfesting við húsvegg syngjandi hástöfum út í veðrið "STORM" gleður samhliða því sem haldið er í húshorn til að fjúka ekki upp í álfaborgirnar sem trónuðu allt í kring. Álfakirkjurnar voru jafn algengar og fjörufótboltavellirnir. Hrikaleiki landslagsins fékk hugann til að spinna upp líf sem okkur er annars hulið og náttúrutrúin elfdist og varð jafn sjálfsögð og morgunrútínan. Þar sem grjóthrun hafði skafið landið breyttist í kroppandi tröllakló og við fundum til samúðar með fjallkonunni. Vegirnir lágu hátt og gáfu okkur yfirsýn í lítil þorpin þar sem húsin hjúfruðu sig upp að hvort öðru í leit að félagsskap og skjóli. Færeyskar konur voru áberandi fallegar, stórskornar en hrífandi og við sáum Eyvör í hverju horni. Færeyskar pylsur, færeyskar hundasúrur og ólafssúrur voru góðar á bragðið og bókabúðin í Þórshöfn góð til að gleyma sér og eyða pening, "litli prinsinn" var keyptur á færeysku auk ýmislegs annars sem taldist nauðsynlegt.

Ferjan var kunnugleg og tilhlökkunin efldist og óx og við vorum tilbúin í endasprettinn. Stutt og lipurleg ferð með færeyskt nesti. Hjartað og hugurinn gladdist óumræðanlega þegar við sigldum inn í íslenska lögsögu og fjöllin föðmuðu okkur að sér þakklát fyrir að fá gamla vini heim. Hjónin urðu kjánalega meir og þægileg tilfinning blandaðist þeirri sem fylgir því að vera í lausu lofti um stund. Seyðisfjörðurinn þar sem fullorðinsleg húsin endurspegluðu hófsemi. hlýju og virðingu fyrir því sem gamalt er sáum við aðeins í gegnum bílrúðuna, óþreyjan eftir fjölskyldunni á Akureyri var búin að taka yfirhöndina. Stutt stopp við Námsskarð var látið nægja á leiðinni og loks sátum við öll umkringd þeim sem okkur þykir vænt um og snæddum fiskibollur í brúnni sósu með rabbabarasultu. Ferðlaginu að heiman og heim var lokið og nýtt að hefjast.


...myndir koma síðar

3 comments:

Anonymous said...

hva saknið þið ekki Svíþjóðar!

Hér erum við enn að raða strikamerkjum og passa okkur að taka ekki síðustu kjötbolluna.

takk fyrir ljóðræna ferðalýsingu nú hlýtur að fara koma að okkur.

Takk fyrir Valur að laga handfangið á uppþvottavélinni, en nú er það bilað aftur, hvenær kemur þú næst hingað?

k
Sveinbjörn

hannaberglind said...

Velkomin heim kæra fjölskylda:)

Anonymous said...

Gott ferðalagið fór vel í ykkur. Gaman að geta lokið einum kafla, sæll og ánægður með lok hans og geta hafið næsta full að gleði. Við hjónaleysin vorum á nokkra daga ferðalagi án barnaskarans og komum við í Oslo hjá Solveigu móðursystur. Það var reglulega gaman. Hlakka til að fá frekari fréttir af ykkur. Kram Lola :)