Sonurinn enn í júdófötunum og dóttirin með úfið hár og eyrun útundan húfunni, falleg bæði tvö. Við hjónin sæmilega hress, búin að jafna okkur eftir rifrildi fyrr um daginn sem rekja mátti til óskýrra skilaboða eða óskýrs skilnings eftir því hvort frúin eða kallinn hafði orðið. Frúin beið á vitlausum stað í 45 mínútur og karlinn á réttum stað, eða öfugt. Allavega mætti hann of seint en engin dó á meðan sem var gott. Frúin (kjellingin) sá húmorinn í þessu fljótlega og hætti við að það væri kallinum lífsnauðsyn að eiga farsíma, gerfiþörf og hún skammaðist sín í smástund.
Litli kisi Binni tók á móti okkur í gættinni ásamt heimasætunni. Stemmingin var strax rétt, hvorki útvarp né önnur tilbúin umhverfishljóð hljómuðu fyrir utan einstaka væl í geimúri. Lýsingin var mjúk og hlý og eldur ljómaði í gleri en ekki í stó. Kjötsúpuilmurinn fyllti húsið og húsráðandi var ekki feiminn við að hafa fitu á kjöti sem var gott. Allir borðuðu vel, Dagrúnu fannst þetta glæra best, altso soðið.
Hrútaspilið var kynnt til sögunnar, minnir á legg og skel en samt alls ólíkt og því hefur ný alvöru þörf skapast, hrútaspil þurfa kall og kella að eignast. Hjónin fóru í kollhnísa í skrabbli og voru ásökuð um að hafa ekki lifað lífinu í Svíþjóð öðru en því að spila skrabbl alla daga og krydda með rómantískum bloggsíðufronti, hér verða engar játningar sagðar.
Börnin spiluðu veiðimann, hrútaspil og kubbuðu. Stílbrot var framið í formi rískakna með jógúrtsúkkulaði, ágætt en betra var þegar harðfiskurinn var dreginn fram ásamt dýrðlegu kaffilatti sem tapari skrabblsins reiddi fram án exports og var það vel. Grænlenska þjóðsagan var lesin með mikilli alvöru en undirtektar litlar og lélegar. Þrátt fyrir mök konu og sæskrímslis, særinga og óveðurs var sagan samkvæmt börnum leiðinleg og viðburðalítil. Húslesturinn blandaðist um stund skapvonsku 6 ára drengsins sem langaði í meiri jógúrtköku en hann varð glaður á ný þegar hann fékk að leika við ljóðin. Ljóðin féllu í betri farveg enda íslenskufræðingurinn við lestur. Sagan um leiðinlegu hjónin og bóndann sem dó lifandi fegin voru fyndnar og látbragð hins 6 ára bættu um betur.
Þetta var gott baðstofukvöld og þegar heim var komið var bannað að kveikja á sjónvarpinu.
Wednesday, October 07, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment