








Ein af 3 mikilvægustu hátíðum ársins samkvæmt Herði Breka byrjaði í dag. Mikilvægustu hátíðirnar eru: jólin, páskarnir og bolludagurinn. Við höfum fyrsta, annan og þriðja í bollu, hér í Örebro, norskan, íslenskan og sænskan. Það var sem sé fyrsti í bollu í dag (sá norski) og í því tilefni hittumst við, litla Íslendingaklíkan, hjá Andra og Rósu og vorum með bolluhlaðborð. Á morgun er íslenski bolludagurinn og þá verður haldið áfram að hlaða í sig rjómabollum. Á þriðjudaginn er svo sænski bolludagurinn og að sjálfssögðu verða sænskar kjötbollur í matinn.
Góður dagur í dag. Ásamt bolluhlaðborði var horft á úrslitaleikinn milli Finna og Svía í íshokkí og nú eru Svíar ólympíumeistarar í íshokkí. Gaman af því. Rólegheit, samvera og át lýsa deginum í hnotskurn. Á morgun byrjar svo hversdagslífið á nýjan leik eftir góða sportleyfisviku. Skólabækurnar, penslarnir og tilheyrandi ys og þys bíða því handan við hornið.