Sunday, February 26, 2006
Bolla, bolla, bolla, slurp, rop, kjamms
Ein af 3 mikilvægustu hátíðum ársins samkvæmt Herði Breka byrjaði í dag. Mikilvægustu hátíðirnar eru: jólin, páskarnir og bolludagurinn. Við höfum fyrsta, annan og þriðja í bollu, hér í Örebro, norskan, íslenskan og sænskan. Það var sem sé fyrsti í bollu í dag (sá norski) og í því tilefni hittumst við, litla Íslendingaklíkan, hjá Andra og Rósu og vorum með bolluhlaðborð. Á morgun er íslenski bolludagurinn og þá verður haldið áfram að hlaða í sig rjómabollum. Á þriðjudaginn er svo sænski bolludagurinn og að sjálfssögðu verða sænskar kjötbollur í matinn.
Góður dagur í dag. Ásamt bolluhlaðborði var horft á úrslitaleikinn milli Finna og Svía í íshokkí og nú eru Svíar ólympíumeistarar í íshokkí. Gaman af því. Rólegheit, samvera og át lýsa deginum í hnotskurn. Á morgun byrjar svo hversdagslífið á nýjan leik eftir góða sportleyfisviku. Skólabækurnar, penslarnir og tilheyrandi ys og þys bíða því handan við hornið.
Thursday, February 23, 2006
Páskaliljur og pönnukökur
Það er gott að vera í sportleyfi. Í morgun þegar ég hjólaði í ræktina var ég allt í einu stödd í ævintýrinu um Ronju Ræningjadóttur. Þokan var yfir öllu, hrafnarnir krúnkuðu og svei mér þá ef ég sá ekki glitta í grádverga í skóginum, pínulítið skemmtilegt og ógnvekjandi í senn. Það voru engin ævintýri í ræktinni nema gleði yfir að loksins er búið að skipta um tónlist. Ég neyðist ekki lengur að hlusta á gamla sænska slagara mest skyldum lögum á borð "við stál og hnífur" og "einn dans við mig" (flytjandi Hermann Gunnarsson). Dagurinn var síðan ósköp notalegur. Vinur hans Harðar Breka, Isak kom í heimsókn og við heiðruðum hann með íslenskum pönnsum sem runnu ákaflega ljúflega niður. (Aumingja Valli fékk enga þegar hann kom úr vinnunni, pönnsurnar sko kláruðust). Guðrún og Þóra Laufey héldu mér svo félagsskap og við áttum góðar stundir við eldhúsborðið. Páskaliljan náði að sannfæra okkur, þar til við heyrðum veðurspána, að nú væri farið að skíma í vorið.
Wednesday, February 22, 2006
Barnamyndlist
Ég man þegar Hörður Breki fékk bara að leika sér með dót sem við foreldrarnir bjuggum til, hringlur gerðar úr filmuboxum, plastflöskum og hrísgrjónum. Smátt og smátt létum við og aðrir undan samfélagslegum kvöðum um kynbundin leikföng. Hörður Breki stóð fast á sínu þegar hann var þriggja ára að ef hann yrði að eiga dúkku þá þyrfti hún að vera í löggubúningi. Dagrún Kristín erfði smábarnaleikföng bróður síns en allt kom fyrir ekki hún vill að allt sé bleikt og með prinsessustimpli. Ég er svo stolt af börnunum mínum og svo lengi sem þau gera sér bæði grein fyrir að prinsessur geta handsamað dreka og bjargað prinsum þá er ég sátt. Það má annars glögglega sjá á myndum Harðar Breka og Dagrúnar hvað þeim er hugleikið þessa dagana. Dagrún teiknar prinsessur með sítt hár og Hörður Breki skapar stríðsmenn, skrímsli og fígúrur í óða önn. Hann er ákveðinn í því að verða myndlistarmaður þegar hann verður stór og búa til teiknimyndir.
Í gær fann ég vorlykt. Sólin skein, það var hlýtt eða hlýrra en undanfarið. Ég keypti mér páskaliljur í potti og strauaði hvítan dúk til að hafa á eldhúsborðinu. Ég komst að því í morgun að vorlyktin var óskhyggja, það sést á myndinni sem ég tók fyrir augnabliki síðan út um gluggann minn.
Monday, February 20, 2006
Nokkrar myndir
Ég var í klippingu....er enn að ákveða hvort ég sé eins og 5 ára, kerling með permanett eða hvort ég sé beib. Það er víst í tísku að vera með liðað hár og stúlkan sem klippti mig fannst alveg tilvalið að ýkja upp lokkaflóðið mitt sem fær yfirleitt að leynast undir sléttujárninu mínu. Eitt það fyrsta sem ég ætla að gera þegar ég kem heim í vor er að láta klippa mig á minni gömlu góðu stofu. Annars er ég í fríi og ég sat ein áðan á kaffihúsi og drakk cappuchino, það var ljúft og síðan rölti ég um og kíkti í búðir. Sá ekkert fyrir krullhærða kerlingu eins og mig en sá hinsvegar svo mikið af fallegum smábarnafötum og óléttufötum.....nei ég er ekki ólétt en Edda er það og á því bráðum von á pakka. Læt fylgja með mynd af mér þar sem ég er ekki með krullur og Mariu vinkonu minni. Við erum nokkuð flinkar!
Saturday, February 18, 2006
Hér er vetur. Við reynum að gera hann rómantískan og huggulegan með pönnukökum og poppkorni. Það tekst vel en við erum hinsvegar sammála fuglunum sem láta í sér heyra á morgnana að vorið sé kærkominn gestur. Það er gaman á snjóþotu og skautum, það er gaman að borða nesti í snjóskafli á sólríkum degi og það er gaman að borða íslenskar pönnukökur og vera innipúki þegar það er kalt úti. En það er líka gaman að vera berfættur í skónum, baka drulluköku í sandkassanum og fá freknur á nefið.
Já hér er veturinn snjóþyngri og kaldari en á fróni en hann er fallegur. Snjórinn þekur skóginn og býr til ævintýraheim. Þar búa skógar- og rassálfar. Kuldinn svíður en lognið og sólin gera það að verkum að gimsteinar og demantar glitra á snjóbreiðunni.
Subscribe to:
Posts (Atom)