Thursday, November 16, 2006
Lína langsokkur, Brynja og Celin Dion
Ég ætti í raun að vera farin í rúmið en er furðu vakandi eftir að hafa hvílt mig í sófanum fyrir framan sjónvarpið og sofið vel, vaknaði reyndar ekki við stillimyndina. Þetta var góður dagur sem byrjaði undarlega. Vaknaði með heimþrá í maganum. Sem er yfirleitt ekki að trufla mig. Fór í skólann með risið ekkert sérlega hátt. Fékk komment frá dönskum listmálara og kennara um að hann sæi íslenska birtu í myndunum mínum og ég fór næstum að grenja af því mér fannst þetta fallega sagt. Það fleytti mér áfram ásamt því að mamma hringdi í mig og við áttum gott spjall. Ég átti yndislegar stundir í vinnustofunni minni, byrjaði á stórri mynd, sem byggist upp með köntuðum formum og línum með sterka landslagstilvísun. Var með Ipodinn minn og hlustaði á já...jólalög, Sissel kirkebo og guð minn almáttugur Celin Dion undarleg tenging tónlistar og myndsköpunar verð ég að segja. Notaði breiða pensla, mjóa pensla, léreft og fingur til að fá útrás og heimþráin í maganum hvarf en skildi eftir sig gleði og þægilegan tilhlökkunarseiðing bara yfir öllu saman. Sköpunin hélt áfram þegar heim var komið og núna horfi ég stolt á fullan kassa af heimabökuðum piparkökum sem eru í formum Línu langsokkur, stjarna, hjarta, engla og svína, skemmtileg blanda þar. Börnin sofa og ég er mett af piparkökum og sátt við daginn í dag, horfi á hveitistráð gólfið og borðið, viskastykki út um allt, ósamanbrotin þvottur, leirtau hér og þar. Leyfar af örbylgjupizzu og mandarínuberki mynda skemmtilega litasinfóníu á Ikeaplastdiskunum og það undarlega er að þetta pirrar mig ekki neitt. Ég ætla í háttinn, kúrast með músunum mínum sem fá að kúra í pabba holu meðan hann er á kúrsi og leyfa hveitinu og öllu hinu að bíða þar til á morgun.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
10 comments:
það sem ég hefði viljað vera með þér í bakstri systir, svo hefðum við fengið okkur heitt og kryddað te með afrakstrinum, kveikt á kerti og hlegið að stórhríðinni á íslandi. Talað og talað og horft á uppvaskið sem beið og dáðst saman af mandarínuberkinum.
knússssssss
þín systir.
Við hlökkum óskaplega til að sjá ykkur öll !
Vonandi kom töfradísin til ykkar í nótt ja eða Mr Proper þannig að eldhúsið ykkar er þá glansandi núna hehe ;)
Knús
Edda
Fjærst í eilífðar útsæ vakir eylendan þín
nóttlaus voraldar veröld þar sem víðsýnið skín
Möst að lesa ættjarðarljóð þegar maður er með heimþrá það er eitthvað svo tregafullt og íslenskt.
kossar og knús. kv. Jóhanna
mmm en hvað mig langar í piparkökur... en ég er því miður í aðhaldi núna, Bjarg rúlar!
Jóhanna hvaða ljóð er þetta?
Já ég segi oft um draslið......æi læt þetta bíða aðeins, þetta fer hvort sem er ekki neitt. Til hamingju með commentið frá danska listmálaranum....ekki amalegt skvísa;)
til hamingju listamaður,
það er nú ákvðin list að sjá fegurðina í hinum mörgu andlitum heimilisins og njóta þeirra!!!
Bara að bneda þér á það að bestu piparkökur í heimi eru sænskar frá NYAKERS, ef þú hefur ekki smakkað þær þá bendi ég þér á að skella þér í búð og festa kaup á eins og einum dalli.
Mikið vildi ég vera maur á vegg ef Brynja, Celin Dion og Lína Langsokkur sætu saman yfir bolla af hressandi te-i.
hhaaaha, 2 ofurkonur, ein ofurdíva og einn maur ekki amaleg samsetning það.
Já Lína er sko sönn díva haha ;)
Post a Comment