Tuesday, January 09, 2007

dökkt súkkulaði, tré lavender

Æ hvað það er alltaf gaman þegar þið eruð dugleg að kommenta, takk fyrir það og gleðilegt nýtt ár öllsömul. Núna er ég hætt að pissa með rassinum og er innilega sátt við að vera að komast í fyrra líkamlegt ástand. Þessi allsvakalega hreinsun hefur þó gert það að verkum að ég hef ákveðið að vera duglegri að borða mat " som det är någon mening med" en það er einmitt nafn á bók sem ég er að lesa núna. Var að enda við að sjóða fullt af baunum sem eru stútfullar af góðri orku og ætla að nota helgina til að gera grænmetissbuff og kjötbollur úr hamingjusömum dýrum. Ætla að fullnægja súkkulaðiþörf minni með dökku súkkulaði en annars sneyða hjá nammi sem er fullt af löngum og óskiljanlegum orðum.

Nýja árið leggst vel í mig. Ég fæ aftur uppáhaldskennarann minn á vorönninni, hann Kelvin Sommer, sá sem fannst ég hafa íslenska birtu í myndunum mínum, ég klára listaskólann og styrkist jafnt og þétt í því að skilgreina mig sem listamann, ég flyt og mínir fylgifiskar til Lundar sem er svo sætur staður og einhvernveginn í miðju alheimsins, ég byrja masternámið mitt í lýðheilsufræði, ég ætla að gróðursetja rósir í garðinn okkar og taka með mér lavenderið mitt héðan úr blómabeðinu mínu í Örebro því það lyktar svo vel og er vinkona mín.

Annars opinberaði ég svolítið í kvöld við matarborðið:ég tengist trjám og tala við þau í huganum og þau segja mér gjarnan hvernig þeim líður. Finnst þetta fullkomnlega eðlilegt en aðrir heimilismeðlimir eru sannfærðir um að ég sé ekki með fullum sönsum. Langar að spyrja ykkur hvort þið þekkið tré sem þið eigið samskipti við eða aðrar plöntur?

knús til ykkar allra

8 comments:

hannaberglind said...

sæl sæta mín og gleðilegt nýtt ár.
Ég á í mjög tregafullu sambandi við jólatréð mitt, fallegu furuna sem ég keypi í Kjarna á þorláksmessu, það er bara ekki nokkur séns að ég tími að taka niður þetta fallega tré, elska fallega jólaskrautið á því og hvening það stendur skakkt í jólatrésfætum. Það fær að standa fram á næstu helgi.
Listamaður - já. Ekki spurning þú hefur verið listamaður í mínum augum í mörg ár. Og ég bara verð að segja þér að Björgvin bróðir var að sjá listaverkið sem ég keypti af þér í sumar og honum fanns það svakalega flott. og hann Björgvin segir sko það sem honum finnst. Ég var mjög ánægð með kommentið frá honum fyrir okkar beggja hönd, þín fyrir að vera listamaðurinn og mín sem kaupandinn með góðann smekk.
kossar og knús

Anonymous said...

Elsku systir og sálufélagi.
Viðurkenni hér með og það á opinberum miðli að ég stend í áköfum tjáskiptum við tré og plöntur. Það er að segja við plönturnar í garðinum mínum, bið þær jafnvel afsökunar þegar ég er að klippa og snyrta þær og reyni að útskýra að það sé einungis gert í þeirra þágu.
Held að við þurfum ekkert að láta að athuga með geðheilsu okkar þrátt fyrir svona tjáskipti kæra systir. Ekki nema að við förum að sjá blómaálfa og garðdverga flögrandi milli blóma. þá kannski væri mál til komið að efast.
sakna þín.

Anonymous said...

Ég efast um að nokkuð tré myndi vilja hlusta á mig þótt ég reyndi að ræða við það. Ekki eftir trjámorðið mikla 2003 þegar við stráfelldum trén í garðinum í einskærri sjálfselsku og þrá eftir sólarljósi. Erum búin að blóta öspunum síðan þá í garði nágrannans því þær eiga ekkert erindi í litlum görðum eins hrikalega stórar og þær verða.
En inniblómin mín eru annað mál. Þau eru að standa sig og ég hlúi að þeim eftir bestu getu. Mamma hins vegar vorkennir blómunum mínum alltaf svo voðalega að það er eins og þau séu vanrækt barnabörn. "Hefurðu ekkert vökvað þennan aumingja?" er eitthvað sem ég heyri alltof oft. "Er hann að drepast? (kaktusinn)" "áttu engan áburð?" Íííííííkk.....
Gróðurtenging er af hinu góða held ég barasta.

imyndum said...

He he he ég verð að viðurkenna að ég brosti út í bæði við að lesa kommentið frá Ingveldi. Sé þær mæðgur vel fyrir mér ;)

Ég verð svo að taka undir með ykkur systrum. Allt hefur líf, jafnvel steinar, þó svo það sé ekki sama líf og dýr. Ég tala upphátt við mínar plöntur og finst sjálfsagt að vara þær við áður en ég vökva þær, færi þær úr stað eða skelli þeim undir sturtuna.

Náttúran öll er stórkostlegt fyrirbæri sem við ættum að bera virðingu fyrir. Því miður er það ekki svo með marga. En ég er viss um að ef fleiri stæðu í beinum samskiptum við tréin og náttúruna þá lifðum við í betri heimi í dag.

Anonymous said...

Gleðilegt ár og gott að heyra að heilsa sé komin í lag. Ég sé að það virðist vera normið hér að ræða við ýmiskonar gróður þannig að ég segi óhikað frá því að ég hef átt í innilegum samskiptum blóm og tré í minni eigu en þó minna í seinni tíð þar sem hef ég ekki treyst mér til að taka ábyrgð á öðrum lifandi verum en börnunum mínum, ég spjalla þó stundum við tré sem ég gróðursetti í garði foreldra minna fyrir ca 20 árum. Fer að skrifa þér góðan emil brádlega kv. Jóhanna

Anonymous said...

Hæ hæ og gleðilegt ár (aftur).
Gott að heyra að heilsan sé að komast í lag.

Varðandi samskipti við tré og gróður verð ég að viðurkenna að ég stend lítið í slíku enda algerlega sneidd því sem kallast grænir fingur, ólikt móður minni blessaðri en hjá henni blómstar bókstaflega allt. Meir að segja aloe vera plantan mín, sem er nauðsynleg á heimili þar sem húsmóðirin á það til að brenna sig á bökunarplötum og matarfötum, er við það að gefa upp öndina. Kannski tala ég ekki nóg við hana? Geri það reyndar aldrei... Eða kannski er þetta spurning um að skipta um mold á henni? Tips væri vel þegið.

Annars er það af hinu góða að tala við og bera virðingu fyrir náttúruna, sammála Rósu Rut með það.

Kærar kveðjur úr prófastressi í MA (en samt er svo rólegt yfirbragð, engin stundatafla nema kannski yfirsetur :-) )

Ingibjörg

Anonymous said...

Hæ!
Leiðinlegt hvernig jólafríið ykkar endaði - hefði verið gaman að hitta ykkur en það verður kannski bara á Hlíð eða Seli í ellinni, þegar hinu mikla kapphlaupi lífsins fer að ljúka ;)
Þetta með tréin er líklega eðlilegt þar sem þú ert jú listamaður - þar er víst allt mögulegt hefur maður heyrt. En hvað veit ég hinn almenni borgari sem er ekki einu sinni hrifin af trjám. Hafið það sem best !!!

kv. solla og co.

Anonymous said...

Brynja mín
þetta er Laufi....hérna í garðinum....ertu til í að sópa svolítið af laufunum saman fyrir mig....mér leiðst svo að hafa svona sóðalegt í kringum mig...