Friday, February 20, 2009

Í línunum leynast ævintýri.

Ég varð svo ósköp syfjuð í dag. Velti fyrir mér að leggja mig en vissi sem var að ég þurfti ekki svefn heldur súrefni. Reif mig upp á rassinum og gekk um hverfið og tókst að koma auga á margt fallegt sem umlykur okkur í hversdagsleikanum. Ég las margar sögur í dag og hlustaði á skemmtileg samtöl í línunum, sumar blöðruðu glaðbeittar svo ekki var hægt að greina orð en rómurinn gaf hamingju til kynna, aðrar hummuðu lög og sumar blunduðu og rétt litu á mig en náðu að snurfusa sig aðeins fyrir myndatökuna. Ein línan var fallegri en önnur, ein var skemmtilegri en önnur, ein var stærri en önnur. Allar áttu þær þó sameiginlegt að vera á ferðalagi til vorsins.

Í línunum leynast ævintýri.

Stefna
Hraðferð
Sól í sól
Skuggi
Skrifað
Skip
Ská
Samtal
Farin
Niðurfall
Krummi
Aleinn
Kaldur
Steinar
Ferðalag
För
Dillibossar
Augu
Innblástur
Á leiðinni

Sunday, February 15, 2009

Myndir

Hér koma myndir góða fólkið okkar, frá ferðalaginu síðustu helgi, valentínusardeginum og hinni vikulegu pizzugerð. Njótið vel en best hefði verið að hafa ykkur með auðvitað, en koma tímar koma ráð.

Ps: Nanna láttu ekki svona þetta eru ljómandi myndir af þér;)


"Góðan daginn" sagði hann og kinkaði kolli þegar við mættum honum á leið á Louisiana safnið

Fyrir utan Louisiana í Danmörku

Kúl teikni/hreyfimynd á öllum veggjum

Meistararnir

Gaman að gera klippimyndir

Dagrún að mála og klippa

Stelpurnar mínar

Le grand assistant eftir Max Ernst, Dagrún le petit assistant et Valur le grand genious
Á leið á grímuball

Kærleikskakan sem var unaðsleg þrátt fyrir smá vandræði með hlaupið

Amminamminamm, allt heimabakað og steikt, óhollusta er góð í hófi;)

Kleinurnar

Náttúrlega falleg, þau hafa enga þörf á biblíu fallega fólksins eins og við hin

Gott að fá laugardagskaffi

Vallzennegger
Nannzennegger
Brynzennegger

Unglingurinn í Signalvägen 20

Finnið fjórar villur

finnið tvær villur

Saturday, February 14, 2009

hlass af Brynjulegheitum.

bara svo ég gleymi þessu ekki....
Vorum á leiðinni úr ræktinni og búðinni. Skáni eins og hún gerist fallegust. Sól eins stigs frost, hvít jörð og víðátta, héri hlaupandi yfir túnið. Lars Winnerbäck och Miss Li í geislaspilaranum, ég með bleik blóm í faðminum og súkkulaðihjörtu. Valur á leiðinni að fara að steikja kleinur eftir uppskriftinni hennar ömmu Gunnhildar, dæs, andvarp, sumir morgnar eru betri en aðrir.

Gleðilegan kærleiksdag, þó hann sé amerískur og blabla er gott að gefa sér ástæðu til að staldra við og íhuga allt sem hægt er að vera þakklátur fyrir.

Ást hamingja og hlýja til ykkar og hlass af Brynjulegheitum og sérstök ástarkveðja til Ásbjarnar sem er eins árs í dag.

Friday, February 13, 2009

Jag mår så himla bra

Jag mår så himla bra. Tékkið á þessu. Það er gjarnan um þetta leyti árs eftir áramótaloforð um bætt líferni sem fólk gefst upp. Það léttist ekki um þessi kg sem áætlað var á viku eða mánuði, það bætir ekki á sig vöðvamassa svo sýnilegt sé á stuttum tíma. Það horfir um of á spegilmyndina, gleymir að hugsa um það sem gerist innra og dekrið við hjartað, kropp og huga verður tímabundið. Fólk hugsanlega fellur æ oftar í freistni (af því það er búið að vera svo duglegt) og fær sér meira en það þarf á diskinn sinn, eða bakarís og aðrar afurðir sneisafullar af transfitu og viðbættum sykri eru boðnar velkomnar á ný. Hreyfingunni er skipt út fyrir blunda og sjónvarpsgláp. Og hugsanlega verður lífernið verra þegar upp er staðið.

Það er gott að borða, góður matur þarf ekki að vera óhollur og hreyfinguna er hægt að fá í ýmsum öðrum myndum en íklæðast þröngum samfestingi með ennisband og hrópa vííí. Hugið að því elskuleg, þegar þið eruð orkulaus og full af febrúarsleni, skreppið í göngutúr, sund, ræktina eða lagið til í geymslunni. Gerið ykkur fiskisúpu með grænmeti og kókosmjólk.

Hér verður slík súpa á borðum í kvöld. Ég á enga uppskrift en innihaldið verður á þessa leið:
Þorskur
Rækjur
Laukur
Hvítlaukur
Brokkolí´
Sætar kartöflur
Saxaður chili og engifer
Grænmetissoð
Kókosmjólk

Sem sé það grænmeti sem er til í ísskápnum, saxað og svissað í msk af olíu, soðið hellt út í og soðið í 10 mín,kryddið eftir smekk, okkur finnst gott að hafa mikið engifer, kókosmjólkinni þeytt út í, hitað og svo fiskurinn útí síðustu 2-3 mínúturnar.

Amminamminamm og góða holla og ástríka helgi.

Sunday, February 08, 2009

Helgin







Dansandi með gleðina eina í farteskinu, hlæjandi áhyggjulausar í nafla alheimsins. Syngjandi í eldhúsáhöld og gleyma stað og stund. Skríkjandi læti og mátuleg óhollusta, bíó og seint að sofa. Náttfatapartý dótturinnar gekk vel og strákunum fannst ekki leiðilegt að stríða genginu og fá að stýra fiskidamminu, setja gamla sokka í stað sælgætis á öngulinn og gera lukku.

Matarboð fullorðna fólksins til Helsingborgar, njótandi og "bara vara" með vinum sínum. Frúin með gloss og síða eyrnalokka og herrann í blárri skyrtu, samt ekki lögguskyrtu.

Skroppið til útlanda á sunnudeginum, Holbæk og Louisiana, Manga sýning og Max Ernst litin augum, svakalega gaman og fallegt úti sem inni, fróðlegt að fá innsýn inn í sögu Mangaheimsins og fara inn í draumkenndan dadaismann, gleyma sér um stund í formum, litum og undarlega óskiljanlegum pælingum. Lékum okkur lengi í barnaálmunni og gerðum klippimyndir. Allir glaðir og farið með ferju heim til að æfa sig fyrir stóru ferjuna í sumar. Núðlur í matinn og svo var horft á Spirited away leikstýrð af Miyzaki, frábær mynd sem ég set ykkur fyrir.

Wednesday, February 04, 2009

harðdugleg og fjölhæf,)

Húsið okkar, blendnar tilfinningar en spennandi að það sé komið á sölu. Ef þið klikkið á linkinn þá sjáið þið myndir af því og þá er bara að vona að svíum eða öðrum hugnist það, ef þið þekkið einhvern í húsakaupahugleiðingum sér Magntorn och Lindwall um söluna.

Við Valur eru tvístígandi með húsnæðisframhaldið á Akureyri, íhugum jafnvel að leigja fyrstu árin meðan allt er að lenda vonandi þokkalega mjúklega á Íslandinu. Gætum þá líka tekið okkur góðan tíma í að einbeita okkur að því að aðlagast aftur landinu okkar fagra og vona bara að það verði ekki allt of stórt kúltúrsjokk. En svo á hinn bóginn hugsum við um gildi þess að eignast framtíðarheimili sem gæti auðveldað okkur nýja rótfestu. Dæs og andvarp, svo sem ekki stórmál en stórar ákvarðanir samt sem áður fyrir okkur enda að mörgu að hyggja, lánum, verðbólgu og öðrum óþægindum. En nú er bara að halda að sér höndum og vona að Jóhanna og annað gott fólk eigi eftir að snúa framvindunni uppávið og leggja hönd á plóginn þar sem hægt er, skrýtið að segja það en ég hef sjáldan verið eins viljug að borga íslenskan skatt, vil að hann sé notaður til uppbyggingar og treysti Jóhönnu og bið heitt og innilega að kosningar í vor verði frjóar og grænar en ekki bláar og kaldar. Já og talandi um skatt þá vantar mig vinnu á Akureyri haustið 2009. Ég er næstum með 5 háskólagráður eins og sumir sem einnig lærðu í Svíþjóð (getraun), ég er harðdugleg, metnaðargjörn og fjölhæf. Allar ábendingar eru vel þegnar;)

Sunday, February 01, 2009

þjóðarvellíðan

Svolítil veikindi og maður getur eytt deginum í rúminu heilan sunnudag án þess að skammast sín, það er jákvætt. Langaði einmitt að minna á mikilvægi þess að vera jákvæður. Þrengingarnar í samfélaginu geta nefnilega ekki bara dregið úr fólki mátt heldur einnig gefið því hlutbundna ástæðu til að leggja árar í bát, gefast upp áður en reynt er að glíma við vanda sem hugsanlega á annan uppruna en kreppuna. Það mikilvægasta í þessari stöðu er að gefast ekki upp fyrirfram né gera sér óþarfa mat úr kreppunni sem orsök alls ills og þess sem miður fer.

Ekki gleyma ykkur, munið að njóta og lifa, hugið að heilsunni og ykkar nánustu. Vinnið í forgangsröðuninni, það er ekki nóg að tala eða hugsa, framkvæmið, hampið heiðarleika, tillitsemi og kærleika, vinnið gegn spillingunni sem getur vaxið svo hratt í svona umhverfi, leggið ykkar á vogarskálarnar til uppbyggingar ykkar sjálfra og það mun skila sér í þjóðarvellíðan.

þetta voru hin Brynjulegu orð dagsins