Saturday, September 30, 2006
Fljótandi terta á laugardegi
Eiginlega fyrsti áþreifanlegi haustdagurinn í dag, skýjað, logn og svo yndislega milt veður. Svona veður gerir mig rólega og mjúka. Fórum út með krakkana, sem endaði þannig að Valli spilaði fótbolta við Hörð Breka og fleiri stráka. Dagrún var liðtæk til að byrja með en svo kenndi hún mér leikinn "farbror lejon vad är klockan" sem er nokkuð áþekkur og 1,2,3,4,5 dimmalimm. Þetta var stuð. Síðan fórum við heim, borðuðum brauðið sem Valli bakaði í gærkveldi með smjöri og fíkjusultu frá Líbanon krydduð með anís, ótrúlega gott. En rúsínan í pylsuendanum var drykkurinn minn sem ég verð að segja ykkur frá. Hún Lilý mín kynnti mér í gær fyrir Chaitei, fljótandi terta. Unaðslegur drykkur sem er drukkinn allt árið um kring í Indlandi. Bragðið er svo gott fyrir kroppinn og sálina og vekur upp minningar um inniveru í stórhríð undir sæng, rafmagnsleysi, vasaljós og Enid Blyton. Kaffi, kleinur og kryddbrauð hjá ömmu...drykkur sem sé sem allir þurfa að njóta. Í þessum skrifuðum orðum er afslöppun í gangi, telyktin fyllir húsið, strákarnir spila playstation, Dagrún er að prinsessast og ég er jú hér við tölvuna.
Tuesday, September 26, 2006
germanía
Jú þetta var góð ferð og mikið lifandi ósköp sá ég mikið af list. Mest samtímalist misgóðri. Margt mjög innihaldsríkt, fallegt, hrífandi og talandi, annað ljótt, rýrt og tómt og loks góður skammtur af milliveginum sem sé hvorki né. Ég heimsótti ásamt skólasystkinum mínum og kennurum hin ýmsu listasöfn, fór í háskólaheimsóknir og hitti listamenn við störf...fékk svona u.þ.b. þúsund hugmyndirog vonandi blæs ég lífi í allavega eina ef ekki tvær. Allavega þrái ég ekkert heitara núna en að prófa nýju penslana og litina mína sem ég keypti mér í Köln.
Langar að segja ykkur frá einu verki sem mér fannst svo fallegt og gefandi, heitir brainforest eftir Gerdu Steiner og Jörg Lenzinger.
http://www.steinerlenzlinger.ch/sweatp_brainforest.html
gæti skrifað heillangt um þetta fallega verk. Ímyndið ykkur breiða hringstiga upp margar hæðir og rýmið sem myndast á milli, hreint og hvítt. Rýmið er fyllt af greinum með óteljandi fallegum hlutum úr ólíkum efnivið sem finnst í hversdagsleikanum, fjaðrir, plastleikföng, steinar, garn...fjársjóðir sem maður sankaði að sér í æsku. Algjörlega hægt að gleyma sér í þessu verki, greinarnar leiða mann alltaf á nýjan og nýjan hlut. Minnir á ærsl og hlátur, áhyggjuleysi...
En það er gott að vera komin heim, fjölskyldan, hreint utan um sængurnar, hafragrautur, kósí kvöld, hehehe hljómar eins og ég hafi verið ár og öld í burtu en lýsir líklega vel hversu margt ég upplifði á einni viku.
Monday, September 25, 2006
komin heim, Düsseldorf, Köln, Hamborg og svo Örebro. Sá mikið af list, er núna að hvíla mig knúsa trallann minn, lillann og lilluna læt heyra betur í mér fljótlega, knús og kossar!
jú eitt að lokum:
http://www.youtube.com/watch?v=2IV6rQxfk48&mode=related&search=
jú eitt að lokum:
http://www.youtube.com/watch?v=2IV6rQxfk48&mode=related&search=
Saturday, September 16, 2006
Yndislegi september
Yndislegi september. Þetta er búið að vera góð vika, veðrið hefur leikið við okkur og ástæða til að vera í pilsi og ilskóm. Tobban okkar kom í heimsókn og lífgaði upp á hversdagsleikann. Hér var haldin mezoveisla með falafel, eggaldinídýfu, tabouleh og dýrindis hnetusósu. Auðvitað var farið seint að sofa veislukvöldið.
Ég er búin að vera á kafi í að safna "erfiðum hugsunum" og játningum og myndskreyta þær, sé fyrir mér litla bók. Hugsunum og játningunum safna ég í sérstakan póstkassa sem er staðsettur í skólanum mínum, vonast til að gefandinn finni fyrir létti þegar hann póstsetur skilaboð sín. Hann fær meira að segja hlutbundið faðmlag að launum í formi hvíts steins með ávölum formum. Vonast einnig til að geta sett póstkassa hér og þar og safnað hugsunum frá ólíku fólki og gert litla rannsókn í leiðinni á því hvað einkenni erfiðar hugsanir og játningar ákveðinna stétta, aldurs, þjóðerna og svo framvegis og hvort það sé yfirleitt einhver munur þar á. Bendi á að það er hægt að senda mér nafnlausar hugsanir og játningar í pósti en gott er ef þeim fylgja upplýsingar um kyn og nokkuð nákvæman aldur.
Fann frábæra síðu í morgun sem skýrir dugnað minn í muffinsgerð í dag
http://www.dagensmuffin.se/recipes.pl?category=S%F6ta%20muffins
mæli sérstaklega með masarínumuffins og súkkulaðibitamuffins. Þau runnu allavega ljúflega niður í litla og stóra maga. Lilý lillan kom og færði með sér gleði, hún styrkir óneitanlega félagslegt net okkar sem hefur gisnað verulega eftir að Andri, Rósa, Eva og Daði fluttu til Gautaborgar. Við söknum þeirra voðalega.
Annars er ég svo bara að fara til Þýskalands á mánudaginn, tek góðan myndlistarúnt í Düsseldorf, Bonn og Köln. Hlakka til að eiga viku í Þýskalandi og á leiðinni þangað ætla ég að lesa Maus I og Maus II eftir Art Spiegelmann svona til að fá sterkari stemmingu, þið sem þekkið mig vel vitið hversu mikil stemmingamanneskja ég er!
Vona að næsta blogg verði fullt af góðum sögum og minningum um vikuna sem framundan er.
ps: verð að bæta þessu við núna á sunnudagsmorgni eftir að dóttir mín er búin að vera í frekjukasti þar sem hún heimtar meira muffins...þetta kom mér í gott skap eftir muffinsbaráttuna miklu...
http://www.123.is/asgeirpall/files/Reykjav%EDk%20S%ED%F0degis%20fyndi%F0.mp3
Sunday, September 10, 2006
Skólaljóð
Ég heimsótti íslenska vinkonu mína í gær, súkkulaðikaka og göngutúr með börnin í yndislegu veðri féllu í góðan jarðveg. Happafengur dagsins var hinsvegar sá að ég fann bókina Skólaljóð. Þessi bláa sem við öll eldri en 30 ára líklega könnumst vel við. Ég fékk bókina lánaða og er að rifja upp kynni mín af henni. Skólaljóðin eru myndskreytt af Halldóri Péturssyni og ég man ófá skiptin þar sem ég dundaði mér við að teikna mínar útgáfur af myndunum hans og svei mér þá ef ég lærði ekki nokkur ljóð í leiðinni. Mig langar svo að eignast þessa bók og hef alltaf augun opin þegar ég kemst á íslenska bókamarkaði, hef enn ekki fundið bókina. Er mikið að lesa ljóð núna, sérstaklega þessi rómantísku í takt við Íslandssöknuð minn sem er samt einhvernveginn svo þægilega ljúfsár. Læt ljóð fylgja með en samt ekki The Rose eftir William Blake sem ég fékk afhent við gula póstkassann.
Tilfinning, Álfheiður Kristveig Lárusdóttir
Heyra hvin í trjánum
og vera hlýtt,
heyra fugla syngja
og syngja með,
sjá fiska í vatninu
og synda með,
finna lífið fljúga áfram
og halda áfram með.
Ég byrja alltaf í september að hugsa um jólin, þannig hefur það alltaf verið að jólatilhlökkunin er mikið til tekin út í þeim mánuði, veit að því er þannig farið hjá systur minni líka, en þess vegna verður þetta ljóð að fylgja með.
Desember, Jón úr Vör
Vetrarjómfrú
með langar fléttur,
rólur
handa englum,
stráir örsmáum
rúsínum á
hlaðsteinana:
Kandíshjarta,
gullterta,
silfurkleina,
stjörnubjart
jólabrauð.
Upp í
norðurljósaskýjunum
kindur á fjörubeit.
Tilfinning, Álfheiður Kristveig Lárusdóttir
Heyra hvin í trjánum
og vera hlýtt,
heyra fugla syngja
og syngja með,
sjá fiska í vatninu
og synda með,
finna lífið fljúga áfram
og halda áfram með.
Ég byrja alltaf í september að hugsa um jólin, þannig hefur það alltaf verið að jólatilhlökkunin er mikið til tekin út í þeim mánuði, veit að því er þannig farið hjá systur minni líka, en þess vegna verður þetta ljóð að fylgja með.
Desember, Jón úr Vör
Vetrarjómfrú
með langar fléttur,
rólur
handa englum,
stráir örsmáum
rúsínum á
hlaðsteinana:
Kandíshjarta,
gullterta,
silfurkleina,
stjörnubjart
jólabrauð.
Upp í
norðurljósaskýjunum
kindur á fjörubeit.
Wednesday, September 06, 2006
Gulur póstkassi
Ég safna minningum af öllum gerðum. Ekki bara mínum heldur líka annarra. Ef þú átt minningu sem þú vilt deila með þér viltu senda mér hana?
Þessi hríslandi og umlykjandi tilfinning að vera skotin í strák. En hafa ekki hugmynd um hvort framhald yrði á ástum og ástríðu sem vöknuðu á ströndum Spánar. Urðum klaufalega viðskila á Keflavíkurflugvelli en bréfsnifsi í peningaveski gaf fyrirheit um áframhald. Var sólbrún í sveitinni hjá systur minni, ég var í gulri peysu og dökkgrænum gallabuxum þegar síminn hringdi. Voðalega var gaman að heyra í honum og við ákváðum að hittast. Ég sagði honum að ég væri í sveitinni og hann fyndi mig við afleggjarann þar sem guli póstkassinn væri. Ég labbaði niður á veg í haustmyrkrinu. Engir ljósastaurar en rataði á gula póstkassann sem sást auðvitað ekki í myrkrinu frekar en hinir gulu póstkassarnir við bæina í kring. Hann fann mig og var með ljóð handa mér.
Þessi hríslandi og umlykjandi tilfinning að vera skotin í strák. En hafa ekki hugmynd um hvort framhald yrði á ástum og ástríðu sem vöknuðu á ströndum Spánar. Urðum klaufalega viðskila á Keflavíkurflugvelli en bréfsnifsi í peningaveski gaf fyrirheit um áframhald. Var sólbrún í sveitinni hjá systur minni, ég var í gulri peysu og dökkgrænum gallabuxum þegar síminn hringdi. Voðalega var gaman að heyra í honum og við ákváðum að hittast. Ég sagði honum að ég væri í sveitinni og hann fyndi mig við afleggjarann þar sem guli póstkassinn væri. Ég labbaði niður á veg í haustmyrkrinu. Engir ljósastaurar en rataði á gula póstkassann sem sást auðvitað ekki í myrkrinu frekar en hinir gulu póstkassarnir við bæina í kring. Hann fann mig og var með ljóð handa mér.
Friday, September 01, 2006
isländska häxan tittar inn i din framtid!
Ok ég er enn ekki byrjuð í skólanum og er algjörlega að verða viðþolslaus eftir vinnustofunni minni sem býður mín með óþreyju, björt og hrein með góðum glugga og þiljum til að loka af þegar ég þarf að vera í einrúmi...er byrjuð að vinna hérna heima en það er ekki það sama og tölvan lokkar óneitanlega.
það sem ég er búin að gera í dag klukkan 9:51
Ræktin
klæða börn
ganga frá morgunverðaleifum
Búa um rúmin
sópa
Fara í sturtu
Fara með Dagrúnu á leikskólann
borða hafragraut
Opna skissubókina mína
Opna tölvuna
Fara daglegan bloggtúr
Fara á spámanninn, hversu aumkunarvert er það fyrirgfefiði og skilaboðin voru eftirfarandi:
7 bikarar
Ekki gleyma þér í draumalandinu góða. Þú ert fæddur hugmyndasmiður en átt það til að gleyma stund og stað í tíma og ótíma. Væntingar þínar eru miklar til lífsins en þér er hér bent á að ákveða hvert þú ætlar þér.
Fyrr en síðar ættir þú að ákveða hvað er þess virði að vinna að með raunsæju hugarfari og hvað telst til skýjaborga. Kannaðu alla möguleika áður en þú ákveður þig.
Ígrundaðu val þitt alla leið og spurðu sjálfið hvaða ákvörðun færir þér hamingju.
Ég segi nú bara "kræst"
Skissubókin liggur nú opin, ég er að gera ákaflega innihaldsríkt blogg sem mun án efa færa þeim gæfu sem lesa og þeir munu finna hamingjustjörnuna svo lengi sem þeir halda áfram að gefa af sér til náungans, múhahhahaha! Ég ætti kannski að opna sænska spámannslínu, isländska häxan tittar inn i din framtid!
Subscribe to:
Posts (Atom)