Monday, October 09, 2006

með fjóra í útvíkkun


Fyrir fimm árum var ég sirka 20 kg þyngri en ég er í dag, kasólétt og beið spennt eftir komu krílsins sem var búið að hreiðra vel um sig í móðurlífinu mínu. Ég hvíldi mig, borðaði kökur og straujaði lítil ungbarnaföt. Þess á milli naglalakkaði ég mig, fór í klippingu og dekraði við mig. Dekrið skilaði sér því þegar fyrsti hríðarverkurinn kom klukkan 2 um nótt, var ég svo tilbúin í slaginn. Að vísu undrandi þar sem krílið ákvað að koma uppsettan dag en ekki láta bíða eftir sér eins og frumburðurinn gerði. Ég fór í bað, las í bókinni "máttur jarðar" eftir Jón Björnsson en amma Dagbjört hafði gefið mér bókina og þegar hún dó 5 vikum áður ákvað ég að lesa hana. Ég læddist um því það var svo notalegt að njóta þessarrar stundar í einrúmi, eitthvað svona óútskýranlegt milli krílsins og míns. Um morgunin þegar búið var að skutla Herði Breka á leikskólann fórum við hjónin upp á fæðingadeild og allt var komið vel af stað, 4 í útvíkkun. Mikið varð ég hissa og glöð því fyrri fæðingareynsla var þannig að þegar ég var komin með 2 útvíkkun þá hélt ég í fullri alvöru að verra gæti það ekki orðið...það var vitlaust. En við fengum bæjarleyfi því allt í einu varð það svo gríðarlega mikilvægt að kaupa barnabílstól. Hríðirnar ágerðust, man einmitt eftir einni vænni á bílastæðinu og ég sá að ég færi nú ekki á bláu könnuna í leiðinni.
Við tók fín fæðing, drulluvont en allt gekk svo snurðulaust, ég hélt heljartaki í Valla og hláturgasgrímuna meðan sóttin herjaði og gleymi ekki þegar fyrsti rembingurinn kom með tilheyrandi rembingshljóðum, heilbrigð stúlka fæddist svo 14:45 16. október. Hún Dagrún Kristín mín sem kom beint upp á magann minn og það var ást við fyrstu sýn.

Nú er skottið mitt að verða fimm ára, mikið um að vera og ný afmælisplön hjá ungfrúnni hvern dag. Það er búið að baka masarínumuffins. gulrótarköku, marengstertu að hætti ömmustínu, súkkulaðiköku sem verður þegar upp er staðið pils alsett sælgætisgimsteinum og sælgætisperlum og Bratzdúkka með uppsett hárið fær heiðurinn að eiga pilsið. Dagrún er prinsessa, hún vill bara vera í bleiku og helst í kjól eða pilsi. Hún er sjálfstæð og eftir því ákveðin að fá sínu framgengt en nokkuð hlýðin. Hún elskar að sulla og baðar gjarnan dúkkurnar sínar, þó ekki upp úr klósettinu eins og ég gerði víst eitt sinn á jóladagsmorgni. Hún er tónelsk og finnst mjög gaman að syngja og hlusta á tónlist. Hún er félagslynd, ráðrík, brosmild og er hrædd við þrumur og eldingar. Henni finnst gott að knúsast og elskar kartöfluflögur og nammi. Hún er mjög meðvituð þessa dagana að læra stafina og segir gjarnan ábyrgðarfullt að nú þurfi hún að gera lexíurnar sínar og á þá við íslenskukennslu heimilisins sem felst mest í stafainnlögn. Hana langar mikið í trampolín og garð og dúkku sem getur grátið alvöru tárum.

Mikið er maður nú lánsamur.

8 comments:

Anonymous said...

Já þú ert sko lánsmöm mín kæra.
man svo vel eftir þessum tíma enda sjálf kasólétt. man eftir að sitja á biðstofunni á mæðraeftirlitinu og fá sms frá Valla þar sem lítil stúlka var fædd. heimsótti ykkur mæðgur um kvöldið og fannst ég vera að springa þegar ég horfði á gullfallega stúlku hjá gullfallegri mömmu sinni :) var pínu öfundsjúk yfir að þú værir búin en á sama tíma spennt að eiga þetta eftir .. furðulegt eiginlega.

imyndum said...

Þetta er í fyrsta sinn sem ég heyri fæðingu svona fallega lýst, allt að því rómantísk en samt svo raunveruleg lísing.

Dagrún er greinilega líka fallegt barn... að innan sem og utan. Hlakka til að kynnast henni betur

Magnús said...

Hún er afbragðs stúlka og börn ykkar bæði sérstaklega mannvæn. Brynja, þetta er lífið!

Fnatur said...

Ég trúi varla að hún sé að verða 5 ára. kræsingarnar sem verða í afmælinu hljóma afar vel. Ég ráðlegg þér bara að njóta bleika tímabilsins því það gæti endað á einni nóttu hjá henni, ég tala af reynslu (ekki nema hún verði eins og ég, bleik alla æfi hehe). Takk fyrir að deila þessari fallegu minningu með okkur kæra vinkona.

Anonymous said...

Hæ hæ
Gaman að lesa þetta :) Ég var einmitt að skoða myndir af Dagrúnu þar sem hún er nýfædd og svo aðra af Breka með hana pínulitla í fanginu. Yndisleg bæði tvö.
Vá hvað ég hlakka mikið til jólanna....besta jólagjöfin verður að fá ykkur heim í nokkra daga....við skulum nota þá vel !
Kveðja úr snjókomunni á Akureyri
Edda og Kolfinna

Anonymous said...

Yndisleg mynd, eitthvað svo fallegt,ljúft og hlýtt við lítið barn og móðurbrjóst. Minnir mig samt alveg líka á mjólkurlekandi loftbelgja brjóst og börn sem vildu drekka 100x á nóttu. Helstu barnafréttir eru annars þær að Anna Sigga eignaðist fína stelpu þann 2. okt. fer bráðum að skrifa þér góðan emil. Kv. Jóhanna

Anonymous said...

Sæl elsku systir.
Heillaðist af lýsingu og upplifun af meðgöngu og fæðingu Dagrúnar.
Hin stærsta og dýrmætasta gjöf sem nokkrum getur hlotnast.
Nýtt líf.
Dagrún, var gjöf færð í heiminn á nákvæmlega réttum tíma.
Ljós heimsins á sérstökum tíma í lífi okkar.
Eilíft líf er falið í börnum okkar.
Loforð um hringrás lífsins.
Ég er endalaus þakklát fyrir þá gæfu að hafa Dagrúnu og Hörð Breka
í lífi mínu.
Faðmlag.
Þín Systa.
Risaknús til ykkar allra elsku Brynja,Valli,Hörður Breki og Dagrún.

brynjalilla said...

þið eruð öll svo yndisleg, takk fyrir falleg orð. Langar að bæta því við að myndin er tekin þegar Dagrún fær fyrsta sopann sinn...gekk nokkuð vel.