Þvílík vítamínsprauta, við Valur skelltum okkur til Stokkhólms, gistum á hóteli, fórum á tónleika og Lilýlillan okkar sá um frumurnar okkar. Þetta var unaður, ekki í poka, ekki í dós heldur unaður í hverri innöndun. Fyndið en maður var svona "kominn til útlanda". Við röltum í rólegheitunum um miðbæinn og gamla bæinn, stoppuðum oft og fengum okkur hressingu, sáum frábæra ljósmyndasýningu Sally Mann, tékkið á henni! Kíktum á August Strindberg safnið, fórum á fornbókasölur og bara stilltum okkur af og áttum sannar gæðastundir. Kvöldið og tónleikarnir....
ó mæ...ég varð ástfangin af Madaleine Peroux, hún bara er svo hrífandi. Flauelsmjúk rödd og ótrúlega töff. Rödd sem rífur í og djúpur sellótaktur fær hjartað til að hoppa og hugsanir að fljúga. Lánsemi mín og hamingja fullkomnaðist næsta morgun þegar ég var að fá mér appelssínusafa og drottningin, sem er áreiðanlega dass yngri en ég, sko Madaleine, ekki Sylvía, morgunúfin og einlæg var að fá sér líka. Ég stökk til, fékk eiginhandaráritun, fékk að faðma hana og sagði henni frá börnunum mínum en hún nefnilega áritaði aftan á mynd af HBV og DKV þar sem það var eini snepillinn sem var handhægur, frábært. Valli tók mynd af okkur og ég gekk á bleiku skýi með dúndrandi hjartslátt lengi á eftir. Merkilegt hvað maður verður lítill og kjánalegur þegar maður hittir listamann sem maður fýlar svo mikið sem er bara venjuleg manneskja eins og við hin.
Þegar heim var komið í steikjandi sælu innra sem ytra var vítamínkikkið notað, ég stakk upp lavenderið mitt, setti í bala og ætla sko að taka þessa vini mína með mér lil Lundar. Postulín og kristall er nú komið í kassa og heimilið lýtur út eins og sprengja hafi fallið...guði sé lof því það er loksins kominn almennilegur taktur í þessa niðurpökkun...sellótaktur. Skrapp og skokkaði með Herði Breka sem er allt í einu mjög metnaðrfullur lítll skokkari, skil ekki hvar hann fær þá dillu í sig..en nú er ég klædd og komin á ról og skólinn, ræktin handan við hornið og við brunum svo til Lundar í kvöld og tökum við lyklunum af nýja húsinu okkar á morgun klukkan 13:15 nákvæmlega. Er búin að ákveða að drullast loksins í sjóbað, hlakka til og svo er búið að bjóða okkur í partý hjá Alexei, rússneskum töffara og nágranna á nýja staðnum, þarf nú að fara að velta fyrir mér í hverju ég á að fara. Bless í bili elskurnar mínar og því miður engin tími til að setja inn myndir. Lofa samt myndinni af mér og Madaleine vinkonu minni þegar hægist um.