Eldaði þennan ljómandi kjúklingarétt í gær, býð ykkur hér með einu sinni enn í huglægan mat, á þjóðhátíðardegi Svíalinga, gjörið svo vel!
Pestoostahvítlaukskjúlli fyrir 8.
2 kg kjúklingabringur
Vænn biti af brieosti, án hvítu himnunnar, 150-250 gr, smekksatriði
1 stór krukka grænt pesto
1 lítil krukka sólþurrkaðir tómatar
8-10 skallottulaukar, flysjaðir
Hvítlauksrif eftir smekk, ég notaði 10 rif
1 box kirsuberjatómatar
1 poki furuhnetur
Salt og svartur pipar.
Setjið bringurnar í ofsnskúffu
skerið í þær raufir og stingið feitum hvítlauksbitum og osti ofan í.
Saltið og piprið, farið varlega með saltið en verið djörf með piparinn.
Skerið sólþurrkuðu tómatana í strimla og blandið við pestóið en forðist að setja alla olíuna af tómötunum saman við.
Setjið afganginn af hvítlauknum, skallottulaukinn og kiruberjatómatana í ofnskúffuna og raðið fallega í kringum og milli bringanna.
Skellið Pestogumsinu yfir allt saman, sérstaklega kjúklinginn.
Dreifið hnetunum yfir.
Bakið við 200 gráður í 40-60 mín.
Látið það ekki hræða ykkur þó komi mikill vökvi, hann gufar upp að mestu en skilur eftir sig guðlegan kraft.
Berið fram með hrísgrjónum, salati og snittubrauði og í tilefni dagsins er ekki dónalegt að opna eina Pinot gris hvítvín eða eitthvað ljúft rauðvín sem gefur manni sálarfrið, allavega það kvöldið;)
Tillögur að umræðuefni með matnum:
Gildi þess að hafa útisnúrur.
Gildi þess að eiga handknúna sláttuvél.
Afturhaldssemi svartstakka og lútersku kirkjunnar gagnvart hjónavígslum homma og lesbía.
Veggjalús og önnur "gæludýr"
Vangaveltur um af hverju Svíar halda þjóðhátíðardaginn sinn 6. júní og komast að þeirri niðurstöðu að það hafi verið sá mánaðardagur þegar Gustaf Vasa missti sveindóminn.
Verði ykkur að góðu