Tuesday, June 26, 2007
Júnímyndir
Júní er búinn að vera viðburðarríkur og góður mánuður. Fólk sem við elskum hefur staldrað við og skemmt sér og okkur. Myndirnar segja það sem þarf.
Thursday, June 21, 2007
Hver er þessi Jón? Jón frá Felli kannski?
Jónsmessan/Midsommar nálgast og mikil tilhlökkun í loftinu. Svíar borða aldrei eins mikið af jarðarberjum og þá, dansa þjóðdansa í kringum midsommarstången og gera sér glaðan dag. Við ætlum að skella okkur í tívolí í Köben og það er aldrei að vita nema eitt og eitt hvítvínstár renni ljúflega í mallakútinn og sleiki hann svolítið. Lólan mín og hennar fylgifiskar eru í heimsókn og ég ætla að halda þeim veislu um helgina, setja fullt af afskornum blómum í vasa og að sjálfssögðu baða mig upp úr dögginni.
Læt fylgja með uppskrift af Jónsmessubombunni:
2 púðursykurmarensbotnar, keyptir eða bakaðir, ég geri púðursykurbotnana á bls. 30 í kökubók Hagkaups.
2-3 pelar rjómi
vænn slurkur af þykkri karamellusósu t.d. oboy, allavega 4-5 sprauthringir
vænn slurkur af þykkri súkkulaðisósu t.d. oboy, allavega 4-5 sprauthringir
2 öskjur jarðaber
1 askja bláber eða bara meiri jarðaber
þeytið rjómann, blandið karamellusósunni saman við helminginn, smakkið til
og setjið á annan marensbotninn.
Setjið hinn botninn ofan á og hinn helminginn af rjómanum ofan á hann,
skellið berjunum á og sprautið súkkulaðisósunni yfir, ég set ríflega en þetta er smekksatriði.
Gott að láta kökuna taka sig aðeins áður en hennar er neytt.
Verði ykkur að góðu og gleðilega Jónsmessu dúllubossarnir mínir.
ps: vegna fjölda fyrirpspurna, læt ég mynd af mér í kjólnum fræga fylgja með.
Monday, June 18, 2007
Hjartalaga tattú
Vaknaði í morgun við innrás barnanna minna sem sungu hún á afmæli í dag og hlunkuðust ofan á mig. Hörður Breki teiknaði mynd af einfættum fugli sem var með hjartalaga tattú og inn í því stóð "mom". Tobban hringdi frá Ítalíu og sagði mér að hún væri að láta prjóna á mig íslenska lopapeysu, yndisleg. Við Valli drifum okkur í ræktina, svo inn í Malmö þar sem við fengum okkur uppáhaldsmatinn minn, sushi. Afmælisstelpan fékk nýja skó og fleira girnilegt í tilefni dagsins. Rólegheit seinnipart, mömmuspjall og svo vídeónammikvöld ásamt tengdafjölskyldunni.
Nú bíður mín hvítvínslús og tilfinningin að vera nær fertugu en nokkru sinni áður...ekki eins sárt og það hljómar.
Nú bíður mín hvítvínslús og tilfinningin að vera nær fertugu en nokkru sinni áður...ekki eins sárt og það hljómar.
Sunday, June 17, 2007
17. júní
þjóðerniskenndin er bara ekkert meiri í dag en aðra daga, hinsvegar þá er 17 júní veður, 15 stiga hiti, rok og rigningarskúrar. Við erum samt búin að hafa það svo gott undanfarið og sofið betur vegna þess að nú er skaplegur hiti á nóttunni. Yndislegt að hafa tengdafjölskylduna hérna og veisla upp á hvern dag. Kolfinna bræðir mann með klingjandi hlátri og krúttlegheitum. Þór bróðir minn og Vigga hans hustru komu og auðvitað var íslenskt lamb í matinn ásamt hnallþóru af bestu gerð, súkkulaðibananköku a'la Fanney og nammikaka fyrir börnin og það var virkilega góð tilfinning að hafa stóra fjölskyldu í kringum sig. Ég blés á kerti þó afmælið mitt sé ekki fyrr en á morgun, nýt þess í dag að vera 35 ára...ennþá. En nú er sólin farin að skína og svei mér þá ég er að hugsa um að skella mér í smá skokk í tilefni þess, ætti kannski að hlaupa með íslenska fánann í hendinni og blása í blístru.
Thursday, June 14, 2007
...fór ekki úr brókinni
Mikið lifandi skelfingar ósköp er gaman að vera svolítið hífaður. Er enn hátt uppi eftir tónleika gærkvöldsins, drakk reyndar mest vatn en.... Við Valur höfum verið aðdáendur Tori Amos í 15 ár en litum gyðjuna fyrst augum í gær í Falkonersalnum í kóngsins Köben. Hún er náttúrlega bara stórkostleg og að heyra í henni og sjá hana var upplifun. Ég náði meira að segja að fella tár yfir tómri geðshræringu en fór þó ekki úr brókinni. Vissulega er Tori Amos sexý en ég náttúrlega fann meira fyrir andlegri ást á stúlkunni. Hún er svo töff og framkoman er einlæg og talandi og þó maður þekkti lögin þá leið manni eins og hún væri að improvisera svo mikil var innlifunin. Hvernig hún leikur á píanóið og nær þessum fallega samhljóm píanós og raddar er einstakt og býr til þennan eftirsóknaverða Tori Amos hljóm. Svo var líka bara svo fallegt að sjá hvernig hendurnar hennar spegluðust í píanóinu og ljóst var að hljóðfærið er framlenging af henni sjálfri. Upphitunarhljómsveitin var mjög skemmtileg og minnti mig á Apolyptica, Jeff Buckly og Soggie botton boys í senn, náði sem sé að vera glaðleg en um leið snerta við einhverjum frumkrafti. Seth Lakeman, freedom fields, mæli með því að þið tékkið á þeim, sérstkalega ef þið fílið kontrabassa, fiðlu og tónlist með dass af vísna og þjóðlagastemmingu. Já það er gott að njóta þess að hafa gesti og geta stungið af fyrir kvöldstund sem hleður hjartað og hugann svo um munar.
Saturday, June 09, 2007
Tré, miðaldir og góðir dagar
Klukkan er hálfníu á laugardagskvöldi, hitinn sýnir 28 gráður inni sem úti og hér ríkir ró eftir annasaman dag. Í dag voru gróðursett tré í miklum móð, allir völdu sér eitt tré. Valur valdi sér rauðan hlyn, Dagrún valdi sér eplatré, Hörður valdi sér kirsuberjatré og ég valdi mér hvítblómstrandi Hortensíu. Tek fram að einungis voru völd tré sem töluðu til mín. Yndislegur dagur alveg hreint og við nutum þess að vinna í garðinum og kasta kveðjum á þá sem áttu leið hjá. Drukkum appelssínusafa blandaðan í sprite zero og sólbrunnum svolítið.
Þessi vika er búin að vera frábær. Byrjuðum hana á að fara á "miðaldadaga" Lundar og sáum bæði fólk að störfum og ýmiskonar muni, vopn og klæðnað og sprell tileinkað miðöldum. Hörður Breki keypti sér handgerðan boga og örvar, virkilega falleg smíð og eigulegur gripur. Svo kom Freydís í heimsókn ásamt börnunum sínum Bjarti, Freyju og Frigg og þið getið rétt ímyndað ykkur fagnaðarfundina. Yndislegt að sjá hvað börnin eru búin að þróa með sér djúpstæða vináttu. Strákarnir náttúrlega eru bara tvíburasálir í svo mörgu enda hafa þeir fylgst lengi að eða síðan í leikskóla. Við elduðum kjúkling sem var svo stór að við kölluðum hann skrímslið en hann rann ljúft ofan í svanga maga. Lílýlillan mín kom ásamt vinkonu sinni og veislu var slegið upp með þeim og lúsafjölskyldunni. Falleg kvöldstund og ljúf.
Ég málaði svolítið, naut þess að gera það úti og fílaði mig í botn. Sé því miður ekki fram á að hafa mikinn tíma aflögu til að mála þar sem húsið fyllist brátt af mjög velkomnum gestum og ætlunin er að njóta samvista við þá sem mest og best. Mikið lifandi skelfing hlökkum við til að sjá ykkur júnígestir!
Wednesday, June 06, 2007
Amminamminamm
Eldaði þennan ljómandi kjúklingarétt í gær, býð ykkur hér með einu sinni enn í huglægan mat, á þjóðhátíðardegi Svíalinga, gjörið svo vel!
Pestoostahvítlaukskjúlli fyrir 8.
2 kg kjúklingabringur
Vænn biti af brieosti, án hvítu himnunnar, 150-250 gr, smekksatriði
1 stór krukka grænt pesto
1 lítil krukka sólþurrkaðir tómatar
8-10 skallottulaukar, flysjaðir
Hvítlauksrif eftir smekk, ég notaði 10 rif
1 box kirsuberjatómatar
1 poki furuhnetur
Salt og svartur pipar.
Setjið bringurnar í ofsnskúffu
skerið í þær raufir og stingið feitum hvítlauksbitum og osti ofan í.
Saltið og piprið, farið varlega með saltið en verið djörf með piparinn.
Skerið sólþurrkuðu tómatana í strimla og blandið við pestóið en forðist að setja alla olíuna af tómötunum saman við.
Setjið afganginn af hvítlauknum, skallottulaukinn og kiruberjatómatana í ofnskúffuna og raðið fallega í kringum og milli bringanna.
Skellið Pestogumsinu yfir allt saman, sérstaklega kjúklinginn.
Dreifið hnetunum yfir.
Bakið við 200 gráður í 40-60 mín.
Látið það ekki hræða ykkur þó komi mikill vökvi, hann gufar upp að mestu en skilur eftir sig guðlegan kraft.
Berið fram með hrísgrjónum, salati og snittubrauði og í tilefni dagsins er ekki dónalegt að opna eina Pinot gris hvítvín eða eitthvað ljúft rauðvín sem gefur manni sálarfrið, allavega það kvöldið;)
Tillögur að umræðuefni með matnum:
Gildi þess að hafa útisnúrur.
Gildi þess að eiga handknúna sláttuvél.
Afturhaldssemi svartstakka og lútersku kirkjunnar gagnvart hjónavígslum homma og lesbía.
Veggjalús og önnur "gæludýr"
Vangaveltur um af hverju Svíar halda þjóðhátíðardaginn sinn 6. júní og komast að þeirri niðurstöðu að það hafi verið sá mánaðardagur þegar Gustaf Vasa missti sveindóminn.
Verði ykkur að góðu
Pestoostahvítlaukskjúlli fyrir 8.
2 kg kjúklingabringur
Vænn biti af brieosti, án hvítu himnunnar, 150-250 gr, smekksatriði
1 stór krukka grænt pesto
1 lítil krukka sólþurrkaðir tómatar
8-10 skallottulaukar, flysjaðir
Hvítlauksrif eftir smekk, ég notaði 10 rif
1 box kirsuberjatómatar
1 poki furuhnetur
Salt og svartur pipar.
Setjið bringurnar í ofsnskúffu
skerið í þær raufir og stingið feitum hvítlauksbitum og osti ofan í.
Saltið og piprið, farið varlega með saltið en verið djörf með piparinn.
Skerið sólþurrkuðu tómatana í strimla og blandið við pestóið en forðist að setja alla olíuna af tómötunum saman við.
Setjið afganginn af hvítlauknum, skallottulaukinn og kiruberjatómatana í ofnskúffuna og raðið fallega í kringum og milli bringanna.
Skellið Pestogumsinu yfir allt saman, sérstaklega kjúklinginn.
Dreifið hnetunum yfir.
Bakið við 200 gráður í 40-60 mín.
Látið það ekki hræða ykkur þó komi mikill vökvi, hann gufar upp að mestu en skilur eftir sig guðlegan kraft.
Berið fram með hrísgrjónum, salati og snittubrauði og í tilefni dagsins er ekki dónalegt að opna eina Pinot gris hvítvín eða eitthvað ljúft rauðvín sem gefur manni sálarfrið, allavega það kvöldið;)
Tillögur að umræðuefni með matnum:
Gildi þess að hafa útisnúrur.
Gildi þess að eiga handknúna sláttuvél.
Afturhaldssemi svartstakka og lútersku kirkjunnar gagnvart hjónavígslum homma og lesbía.
Veggjalús og önnur "gæludýr"
Vangaveltur um af hverju Svíar halda þjóðhátíðardaginn sinn 6. júní og komast að þeirri niðurstöðu að það hafi verið sá mánaðardagur þegar Gustaf Vasa missti sveindóminn.
Verði ykkur að góðu
Monday, June 04, 2007
ffffffrrrrrrrrrussumsvei og fussssssumsvei
Þetta er sama líkamlega tilfinning og þega maður hefur sært einhvern eða sagt eitthvað yfirmáta óviðeigandi og skammast sín. Þungi í maganum og dass af ógleði. Í morgun tók ég eftir því að einhver var búin að stela útiborðinu okkar. Furðulegt en það lítur út fyrir að viðkomandi hafi einungis vantað borð því ekkert annað var tekið af útidóti. Svo er hugsanlegt að einhverra hluta vegna hafi hann orðið stressaður og forðað sér bara með borðið. En þetta er skrýtin tilfinning, ég gekk í kringum húsið og nágrenni þess í heljarmikilli afneitun, sannfærð um að borðið væri einhverra hluta þar en það er horfið. Svo óþægilegt þó þetta hafi nú bara verið borð að einhver hafi verið að sniglast hér og stela af okkur í nótt. Ég var samt ánægð með að steliþjófurinn hirti ekki grjótið sem var á borðinu, skessutönnina mína og hitaplattan sem ég fann á Kebne kaise síðastliðið vor. En ég er í vondu skapi, pirruð og hrædd um að sagan endurteki sig og hér muni einhver læðast aftur um nótt með eitthvað óheiðarlegt í huga. En jafnframt himinlifandi sátt við að við erum erum með þjófavarnakerfi inni í húsinu, það gefur mér ákveðna öryggistilfinningu þó auðvitað það eitt komi ekki í veg fyrir innbrot, en það er allavega viðleitni til að sporna gegn því. Já fussumsvei fyrir þeim sem tók borðið okkar í nótt og fussumsvei og frussumsvei að einhver rassadrulluskítaplebbi spilli öryggistilfinningunni okkar hér í Signalvägen 20 þar sem okkur annars líður svo vel.
Friday, June 01, 2007
þakklæti
Föstudagurinn ljúfi runninn upp. Ætla að skella mér í bæinn, svo sem ekki til að mála hann rauðann en til að kaupa mér afskorin blóm og kíkja á markaðinn. Svo er náttúrlega pizza í kvöldmatinn og vonandi brómber og kirsuber sem ég finn á markaðinum í eftirmat. Í gær var grillfest í skólanum hans Harðar Breka og Dagrúnar en væntanlegum nýnemendum var boðið líka. Grilluðum og lágum á teppi í blíðunni meðan börnin ærsluðust, þetta var ljúft. Vorum áþreifanlega minnt á hvað það er margt til að vera þakklátur fyrir. En hjón sem við erum nýbúin að kynnast og eiga barn á sama reki og Dagrún ásamt einu 4 ára og 5 mánaða voru að fá þær fréttir að móðirin væri með alvarlegt krabbamein, ólæknandi. Hræðilegt.
Finnst gott að það sé fyrsti júní. Ætla nefnilega að byrja að mála, var einhvernvegin bara búin að ákveða að vera í fríi frá öllu fyrstu vikurnar hér meðan allir væru að aðlagast. Það er gott að taka pásur og byrja svo aftur stútfullur af orku. Hmmm já talandi um það best að drullast í ræktina og byrja daginn með trukki. Góða helgi elsku fólkið mitt nú og aðrir sem hugsanlega reka inn nefið.
Finnst gott að það sé fyrsti júní. Ætla nefnilega að byrja að mála, var einhvernvegin bara búin að ákveða að vera í fríi frá öllu fyrstu vikurnar hér meðan allir væru að aðlagast. Það er gott að taka pásur og byrja svo aftur stútfullur af orku. Hmmm já talandi um það best að drullast í ræktina og byrja daginn með trukki. Góða helgi elsku fólkið mitt nú og aðrir sem hugsanlega reka inn nefið.
Subscribe to:
Posts (Atom)