Ég heimsótti íslenska vinkonu mína í gær, súkkulaðikaka og göngutúr með börnin í yndislegu veðri féllu í góðan jarðveg. Happafengur dagsins var hinsvegar sá að ég fann bókina Skólaljóð. Þessi bláa sem við öll eldri en 30 ára líklega könnumst vel við. Ég fékk bókina lánaða og er að rifja upp kynni mín af henni. Skólaljóðin eru myndskreytt af Halldóri Péturssyni og ég man ófá skiptin þar sem ég dundaði mér við að teikna mínar útgáfur af myndunum hans og svei mér þá ef ég lærði ekki nokkur ljóð í leiðinni. Mig langar svo að eignast þessa bók og hef alltaf augun opin þegar ég kemst á íslenska bókamarkaði, hef enn ekki fundið bókina. Er mikið að lesa ljóð núna, sérstaklega þessi rómantísku í takt við Íslandssöknuð minn sem er samt einhvernveginn svo þægilega ljúfsár. Læt ljóð fylgja með en samt ekki The Rose eftir William Blake sem ég fékk afhent við gula póstkassann.
Tilfinning, Álfheiður Kristveig Lárusdóttir
Heyra hvin í trjánum
og vera hlýtt,
heyra fugla syngja
og syngja með,
sjá fiska í vatninu
og synda með,
finna lífið fljúga áfram
og halda áfram með.
Ég byrja alltaf í september að hugsa um jólin, þannig hefur það alltaf verið að jólatilhlökkunin er mikið til tekin út í þeim mánuði, veit að því er þannig farið hjá systur minni líka, en þess vegna verður þetta ljóð að fylgja með.
Desember, Jón úr Vör
Vetrarjómfrú
með langar fléttur,
rólur
handa englum,
stráir örsmáum
rúsínum á
hlaðsteinana:
Kandíshjarta,
gullterta,
silfurkleina,
stjörnubjart
jólabrauð.
Upp í
norðurljósaskýjunum
kindur á fjörubeit.
Sunday, September 10, 2006
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
7 comments:
Mikið var gaman að lesa yfir þessi fallegu ljóð.
Ég segi það sama með jólin. Ég hef alltaf byrjað í fyrra falli að hugsa um þau, gerir þessa yndislegu hátíð lengri. Nú er bara að fara að huga að jólagjafalistanum hehe. Kannski ljóðabækur hmmmmm?
Já ég skil vel þessa ljóðaunun. Rakst seinasta vetur á íslenska ljóðabók uppi í hillu hjá mér og hafði mikla unun af því að lesa. Datt inn í einhvern rómantískann skilning á málinu, landinu og íslendingnum mér.
jólin jólin jólin koma brátt.....
ví við hlökkum svo til :)
Sæl kæra systir.
Dóttir mín var nú að nefna það núna nýlega að það væri farið að örla á tilhlökkun til jóla hjá henni, eplið fellur ekki langt frá eikinni (það hlýtur að standa eplatré rétt hjá)
Ég á eintak í fórum mínum af gömlu ljóðabókinni bláu og nýt þess að kíkja í hana annað slagið.
knús
Systa
Heyra hvin í trjánum
og vera hlýtt,
heyra fugla syngja
og syngja með,
mér finnst þessi fyrripartur dásamlegur :)
Litla Gunna, litla Gunna,
litla, fagra, heimska nunna.
Meyjum aðeins mátt þú unna,
menn þú átt að hata.
Boðorðin átt þú öll að kunna,
en eðli þínu glata.
- Veslings nunna.
Jamm... svona brot af því besta...
Dabbi Steff....klikkar ekki;)
Bestu ljóðin koma við kvikuna í manni snerta sálina og gera lífið einhvernvegin bæði tragískara og fallegra. Einar Ben er alltaf í uppáhaldi, Þetta er úr Einræðum Starkaðar, vona að ég muni rétt.
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt
sem dropi breytir veig heillar skálar
þel getur snúist við atorð eitt
aðgát skal höfð í nærveru sálar
Kv. Jóhanna
Post a Comment