allammallamá, man núna afhverju ég baka skúffuköku svona sjaldan, borða hana í öll mál og milli mála þar til hún klárast, er með steypuklump í maganum og heimilismeðlimir vorkenna mér ekki neitt heldur mana mig til að fá mér ís til að fylla í mögulegar sprungur. Ég segi nei og sé hafragrautinn í hyllingum svona ef ég verð einhverntímann aftur svöng. Annars allir í góðum fíling, lasarus heimsótti krakkana en var svo sem ekki með nein læti, kom bara og sáði hósta og kvefskít, engu alvarlegu. Sunnudagsmorguninn búin að vera góður, Dagrún fann gamla kuðunga upp í skáp og krabbakló og er búin að dunda sér við þau sígildu leikföng. Karlmennirnir eru öllu tæknilegri og spreyta sig á einhverjum tölvuleik og ég las fréttablaðið, drakk súkkulaðimyntute og kveikti á kertum.
Ný vika að hefjast, venjubundin hversdagsleiki handan við hornið. Á morgun fæ ég 2 pólska kennara sem ætla að kenna mér grafík, hlakka til þó píkublómin eigi enn hug minn allan, samt verk sem auðvelt er að vinna heima og er ákaflega róandi, það er hreinlegt og gaman að þæfa ull og róandi að sauma. Börnin taka þátt og eru búin að gera ullardúka og skálar. Æ sunnudagar, dagar til afslöppunar en líka til að sakna fjölskyldunnar og vinanna. Vildi að þið mynduð banka allt í einu upp á, leggðuð áreynslulitlum sunnudegi lið, hjálpuðuð til með skúffukökuna, kaffi og sófalúr í eftirmat.