Friday, October 12, 2007

Aðgerðin dauði

Alveg síðan hún varð viðskila við systkini sín fannst henni lífið hálftómlegt. Dagarnir voru fylltir einmannaleika og hún nærðist eingöngu á því sem varð á vegi hennar. Algjör skortur á lífsvilja. Einhvernvegin var samt þessi sterka eðlisávísun þess valdandi að hún kúrði sig ekki bara niður undir steini og dó. Hún tórði og það kom jafnvel fyrir að henni tókst að njóta einstakra sólardaga og stundum fékk hún félagsskap sem gaf henni tímabundna gleði. Tómleikinn var samt ekki langt undan, Þessi ætandi tilfinning sem gat gert hana svo leiða og þreytta og ekki bætti úr skák að rigningardögum fjölgaði og myrkrið var smám saman að verða æ fyrirferðameira.
Það var einmitt einn rigningardaginn sem hún ákvað að þetta væri orðið nóg. Hún fann sér kyrrlátt skot, lagðist fyrir og lokaði augunum. Þessu litla lífi var lokið. Hún grúfði sig niður og beið, reyndi að tæma hugann og hægja á allri líkamsstarfssemi með sjálfsaganum einum. En það var erfitt, unaðslegur matarilmur, skarkali, hlátur og mildar samræður trufluðu hana við aðgerðina "dauði". Hún opnaði augun og sá að þetta gengi ekki og tróð sér inn um gatið þaðan sem skarkalinn og ilmurinn barst.

Hún var stödd í paradís. Gnótt matar, hlýja og spennandi umhverfi sem beið þess að vera uppgötvað. Hún sá fjölskyldu sitja að snæðingi og fann fyrir svo innilegum tengslum við ljóshærða konu sem minnti hana helst á móður sína og ömmu. Börnin voru hvert öðru yndislegra og heimilisfaðirinn gaf frá sér þægilega öryggistilfinningu. Augu hennar fylltust tárum, hún var komin heim og tómleikanum létti og í staðinn kom þessi unaðslega tilfinning að tilheyra einhverjum, að þykja vænt um einhvern og vera virkur hluti af lífi einhvers.

Hún bjó um sig, hvíldíst og nærðist og fór svo að skoða sig um í krókum og kimum eldhússkápa og veggja hússins. Hún var enn ekki búin að finna kjark hjá sér að opinbera sig algjörlega en af útsjónarsemi gerði hún vart við sig svo aðrir heimilismeðlimir næðu að kynnast henni í rólegheitum og gefa henni tækifæri sem ein af fjölskyldunni.

Þetta tekur bara tíma sannfærði hún sjálfa sig. Einhvernveginn gekk þetta samt ekki eins vel og hún áætlaði í upphafi. Fjölskyldan var búin að sannfærast um að það væri draugur í húsinu og viðleitni hennar til að gera vart við sig á mildan hátt eins og að naga ruslapoka og skella niður flöskum í ruslaskápnum olli mun meira uppþoti en hún átti von á. Væntumþykjan og ástin sem hún hinsvegar upplifði varð bara sterkari með hverjum deginum því betur sem hún kynntist mannfólkinu. Ómur endurminninga um ráð móður sinnar um að mannfólk væri hættulegt, varð æ ógreinilegri og að lokum kom að hún gleymdi ráðunum alveg. En hún vissi að hún var ekki svo góð í félagslegum samskiptum, hún bara var enn svo feimin. Hún varð að finna leið til að heilla fólkið. Hún lék listir sínar inn í veggjum og glufum, hoppaði og rótaði, klóraði og spilaði lög en allt kom fyrir ekki því svo virtist sem hún ylli æ meira uppnámi. Unglingurinn á heimilinu flutti inn í annað herbergi vegna draugagangs og fór að vekja forráðarmenn sína með endurteknum símhringingum um miðja nótt kvartandi um draugagang og að hún þyrði ekki ein á klósettið. Börnin voru farin að tipla um á tánum til að styggja ekki svefnlausa foreldra sína.

Þetta er ekki rétta leiðin, hún stappaði í sig stálinu, lagaði til í húsinu sínu og ákvað að líklega væri best að opinbera sig gagnvart þeirri sem minnti hana á móður sína. Hún beið spennt þar til þær voru einar í húsinu. Puntaði sig og reyndi að anda rólega og hunsa kvíðaknútinn í maganum. Hún þekkti orðið venjur húsmóðurinnar svo vel. Vissi að brátt myndi hún opna skápinn og henda kaffikorgi í ruslið. Hún stillti sér upp, reyndi að brosa lítillega, passaði sig samt á því að vera ekki með neitt glott og loksins opnaðist hurðinn inn í ruslaskápinn og hún rétti út framfæturna. Móðir mín. Hurðin skelltist aftur og ámátlegt öskur barst og húsmóðirin dansaði undarlegan stríðsdans í kjölfarið, hristi sig alla og skók. Undarlegir eru siðir þessa fólks hugsaði músalúsin en var samt nokkuð ánægð því svona sterk viðbrögð gáfu til kynna að hér væri gagnkvæm væntumþykja til staðar. Hún var róleg og beið á sínum stað, hurðin opnaðist aftur og hún brosti og horfði djúpt og undirlát í augu húsmóður sinnar. Ég vildi bara þakka þér fyrir að leyfa mér að búa hjá ykkur, hurðin skelltist aftur, blótsyrði og annað fruss voru svörin sem bárust eftir þessa þakklætisyfirlýsingu, skrýtið, best að skjótast í burtu og athuga hvað gerist næst, hún tróð sér niður um gatið sem leiddi hana inn í óravíddir veggjanna og hvíldi sig, þetta tók á því hún var jú ekki vön svona samskiptum. Hún heyrði að eitthvað mikið gekk á í húsinu hennar...hún fylltist dásamlegri tilfinningu, það er hugsað um mig, mamma er að gera huggulegt hjá mér.

Hún læddist rólega að innganginum sínum. Það var búið að troða viskastykki í gatið hennar. Hmm skrýtið, en þá rann upp fyrir henni ljós, hún hafði nefnilega séð mannfólkið nota sængur. Þau er að gefa mér mína eigin sæng. Hún táraðist af gleði og hjartað hennar tók kipp þegar hún sá að það var líka búið að leggja á borð fyrir hana. Sérkennilegt borð skreytt glitrandi boga með girnilegum ostbita á sér miðju freistaði hennar. Hún ákvað samt að bíða aðeins því hún var búin að safna að sér smá forða í einum veggnum. Mest að klára það og geyma hitt til jóla...

17 comments:

Anonymous said...

Þetta er stórgott ævintýri. Við skulum vona að hún verði búin með forðann sinn fljótlega og setjist hið snarast við veisluborðið sem bíður hennar :)

Lóla (sem er óstjórnlega hrædd við mýs og situr með gæsahúð heima á Íslandi)

Thordisa said...

Er þessi saga eftir þig?

brynjalilla said...

jebb eftir mig, og lýsir samskiptum mínum við "gæludýrið´" á heimilinu.....er með bogann spenntann múhahahahahahaa

Anonymous said...

Guð minn almáttugur!
Þvílik kvöl og pína!
Og pínlegt!
Vona svo sannarlega að þessar rottur fari að drepast...!

Anonymous said...

Ég er heldri húsamús
hefi allt sem þarf til bús,
magál bæði og bringukolla,
bústin krof og sperðla holla.
Fæ mér bita og bita í senn,
bragðgott er það viti menn.
Uni við það alla daga,
enda hef ég góðan maga.

Anonymous said...

"Ég fann litla mús, hún heitir Heiða,
hún var að greiða mér í dag, herra Jón.

Hún er ofsa fín, hún kann að dansa,
og hún dansar svo vel, herra Jón.

Þó að hún sé feit þá er hún ofsa mikið krútt, með rauða slaufu í skottinu.

Má ég ekki hafa hana hjá mér,
má ég gefa henni ost, herra Jón."

Fnatur said...

Haha frábær saga. Hafðu bara í huga að ef þú vilt virkilega "gleðja" litla músardindilinn gefðu henni þá M og M nammi. Samkvæmt einhverri rannsókn sem að ég rakst á fyrir tilviljun fyrir ca 2 árum síðan þá finnst þeim það betra en ostur.
Ég prufaði sjálf að gefa músinni minni í sumarbústaðnum í W-Virginíu smá veislumat og m og m var það eina sem freistaði hennar að koma úr felum.
Þetta er voða spennandi....bíð eftir framhaldi ;)

Lilý said...

Listavel skrifað tjejen! Vona að þú náir henni þá.. þeim finnst líka suðusúkkulaði gott. Hverjum finnst það svosum ekki? Klárlega sælkerar þessar mýs!

Bromley said...

Við áttum eina svona vinkonu í Englandi, hún hélt til undir eldhúsinnréttingunni, ég gaf henni hnetusmjör með m&m límdu á daglega. H'un var orðin vel feit í lokin þegar við fluttum út. (gleymdi ég að segja að veislumaturinn hennar var alltaf borin fram á ysta enda músagildru)-við vorum farin að kalla hana Einstein í lokin því að hún lét aldrei ná sér.

Anonymous said...

en hvað þetta er nú falleg saga minnir mig á myndina um óskar og helgu sem var í sjónvarpinu fyrir mörgum árum, ég vona nú samt að þessari góðu hjartahlýju fjölskyldu takist að losna við þessa litlu dömu sem fyrst og sagan fái farsælan endi. Músaknús .

Anonymous said...

Frábær saga - og fyllir mig samúð með músargreyinu sem veit ekki hvað bíður sín þegar sest er að veisluborðinu...
Gangi ykkur vel að ná henni :-)

Berglind Rós Magnúsdóttir said...

Vel skrifuð og skemmtileg frásögn gella. Ég bý hins vegar við hrotur í karlinum í húsinum þar sem ég leigi og það truflar nætursvefninn. Verst að það er hægara sagt en gert að los... við hann!

Anonymous said...

...enginn kemur að sjá mig
nema litla músin...

Ástarkveðjur K

Unknown said...

Fín saga kæra systir en viltu henda músabogunum og fá þér músafælu með hátíðnihljóðum sem valda ekki alvarlegum slysum á litlu sætu músunum

Anonymous said...

ení njús of the mús ?

Anonymous said...

Brynja þú ert snillingur, listræn bæði til orðs og æðis! Vona að músin fari í dauðan lifandi í blekkingunni um góðu mömmuna þar sem mér er eiginlega farið að þykja pínu vænt um músa lúsina.

Anonymous said...

Æj, grimma og afvegaleiðandi húsmóðir!
Veiddi einu sinni mús í gildru (var neydd til þess) grenjaði í heilan dag því litla greyið var með mörg börn í maganum og svo bústin að gildran náði ekki að drepa hana, bara lama afturhlutann. Húsvörðurinn sá um rest, sniff.