Tuesday, October 30, 2007

Minning

Ég er svo heppin manneskja, þekki svo marga sem hafa haft góð áhrif á mig með dugnaði sínum og persónuleika. Ég dáist að manneskjum sem láta ekki deigan síga í amstri dagins með reglulegum áföllum sem lífið bíður upp á. Manneskjur sem halda haus, ekki rétt hangandi heldur með stolti. Iðjusemi og einlægni eru dyggðir sem ég dáist að og reyni að temja mér, kryddaðar með góðum skammti af húmor, tryggð, ákveðni og heiðarleika myndar slík blanda góðan einstakling sem lánsemi er að kynnast og jafnvel vera samferða um tíma.

Ég er svo heppin manneskja að hafa þekkt hana Petreu Konráðsdóttur. Kjarnakona sem lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Glæsileg kona sem bar höfuðið hátt og tók mér svo vel þegar ég bættist í vinkonuflóru hennar Ingveldar minnar. Mikið virti ég hana, ljósmóðir og móðir einnar mestu og bestu vinkonu minnar, myndarleg í orði og verki og alltaf svo hugguleg. Þegar við Petrea hittumst í sumar vissum við báðar að það yrði í síðasta sinn. Við deildum svo yndislegri stund þar sem við drukkum heimalagað chaite haldandi í hendur, leyfðum tárum að renna, en hlógum mest og rifjuðum upp minningar, sérstaklega matarminningar. Grillveisla í Helgamagrastræti, kótilettur í raspi í Háalundinum og skúffukaka sem yljaði okkur Ingveldi gjarnan í löngufrímínútunum í Lerkilundinum. Við ræddum um nútíðina, ég sagði henni fréttir af börnum og framtíðarplönum, hún sagði mér frá veikindum sínum og æðruleysi og kjarkur Petreu var aðdáunarverður. Við léttum brúnina með að rifja upp fyrstu kynni hennar af Val, þegar hann mætti galvaskur til hennar klæddur köflóttum hjálpræðishersjakkafötum sem voru keypt með svitalykt og öllu. Við horfðum á upptöku með Hemma Gunn að spjalla við fræga íslendinga, gerðum nett grín af þeim en nutum þess líka að eiga hversdagslega stund saman.

Blessuð sé minning hennar Petreu Konráðsdóttur, takk fyrir allt, öll fallegu hrósin sem þú gafst mér og mínum, tryggðina í gegnum tíðina og áhugann á lífi mínu.

Elsku Ingveldur mín og allir þínir nær og fjær við vottum ykkur samúð okkar, sendum ykkur allar okkar bestu og fallegu hugsanir og þegar við hittumst næst ætla ég að elda kótilettur í raspi og hafa skúffuköku í eftirmat!

7 comments:

Anonymous said...

Takk elsku Brynja mín - já það er tilhlökkunarefni að borða saman og rifja upp góðar stundir. Þakka þér hlýleg orð og góðar hugsanir. Kærar kveðjur til ykkar Vals og krakkanna og þegar við hittumst næst skulum við skála fyrir mömmu og öllu því sem hún kenndi okkur.
Ástarkveðjur, Ingveldur.

Anonymous said...

Eg sendi Ingveldi sem eg hef aldrei hitt minar dypstu samudarkvedjur, kvidi theim degi thegar eg verd modurlaus, man eftir grat födur mins vid kistulagningu modur sinnar, sem do 91 ars, og hann vard modurlaus,
Sendi ther styrk og strauma til ad takast a vid lifid an mömmu thinnar.
Thorgerdur "Tobba" Brynjuvinkona

Lilý said...

Það er dyggð að vera þakklátur á svona stundum. Innileg hugarfaðmlög og kossar til Lundapysjanna minna, Ingveldar og allra hennar :*

Anonymous said...

Yndislega falleg færsla í minningu Petreu og ég sendi Ingveldi og fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur. Eins og Tobba segir hér að ofan er það fyrirkvíðanlegt að missa móður sína og reyndar báða foreldrana, og sennilega er sama hversu gamall maður verður og þroskaður, alltaf verður það jafn sárt.

Unknown said...

Elsku Ingveldur mín.
Ég sendi þér og fjölskyldu þinni mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Megi minningar ykkar verða ykkur styrkur í sorginni.
kær kveðja
Áslaug

Anonymous said...

Brynja mín - ég stelst til að nota bloggið þitt og þakka öllum sýndan hlýhug.
Ég hef í huga orð Spámannsins:
"Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn og þú munt sjá að þú grætur vegna þess sem var gleði þín."
Kærar kveðjur til ykkar allra.

Berglind Rós Magnúsdóttir said...

Elsku Ingveldur, nota bloggið hennar Brynju til að votta þér innilega samúð mína.