Tuesday, December 25, 2007

því þannig á þetta einfaldlega að vera.

Elskulega fólkið okkar, við erum búin að eiga dásamlega friðsæl og afslöppuð jól. Þau eru hefðbundin þó vissulega söknum við matarboða og samveru við fjölskyldu. En samt erum við búin að kúra og njóta þess að eiga tíma saman með allar hversdagsbirgðirnar samanbrotnar í skúffu. Á aðfangadag fórum við í langan göngutúr eftir jólabað og rúmfataskipti (Lilý ef þú lest þetta þá elskum við þig alltaf aðeins meira þegar við notum rúmfötin góðu). Nutum þokunnar og grámans, fórum í þrautakóng og létum öllum illum látum meðan Svíar hámuðu í sig kjötbollur, pylsur og síld. Við brugðum á leik í félagsskap skánskra trjáa sem veifuðu til okkar og glöddust þegar við kveiktum á öðru kertinu sem var með í för, milli þeirra. Það kerti var fyrir fjölskylduna, vinina og heiminn allan og bárum við þeim með vindinum ósk um gleðileg jól. Seinna kertið kveiktum við þegar nær dró heimili okkar en það var fyrir þá sem halda upp á jólin á himninum. Börnin skreyttu kertastæðið með steinum og við áttum góða stund saman. Svo náttúrlega var "kalle anka" á sínum stað. Meðan börnin gláptu á öndina í sjónvarpinu gláptum við Valur sleikjandi út um á öndina í ofninum. Klukkan sex voru herlegheitin snædd og okkur tókst trúið því eður ei að treina borðhaldið í klukkutíma og náðum því að hlusta á jólin hringd inn að íslenskum sið, þetta dásamlega augnablik sem belgir út jólagleðina og kærleikann. Börnin reyndar voru aðeins farin að iða þarna í "skinninnu" og áttu erfitt með að skilja hátíðleika foreldranna og kröfu um algera þögn. En eftir tiltekt og hlustun á messu með hálfu eyra sem aðeins skar í á köflum þegar tónað var voru pakkarnir opnaðir...allamallamá. Takk fyrir okkur þetta var dásamlegt, einkasonurinn fékk þrettán bækur og þegar búinn að lesa tvær, ég kláraði Harðskafi, fljótlesin, fyrirsjáanleg, athyglisverð og ákaflega íslensk, en ég átti góðar stundir með Arnaldi. Dagrún er hæstánægð með ponyhestahúsið sitt og bratzhestinn og Valur lá í sófanum í dag lesandi Réttarhöldin eftir Kafka í nýju strigaskónum sínum.

Vorum að enda við níðþunga hangikjetsveislu með öllu því sem hægt er að bjóða upp á. Vinirnir okkar og fjölskylda hér í Sverige, Tobba, Sveinbjörn og fylgisfiskar tóku þátt í því með okkur. Lastartréð er fullt í kvöld, skreytt með ofáti, leti, syfju og sjónvarpsglápi en það er engin sem skammast sín, því þannig á þetta einfaldlega að vera.













ps: takk fyrir öll jólakortin, við elskum það að fá jólakort, smjöttum á hverju orði og lesum kveðjurnar aftur og aftur, það nefnilega færir okkur örlítið nær ykkur öllum.

Friday, December 21, 2007

Jóladúllurassabossaknús


Máttlaus frammistaða mín í tölfræðistússi dagsins má algjörlega skrifa á jólaskapið sem fyllir hjarta mitt þessa stundina. Yfivofandi próf, verkefnaskil og annað orkukrefjandi, er lagt snyrtilega samanbrotið í skúffu. Þar er hægt að geyma ósómann en líka yfirvofandi fögnuð þegar skúffann verður tæmd og fyllt á ný með áætlaðri og að sjálfssögðu tölfræðilegri marktækri glimmrandi frammistöðu múhahha.

Gleðileg jól allt mitt fallega fólk, njótið vel og megi árið 2008 verða ár heilbrigðis og hamingju.

Jóladúllurassabossaknús
Brynja og fylgifiskar

ps: Ég fékk svo fallega jólakveðju áðan frá rúmenskri vinkonu minni, ég ætla bara að láta flæða upp úr skálinni "uppfull af sjálfri mér" og deila henni með ykkur.

Dear Brynja,

It was (is) indeed a great thing to meet you and i am feeling very honored to have such a motivated, intelligent and creative person next to me. I do believe that our meeting was not accidental and we have a lot to learn form each other. I am feeling like I am not forgotten here in a foreign country and God is taking care of me. I know that when I will feel alone I just have to call or to think about you and I will not be alone anymore. Whenever u need me please just give a call and I will be there for you.:)) What can I wish you? I wish you very very Happy Christmas for you and for your family. And looking forward to spending some time with you and your family.

Tuesday, December 18, 2007

trú von og kærleikur, hamsleysi og jóladívur

slurp, rop, kjamms, jáhá ég er ekki ólétt ó nei en stend mig að því að taka upp á gömlum ósiðum sem minna mig á óléttutímabilin í lífi mínu. Smákökur, sætabrauð og kakó á diskinn minn helst í öll mál, þarf að deila þessu með ykkur. Líklega máttlaus tilraun til að létta af samviskunni en hún er bara svo lítið að bjaga mig, nýt þessa hamsleysis meðan er og tek upp sportskóna þegar þorrinn gengur í garð ...ætla að baka kærleikskökur í kvöld, nafn sem sonur minn fann upp á en við setjum lítið sykurhjarta á hverja súkkulaðikærleiksköku og njótum þessvegna enn frekar að kjammsa á slíku guðafæði.

Ég dett inn í jólaskap, hlusta á jóladívurnar mínar, Carolu, Celin Dion og Maríu carey, (já ég er dívukona á jólunum og hananú og bannað að gera grín af mér) baka og skreyti á milli þess sem ég:
a. geri drög að rannsókn á Skáni um offitu og lífstíl barna og foreldra þeirra
b. Reyti hár mitt og sýni viðleitni að skilja og nota faraldsfræðilega tölfræði
c. Hanna úrræði fyrir yfirgefin börn í Rúmeníu, nánar tiltekið í borginni Galati
d. Tekst á við lífið og tilveruna með bjartsýni
e. Fræðist um heimsástandið í heilbrigðismálum og hvað heimurinn getur verið ljótur og góður í senn.

Niðurstaða: Jólin koma hvað sem öllu líður og leiðarljós mín eru trú von og kærleikur.

Trú, von og kærleikur til ykkar allra
Brynja

Sunday, December 16, 2007

engill að syngja?


Dagrún spurði mig í morgun hvort það væri engill að syngja, svarið var nei það var bara Carola að syngja jólalög. Carola er frekar leiðinleg en syngur eins og engill. Já það er víst ábyggilegt og nýi jóladiskurinn hennar sem tekinn var upp í Betlehem, með miðausturlenskum blæ, vermir og minnir á af hverju við höldum jól. Og eftir daginn í dag, laufabrauðsútskurð og steikingu, rauðkáls- og brúnkálsframleiðslu, þá getum við sest niður og rifjað það upp hakkandi í okkur smákökur, drekkandi maltið og appelssínið og dreymandi um væna hangikjötsflís á diskinn sinn.

Jólknús frá Brynju

Signalvägen 20, där som rumpnissarna bor
226 51 Lund
Sverige

Tuesday, December 11, 2007

Vandað sig við líðandi stund

Við áttum yndislega helgi í ljúfu Eyrarbrú. Hittum vini og húlluðum eftir því en allt á rólegu nótunum. Böðuðum í Nora vatni, þeas Valur, við hin létum okkur nægja gufuna, nutum stillu og stjörnubjarts himins, spiluðum spil, borðuðum góðan mat, fórum í göngutúra í fallegri náttúru, fórum á jólamarkað en nutum fyrst og fremst vináttunnar sem lá í loftinu. Á leiðinni heim til Lundar þá vorum við minnt áþreifanlega á hvað allt getur snúist á augnabliki. Vorum næstum búin að velta bílnum í rigningunni og myrkrinu, keyrðum í nokkrar sekúndur á annarri hliðinni, aðeins tveim hjólum og annað framhjólið hvellsprakk. Allt fór vel og við þökkum æðri máttarvöldum og verndarenglum að hér erum við öll lítilsháttar skelkuð en fyrst og fremst full þakklætis og meðvituð um það sem skiptir mestu máli í heiminum, þ.e.a.s. hvert annað. Hversdagsleg vandamál eins og jólastress, prófkvíði og tímaskortur þurrkast út og eftir situr viljinn til að vanda sig við líðandi stund.

Thursday, December 06, 2007

Ljuva, sköna Örebro!

Erum að ferðbúast, keyrum í kvöld til "ljuva, sköna Örebro". Hlökkum til að hitta alla vinina okkar þar enda hálft ár síðan við knúsuðum þá þarna uppi frá, *dæs* já eins og í gær en samt svo langt síðan. Eigið nú öll góða helgi og farið vel með ykkur og njótið alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða! Segið kvíðanum að fara, hann sé ekki velkominn, bjóðið þakklætinu inn og nærið það. Hvíslið að því, klappið því svo það vaxi og dafni og taki yfir tilfinningar sem trufla. Stundum er hægt að kaupa gleði í poka en best er þegar hún býr innra með manni.

Bangsaknús frá Brynju á mjúku nótunum.

Monday, December 03, 2007

Kleinachten 2007


Ég er farin að kalla námið mitt tveggja ára hausverk vegna annríkis, ekki misskilja mig mér finnst þetta frábært nám en hafði fram að byrjun þess lifað í einfaldri hugsun um að ég myndi rúlla þessu upp með iðjusemi. Hana vantar svo sem ekki en tíma vantar því ég lofaði mér að fjölskyldan, vinirnir og ég sjálf myndu fá sinn skerf. Viðurkenni reyndar að leikfimistímum hefur eitthvað fækkað, bloggfærslum hefur fækkað og iðjusemi á msn er til skammar. En ég er sátt við að gefa börnunum tíma minn, vinum mínum og eiginmanni án þess nefnilega hefði ég ekki orku umfram til að lesa "public health".
Við áttum Yndislega ferð til Prag sem þið fáið að heyra seinna um, bið ykkur samt að taka eftir kristalljósakrónunni á myndunum. Yndislegir vinir voru í heimsókn um helgina Rósa og Marvan frá París. Við sleiktum út um og nutum þess að borða með þeim foi gras og rofja upp Egyptlaland og styrkja vináttuböndin með samveru. Vel heppnuð litlu jól voru haldin þeim til heiðurs með unaðslegu íslensku lambi á la cusine de mamma og egypskur réttur var í forrétt, á la Rosa et Marvan, kartöflur á la mamma de Tobba og dessert de la Tobba et Fredrik, unaður sem entist langt fram eftir nóttu. Já þetta tókst vel þó hafi vantað Frosta heiðurgest undanfarinna ára og fleiri vini sem komust ekki vegna óhentugrar landlegu og annarra ástæðna. Já þetta er dýrmæt tilvera sem maður lifir í og óumræðanlega mikilvægt að lita hana rauða endrum og eins.

ps:Vona að þið komið sem flest að ári and Mihaela we missed you, promise me to come next time!