Monday, March 31, 2008

Jón frá Felli

Hér var frost fyrir viku, í dag var 16 stiga hiti, nú er vorið komið og krókusarnir eru að sperra sig upp úr flensunni sem kuldinn olli. Í þessum skrifuðum orðum átta ég á mig á dapurleika þeirra, ég meina að tala um veðrið. Oh jæja alltaf góður inngangur inn í samræður eða samræði eins og sumir vilja orða það (þetta var spark undir beltisstað til íslenskuþekkingar sumra, taki sá til sín sem skilur) Annars eins og þið vitið er ég góð í því að skúra gólf, kem víða við í þeim hæfileikum en skemmtilegasta kommentið sem ég fékk eftir heilsukynninguna mína tja fyrir utan "you should run for the president with that speech" var "Brynja you just wiped the floor" Sem sé mér gekk rosalega vel og skoraði hátt hjá fulltrúa samkiptadeildarinnar í Helsingborg. En þetta var egótripp og merkilegt hversu mikið vald hægt er að hafa yfir áhorfendahópi þegar vandað er til verksins. Er í fyrirlestarlotu núna og einhverra hluta vegna er ég að blogga í staðin fyrir að fara snemma að sofa eins og ég lofaði mér í morgun. Rís úr rekkju 6 og kem heim seint stútfull af tesulli skólans og misgóðum fyrirlestrum og hópavinnu. En þetta er gaman tja svo lengi sem bekkjarsystkini mín taka hlutina ekki of alvarlega. Ég get stundum ekki annað en klórað mér í hausnum hvað þau eru alvarleg og allt þarf að vera svo útanalýserað að það dregur úr trúverðugleika, þetta dæmigerða að sjá ekki skóginn fyrir trjánum eða var það öfugt hahaaa, en allavega stundum er sænska of...anal...ýseringin tekin á þetta og þá verð ég þreytt.
En ojæja framundan er "social event" afsakið en hvernig er hægt að kalla bara venjulegt partý svona anal...ýseruðu nafni? Hlakka til að taka arabíska takta með Alex vini mínum sem spurði mig feiminn um daginn hvort hann mætti koma við hárið á mér, alltso höfuðhár, honum finnst þetta ljóshærða hreiður merkilegt fyrirbæri sem er svo sem ekki skrýtið í ljósi þess að hann er með kúst á hausnum. Já svo hlakka ég til að segja groddaralega íslenska brandara bara til að hneyksla og stinga upp í mig bita af hákarli um leið og súpa vel á brennivíninu....ok já já lýg hér blákalt, mun auðvitað stinga upp í mig dömulegum konfektmola og dreypa feimnislega og bljúg á kampavíni... nei heyrðu mig, nú er ég farin að fara offari í punktum, bara fyrir þig Lilý og vitleysisgangi, bæti bara við: "og hestar stökkva út um allt", taki þeir til sín sem skilja sérstaklega Noregsbúar í Stavangri já jú eitt að lokum, Jón frá Felli biður að heilsa


ps: og ólí geit
ps2: Ég hljóp aftur 7 km í dag, hlustaði á David Bowie, James Morrison, Cornelius vresvijk sem líklega útskýrir bulluna sem ég er haldin rétt fyrir svefninn, góða nótt
Dreymi þig vel og guð blessi þig og hananú

Tuesday, March 25, 2008

Er boðið upp á bingedrink hér?

Hér er ég vel haldin af súkkulaði helgarinnar en líka sátt við 7 kílómetrana sem ég var að hlaupa til að viðra mig með sólinni. Loksins komin af stað í hlaupin aftur og verð sérstaklega að þakka Ástu fyrir hvatninguna. Annars er ég ekki bara að blogga til að monta mig á því að hafa hlaupið í dag. Ég verð bara að viðurkenna að bloggheimurinn er hluti af félagslífi mínu og ég saknaði ykkar. En annars er ég sátt við gott gengi í prófi dagsins, á morgun held ég fyrirlestur og kynni heilsueflinguna, hlakka bara til enda vel undirbúin. Þetta verður svona alvöru og fjölmiðlar hafa sýnt þessu áhuga, kannski fæ ég mynd af mér í aftonbladet *blikk blikk* Hitti tannlækninn minn frá Pakistan sem tilkynnti mér það hátiðlega að hann stefndi á það að vinna með mér í framtíðinni, ég tók grunnt í það og sagði að það væri borin von, með honum ynni ég ekki aftur. Ég komst að þrennu um hann í dag. Fyrst að hann hafði aldrei lesið verkefnið "okkar", annað að hann fór á bar um daginn og spurði hvort boðið væri upp á "binge drink" hann langaði altso að komast að því hvaða drykkur þetta væri sem íslenskir krakkar væru að drekka og að lokum að hann er á skilorði í náminu því það er verið að rannsaka hugsanlegan ritstuld hans og svindl í prófi. Niðurstaðan er einföld, samstarfi okkar lýkur á morgun punktur og basta, hvað svo sem þetta basta þýðir.


Annars hlakka ég til að koma heim í júní og hitta ykkur gengið mitt nær og fjær, vona að þið verðið flest fyrir norðan svo ég nái að smella einum á smettið ykkar og telja hrukkurnar sem hafa bæst við hjá ykkur síðan síðast en fyrst og fremst hlakka ég til að ná góðum tíma með vinum og fjölskyldu. Nýjasta tómstundaiðja mín er að skoða fasteignir á netinu og vona að hinar og þessar verði enn til sölu eftir x mörg ár, líklegast þó ekkert of mörg sko. Hörður Breki tilkynnti mér það hátíðlega í gær að hann vill ekki flytja aftur til Íslands og mér fannst það bara helvíti hart, undarlega tvískiptar tilfinningar sem fylgja svona yfirlýsingu. Á annað borð er maður ánægður með að barnið þrífist hér en hinsvegar vill maður ekki að íslenska sálin dofni. Það er tvennt sem gerðist í vikunni sem bendir til að sænski hlutinn nær annaðslagið yfirhöndinni hjá stráksa. Hörður Breki bannar mér að versla í H og M þar sem fátæk börn saumi fötin og bendir systur sinni á að skrúfa fyrir vatnið meðan hún tannburstar sig til að spara dýrmæta orku og vatn. Hmm að vísu þegar ég skrifa þessi orð finnst mér alveg eins líklegt að þetta séu skilaboð runnin undan námi móðurinnar. Blessuð börnin eru orðin þreytt á mér og bókalestri, spyrja hvort ég þurfi nokkuð að lesa svona mikið næsta vetur og sjá mig í hillingum skella öðru hvoru í pönnukökur fyrir þau. Aldrei að vita en allavega er indælt að eftir tvö mánuði er ég formlega hálfnuð með þennan róður.
Bless í bili elskurnar, takk fyrir að vera duleg að kommenta það gefur félagslífi mínu aukið og betra gildi.

Friday, March 14, 2008

Með eina græna baun í maganum

þetta byrjaði með einni skeið á kaffihúsi bókasafnsins, "kan du vara så snäll och låna mig en tesked" sagði ég bljúg og rosalega sæt. Kallinnn klóraði sér í neyðarlegan skallann sem var yfirgreiddur með nákvæmlega þremur hárum. "nej, det kan jag inte, du måste köpa något" svarði hann púkalega með áberandi hreim, horfði stíft á mig og sleikti á sér þunnar varinnar. Ég mændi á hann, "ég er ekkert að fara að borða salatið mitt hér inn á kaffihúsinu, veit alveg að það er bannað en ég gleymdi gaffli, er svöng, ég lofa að skila skeiðinni enda ætla ég bara að fara fram þar sem maður má borða nestið sitt" sagði ég, ég skal kaupa kaffi þegar ég er búin að borða ....en til að gera langa sögu stutta þá lánaði hann mér ekki skeið helvítið, ég strunsaði í burtu, hnussandi og tautandi um mismunun því eina sem er í boði á bókasafnskaffinu eru þurrar rjómabollur, gamlir snúðar og brauð með sveittum osti og ryðgaðri papriku sem man fífil sinn fegurri sem ég kæri mig ekki um að éta. Nú þar sem tími minn er dýrmætur þessa dagana, en ég er að lesa fyrir miðannapróf, undirbúa eina sókn, eina vörn og framundan er tveggja vikna fyrirlestrarlota þá át ég helvítis salatið með skærum, sem ég fann í pennaveskinu mínu, já já þið getið ímyndað ykkur hvernig það gekk að ná upp litlu grænu baununum, en salatið lenti allavega á réttum stað og ég náði að hesthúsa nokkrum blaðsíðum um cross cultural communication í leiðinni. Þegar ég kom heim með sirka eina græna baun í maganum fékk ég þær frábæru fréttir að aðalbókin sem ég kann utan að, verður ekki til prófs en hinsvegar bækurnar sem ég ætlaði ekki að lesa væru mikilvægar, ojbara ullabjakk pjakk. Sko hvusslags logandi endemis seinasinahægahægðaniðurganggangur að drulla því út úr sér, nokkrum dögum fyrir próf. Svo sem gott að kunna þennan doðrant en hellóóó, kannski allt í lagi að vera samkvæmur í skilaboðum og það í kúrsi sem einmitt kennir mikilvægi skýrra skilaboða. Nú jæja 2 aðrir póstar voru frá prófessornum, þannig hann hlaut að vera að leiðrétta eitthvað málið í þeim, en neiiiii, nei, nei, bara að láta vita að plakatstærðin sem var gefin upp var vitlaus og við þyrftum sem sé að breyta plakötunum í aðra stærð hahahaha, frábært, nú jæja síðasti pósturinn,von, en hahahaarg nei þar var hann bara að segja að verkefnið mitt væri áreiðanlega mjög vel gert en hann gæti ekki gefið mér feedback fyrir skiladag sem er á mánudaginn af því að hann hefði svo mikið að gera. Þá var mér allri lokið og þrátt fyrir súkkulaði þá lægði ekki pirringinn, ég skrifaði kvörtunarbréf, sendi það og hananú án þess að lesa yfir og sé enn ekki eftir því. Ég meina gæði námsins eru í húfi finnst mér bara, þoli ekki hræsni, mont um að bara úrvalsnemendur komist að í þetta og svo er maður látinn sitja á hakanum. Nei takk pent, hér er ég eyðandi öllum mínum tíma í þetta þannig ég kemst varla á klósettið og þarf að skipuleggja bíóferðir með vinkonum mínum 2 vikur fram í tímann, þetta er ekki grín. Og svo var Valli að stríða mér, nudda puttanum undir nefið á mér og segja ojojojojojooj á sænsku. Hrmpff. En jæja, Tom Waits er að syngja fyrir mig, það er rauðvín í glasinu mínu, gólfin eru hrein og Vallitrallinn minn er að elda ítalska grænmetissúpu. En já hér verður sem sé ekki bloggað í einhvern tíma heldur lesið á sig með gaffli en ekki skærum. Heyri líklega í ykkur eftir 8 apríl eða eitthvað nema ég þurfi að pústa eða bara lumma á góðri sögu og aukamínútum.

Brynja í vondu skapi fyrir prófin



Brynja í góðu skapi eftir prófin

Sunday, March 09, 2008

plakat



Búin að liggja yfir plakatgerðinni um helgina ásamt tengdasyninum sem hefur séð um tæknilegu hliðina, elsku drengurinn, tack söte André. Er sátt við útkomuna og vona að verkefnið okkar Farhans (fær að vera með á blaði af því ég vorkenni honum en ætla aldrei aftur að "vinna" með honum aftur, er búin með mína plikt) verði samþykkt af ímyndaðri stjórn Akureyrabæjar. En plakatið er sem sé gert til að höfða til þeirra. Hver mynd af unglingi, þar af ein af fósturdótturinni og ein af tengdasyninum, er dæmi um eitt af tíu plakötum ráðgerð fyrir heilsueflinguna. Ég á líklega eftir að fínpússa það eitthvað ef ég tími tíma á það en er annars ánægð með útkomuna.Klikkið á myndina til að sjá allt plakatið, tja sko ef þið hafið áhuga. Endinlega sendið mér komment ef þið sjáið leiðindarpúkavillur þarna!

Vona að plakatið skiljist án þess að setja ykkur eitthvað dýpra inn í heilsueflinguna, jú eitt að lokum hér er myndir sem Farhan lagði til að yrðu notaðar í plakatið. nei þetta er ekki djók, elsku aumingja kallinn.


Tuesday, March 04, 2008

í náttúrulífsmynd eftir Attenbourogh

Ég vildi ég gæti sagt að ég hefði verið íklædd fallega þröngum svörtum nike, ermalausum bol, með bleikri rönd á hliðinni og jafn fallega aðskornum buxum, sem og glansandi nýjum íþróttaskóm. Get ekki sagt það þar sem ég var í gömlum joggingbuxum, mátulega þægilega teygðum bómullarbol, sem ég man ekki hvernig var á litinn og í áberandi neyðarlegum sokkum af sitthvoru taginu í nýju ræktinni í dag. Ég ákvað að nýta tíma minn vel og smygla mér í ræktina við hliðina á salnum þar sem frumburðurinn æfir júdó, ákvað líka að láta það ekki trufla mig neitt að hafa aldrei séð konu þarna. Gekk inn með svip þanns sem þykist hafa átt heima þarna í 100 ár. En allt í einu var ég stödd í náttúrulífsmynd eftir Attenbourogh. Innkoma mín á líkamsræktarstöð þar sem konur æfa ekki kom af stað röð atburða sem þarf að segja upphátt frá. Ég tók vel á, lyfti nokkuð pent miðað við marga þarna en tókst alveg að þurfa gretta mig svolítið. Augngotur til mín voru áberandi margar og ég lét sem ekkert væri, horfði bara á fasta punktinn í veggnum og slökkti augnráðin í fæðingu. Ég var greinilega farin að pissa í horn annarra og kynferði mitt ruglaði þessa menn í ríminu. Þeir horfðu á hvern annan, litu aftur frekar aumingjalega á mig en kunnu einhverra hluta vegna ekki við að pissa aftur í hornin sín með áberandi hætti allavega. Þá byrjaði það. Sá fyrsti sá sig knúinn til að fara úr að ofan, nokkuð stæltur, óneitanlega hvítur kroppur kom í ljós, hárlaus með öllu. Viðkomandi þandi sig og gekk fram hjá mér og fór í púðurtunnunna þarna og skellti góðum slurki á bringuna á sér. Ég gat ekki annað en undrast þá tilburði því svo fór sá hinn sami og gerði nokkrar armbeygjur. Nytsemi púðursins var ekki ljós nema þá kannski það sé vítamín sem efli hárvöxt. Ég fór í næstu æfingu og lét sem ég sæi ekki þessa leiksýningu. Þá fór sveitti gaurinn á hlaupabandinu úr að ofan og þeytti bolnum sínum út á gólfið og másaði lítið karmannlega. Við þetta birtist mannkríli með lítinn bleikann kúlumaga og að því er virðist djúpasta nafla sem ég hef séð. Svo djúpann að ef ég hefði átt mótorhjól og týnt því þá hefði ég örugglega leitað af því þar. Athygli mín var vakin að sjálfssögðu en ég hélt mínu striki, tók góða magaæfingasyrpu, þakklát því að finna enn fyrir þeim vöðvum. En þetta var ekki búið. Testasterónblandað loftið, opinberun og augljós samkeppni karlanna þarna komu vöðvabúntinu af stað. Sköllóttur, rauður í framan dró hann af sér bolinn og gerði það svo vel að hann náði að hnykla vöðvana um leið svo mærin á vinsti upphandlegg dansaði fallega húlladans, hann fór beint í púðurtunnunna henti nokkrum lúkum yfir bakið á sér svo erninum fljúgandi sem skreytti það lá greinilega við köfnun. Hann gerði sér ferð fram hjá mér og þurfti að hnykla vöðvana voðalega mikið við það eitt að ganga rólega fram hjá mér meðan ég gerði nokkrar meinlausar kálfalyftur. Mér brást sjálfstjórnin og gaf frá mér lítið eitt más, ekki vegna hrifningar minnar heldur vegna þess að ég setti 10 kílóum of mikið á tækið. Másið hinsvegar gerði það verkum að viðkomandi þurfti að beygja sig niður og hnýta skóreimarnar og gumpurinn blasti við mér stæltur og nokkuð fagurlagaður, svitabletturinn í klofinu var svo sem ekki til fegrunarauka. Nú var bara ein æfing eftir, ég var nokkuð viss um að vera mín þarna væri orðin nokkuð náttúruleg og að flestir væru búnir að aðlagast nýjum aðstæðum. En lokahnykkurinn var eftir. Bekkpressugaurinn, nokkuð vel hærður en þó töluvert misdreift. Þetta veit ég því jújú hann var kominn úr bolnum og púðraði sig svo vel á hárlausu staðina að tilgáta mín um hárvítamín púður fékkst nánast staðfest. Þessi sýndi þó nokkra forsjálni og púðraði vel á sér lófana svo augljóst var að viðkomandi hefur enn ekki lært náttúrulegu aðferðina við að verða loðinn í lófunum. En glæsileikinn var engin, svo mikil þyngsli tók hann að stunur og rembingur fyllti salinn, en þetta tókst í fyrstu tvö skiptin, stoltur leit hann á mig þessu augnráði sem þráir viðurkenningu en mér tókst að láta líta svo úr að ég hefði sérstakan áhuga á plakatinu af vörubílnum á veggnum, hann var rauður, altso vörubíllinn. En ojæja ég var sátt, þreytt í lærum og gumpi af áreynslu við að vera eina kvenndýrið, ákvað að fylgjast ekki með þriðju tilrauninni í bekkpressunni og færði mig yfir í öllu jafnvægisfyllra umhverfi þar sem börn skemmtu sér við að fella mann og annan.