Tuesday, March 04, 2008

í náttúrulífsmynd eftir Attenbourogh

Ég vildi ég gæti sagt að ég hefði verið íklædd fallega þröngum svörtum nike, ermalausum bol, með bleikri rönd á hliðinni og jafn fallega aðskornum buxum, sem og glansandi nýjum íþróttaskóm. Get ekki sagt það þar sem ég var í gömlum joggingbuxum, mátulega þægilega teygðum bómullarbol, sem ég man ekki hvernig var á litinn og í áberandi neyðarlegum sokkum af sitthvoru taginu í nýju ræktinni í dag. Ég ákvað að nýta tíma minn vel og smygla mér í ræktina við hliðina á salnum þar sem frumburðurinn æfir júdó, ákvað líka að láta það ekki trufla mig neitt að hafa aldrei séð konu þarna. Gekk inn með svip þanns sem þykist hafa átt heima þarna í 100 ár. En allt í einu var ég stödd í náttúrulífsmynd eftir Attenbourogh. Innkoma mín á líkamsræktarstöð þar sem konur æfa ekki kom af stað röð atburða sem þarf að segja upphátt frá. Ég tók vel á, lyfti nokkuð pent miðað við marga þarna en tókst alveg að þurfa gretta mig svolítið. Augngotur til mín voru áberandi margar og ég lét sem ekkert væri, horfði bara á fasta punktinn í veggnum og slökkti augnráðin í fæðingu. Ég var greinilega farin að pissa í horn annarra og kynferði mitt ruglaði þessa menn í ríminu. Þeir horfðu á hvern annan, litu aftur frekar aumingjalega á mig en kunnu einhverra hluta vegna ekki við að pissa aftur í hornin sín með áberandi hætti allavega. Þá byrjaði það. Sá fyrsti sá sig knúinn til að fara úr að ofan, nokkuð stæltur, óneitanlega hvítur kroppur kom í ljós, hárlaus með öllu. Viðkomandi þandi sig og gekk fram hjá mér og fór í púðurtunnunna þarna og skellti góðum slurki á bringuna á sér. Ég gat ekki annað en undrast þá tilburði því svo fór sá hinn sami og gerði nokkrar armbeygjur. Nytsemi púðursins var ekki ljós nema þá kannski það sé vítamín sem efli hárvöxt. Ég fór í næstu æfingu og lét sem ég sæi ekki þessa leiksýningu. Þá fór sveitti gaurinn á hlaupabandinu úr að ofan og þeytti bolnum sínum út á gólfið og másaði lítið karmannlega. Við þetta birtist mannkríli með lítinn bleikann kúlumaga og að því er virðist djúpasta nafla sem ég hef séð. Svo djúpann að ef ég hefði átt mótorhjól og týnt því þá hefði ég örugglega leitað af því þar. Athygli mín var vakin að sjálfssögðu en ég hélt mínu striki, tók góða magaæfingasyrpu, þakklát því að finna enn fyrir þeim vöðvum. En þetta var ekki búið. Testasterónblandað loftið, opinberun og augljós samkeppni karlanna þarna komu vöðvabúntinu af stað. Sköllóttur, rauður í framan dró hann af sér bolinn og gerði það svo vel að hann náði að hnykla vöðvana um leið svo mærin á vinsti upphandlegg dansaði fallega húlladans, hann fór beint í púðurtunnunna henti nokkrum lúkum yfir bakið á sér svo erninum fljúgandi sem skreytti það lá greinilega við köfnun. Hann gerði sér ferð fram hjá mér og þurfti að hnykla vöðvana voðalega mikið við það eitt að ganga rólega fram hjá mér meðan ég gerði nokkrar meinlausar kálfalyftur. Mér brást sjálfstjórnin og gaf frá mér lítið eitt más, ekki vegna hrifningar minnar heldur vegna þess að ég setti 10 kílóum of mikið á tækið. Másið hinsvegar gerði það verkum að viðkomandi þurfti að beygja sig niður og hnýta skóreimarnar og gumpurinn blasti við mér stæltur og nokkuð fagurlagaður, svitabletturinn í klofinu var svo sem ekki til fegrunarauka. Nú var bara ein æfing eftir, ég var nokkuð viss um að vera mín þarna væri orðin nokkuð náttúruleg og að flestir væru búnir að aðlagast nýjum aðstæðum. En lokahnykkurinn var eftir. Bekkpressugaurinn, nokkuð vel hærður en þó töluvert misdreift. Þetta veit ég því jújú hann var kominn úr bolnum og púðraði sig svo vel á hárlausu staðina að tilgáta mín um hárvítamín púður fékkst nánast staðfest. Þessi sýndi þó nokkra forsjálni og púðraði vel á sér lófana svo augljóst var að viðkomandi hefur enn ekki lært náttúrulegu aðferðina við að verða loðinn í lófunum. En glæsileikinn var engin, svo mikil þyngsli tók hann að stunur og rembingur fyllti salinn, en þetta tókst í fyrstu tvö skiptin, stoltur leit hann á mig þessu augnráði sem þráir viðurkenningu en mér tókst að láta líta svo úr að ég hefði sérstakan áhuga á plakatinu af vörubílnum á veggnum, hann var rauður, altso vörubíllinn. En ojæja ég var sátt, þreytt í lærum og gumpi af áreynslu við að vera eina kvenndýrið, ákvað að fylgjast ekki með þriðju tilrauninni í bekkpressunni og færði mig yfir í öllu jafnvægisfyllra umhverfi þar sem börn skemmtu sér við að fella mann og annan.

17 comments:

Anonymous said...

...og hún hló og hló.
Skemmti mér konunglega við þennan lestur elsku systir. hefði viljað vera lítil fluga á vegg nú eða bara á hlaupabrettinu!
Þessar elskur. Er þig ekki farið að hlakka til að mæta í næsta tíma... í nýja Nike gallanum.
elska þig
Áslaug

Anonymous said...

Mér sýnist sem sumir hafi villst inn á sett þar sem verið var að taka upp hómó-erótíska kvikmynd, getur það verið?

Anonymous said...

Dásamlegar lýsingar af bolasviptingum og púðurskvettum... varð snögglega svona rosalega heitt í salnum haha ha haaa
- Kv, Ingveldur

imyndum said...

Mun betri lestur með morgunteinu en mbl.is, óborganlegar lýsingar.

Sakna þín kæra vinkona
Kossar
Rósa

P.s. gengur hægt, hægar en planið var, enn sú vitleisa að skrifa þessa ritgerð á frönsku! En ég held áfram, fer vonandi að heyrast reglulegar frá mér með vorinu

Anonymous said...

Hahaha.... hefði nú verið að gaman að fylgjast með þessu ! Þetta er náttúrulega bar aógeðslega fyndið að sjá svona vöðvahlunka sýna sig fyrir sætu stelpunni...

Þetta minnti mig á þegar ég var svona 14-15 ára og dreif mig í ræktina... einvherra hluta vegna fór ég í vitlausan sal... fannst tíminn sem ég var í frekar spes en spáði svosem ekkert í það neitt mikið...en þarna voru konur á öllum aldri og líka gamall kennari minn. Svo þegar leið á tímann fannst mér undarlegt hvað allir horfðu á mig með bros-meðaumkunarsvip og augnaráð þeirra sagði "þetta verður allt í lagi".
Skýringin kom litlu síðar þegar fyrrum kennari minn úr 5 bekk kom til mín og sagði hva bara mætt í leikfimi ? já já sagði ég... hún varð hálf vandræðaleg og spurði aftur og já já sagði ég... H+un varð skrýtnari á svipinn....roðnaði lítillega og svo kom það !
Áttu von á þér ? sagði hún.

ég var semsagt mætt í óléttuleikfimi með gamla kennaranum mínum og var sko alls ekkert ólétt né leit út fyrir að vera það. Ég passaði framvegis að vita í hvaða sal ég ætti að mæta!

Annars varð ég líka glöð við lesturinn og vil biðja þig að fara aftur og bjóða djúpnaflamanninum að ganga í félagið mitt.
Félag djúpneflinga !

Kveðja
Edda forseti djúpneflingafélagsins

Thordisa said...

Dásamleg lesning haha og engin nema þú hefðir það sjálfstraust að halda áfram að lyfta eins og ekkert væri haha mikið sakna ég þín

Anonymous said...

Hahahahah greyjin, þeir hafa sjálfsagt bara fundið fyrir svona mikilli minnimáttarkennd

Anonymous said...

Frábær stund sem þú hefur átt þarna, karlaumingjarnir hafa aldrei komið eins þreyttir heim... Þú gerir útaf við þá ef þú mætir aftur ha ha !Takk fyrir komment, bestu kveðjur af brekkunni við fjörðinn. Kv affí

Lilý said...

hahahahaha vá hvað ég hló mikið!

Anonymous said...

Minnir mig a manneskju sem heitir Helga Kristin og er svaefingalaeknir a Akureyri og idolid mitt, su sem vigtadi mig og Girish einu sinni i viku i atakinu okkar og ekki lettist Girish og ekki lettist eg, linan okkar var alltaf jafn bein og falleg( sem sagt vigtin) en thessi kona tok 159 kg i bekkpressu ( skilst ad thad heiti svo a fagmali)
audvitad girnast allir karlmenn thig Brynja min, thu ert ein su mesta kona sem eg thekki, skurar vel, bakar vel, eldar vel,kyssir vel, puntar vel, malar vel og bakar palestinumenn i plakötum vel.
og their hafa natturlega bara gert thad sem stodhestar gera thegar their sja flotta meri,
fengid standpinu daudans vid ad sja thig pumpa

tvennt er i stödunni
fyllast vidbjodi yfir thvi ad karlmenn hugsi bara um eitt og haetta ad fara i raektina

halda afram og lata eins og thu sjair ekki innanpikubleikarfitubollubumbur og sveitta sviana med pytti panna andfyluna sina og

halda afram

lifdu heil min kaera

thin Tobba

Anonymous said...

hmmmmmmm
Kom hér við fyrr í dag og las. Finn núna að ég er með ónotatilfinningu í maganum, held að hún gæti kallast "strengir/harðsperrur" og eigi upptök sín vegna viðbragða minna við lesturinn í dag (tröllahlátur og bakföll a la ómar ragnarson). Ég - ólíkt þér, vissi ekki að ég væri með magavöðva, hef aldrei fundið fyrir þeim og hvað þá þessari tilfinningu sem er að angra mig þarna inní mér núna. En -þessi lesning gæti hins vegar hugsanlega orðið til þess að í einhverri ekkert svo rosalega fjarlægri framtíð, mun ég stíga í fyrsta sinn inn í líkamsræktarstöð og þá eingöngu til að skemmta mér.En þetta er þó skrifað "upphátt" með þeim fyrirvara að magaverkir dagsins vari ekki of lengi, ég get ekki reynt um of á sjálfa mig, svona líkamlega allavega.
Systa, sem fékk blómvönd 17. júní 1992 fyrir einstakan árangur í íþróttum í MA.

Berglind Rós Magnúsdóttir said...

Brynja þú ættir að birta þennan pistil í einhverju íþróttablaðanna. Dásamleg lýsing. Svo er auðvitað aðal afrekið ef þú kemur Systu til að fara í ræktina. Hver vill svosem missa af svona momentum. Ég er sátt með Fjölni, Jóa Fel og Þorgrím Þráinsson í Laugum sem þjóðnýta alla spegla í salnum - missa ekki úr augnablik til að horfast í augu við sjálfa sig - nema þá til að horfast í augu við (misáhugasama) aðdáendur.

brynjalilla said...

hahhaa takk fyrir öll kommentin, djúpneflingar, aðrir og væntanlegir afreksmenn í ræktinni lesist: Systa. Það er svo gaman að fá komment, keep on trucking og Tobban mín lilla held að þú ættir að koma næst með, þá verður allt vitlaust you naughty girl:)

Anonymous said...

Vá, þetta er æði! Dásamlegar lýsingar, dýrlega skemmtilegar. Áfram Brynja. Kv. frá Stefáni í MA, þjáningarbróður í ræktinni.

Anonymous said...

Stórkoslegt blogg Brynja :) Það komu myndbrot þegar ég las textann :) hahaha
Þú ert alveg ótrúlega góður penni :)
Knús til þín og kveðja frá Íslandinu góða
Guðbjörg Harpa

Fnatur said...

Mér er illt í maganum af hlátri. Þessi frásögn fer í smásögubókina þína. Ég er alveg á því að sú bók á eftir að koma út.
Hrein snilld kæra vinkona.

Bromley said...

Ég held bara að þessi frásögn hafi bjargað helginni minni
ÁstaÓ