Friday, March 14, 2008

Með eina græna baun í maganum

þetta byrjaði með einni skeið á kaffihúsi bókasafnsins, "kan du vara så snäll och låna mig en tesked" sagði ég bljúg og rosalega sæt. Kallinnn klóraði sér í neyðarlegan skallann sem var yfirgreiddur með nákvæmlega þremur hárum. "nej, det kan jag inte, du måste köpa något" svarði hann púkalega með áberandi hreim, horfði stíft á mig og sleikti á sér þunnar varinnar. Ég mændi á hann, "ég er ekkert að fara að borða salatið mitt hér inn á kaffihúsinu, veit alveg að það er bannað en ég gleymdi gaffli, er svöng, ég lofa að skila skeiðinni enda ætla ég bara að fara fram þar sem maður má borða nestið sitt" sagði ég, ég skal kaupa kaffi þegar ég er búin að borða ....en til að gera langa sögu stutta þá lánaði hann mér ekki skeið helvítið, ég strunsaði í burtu, hnussandi og tautandi um mismunun því eina sem er í boði á bókasafnskaffinu eru þurrar rjómabollur, gamlir snúðar og brauð með sveittum osti og ryðgaðri papriku sem man fífil sinn fegurri sem ég kæri mig ekki um að éta. Nú þar sem tími minn er dýrmætur þessa dagana, en ég er að lesa fyrir miðannapróf, undirbúa eina sókn, eina vörn og framundan er tveggja vikna fyrirlestrarlota þá át ég helvítis salatið með skærum, sem ég fann í pennaveskinu mínu, já já þið getið ímyndað ykkur hvernig það gekk að ná upp litlu grænu baununum, en salatið lenti allavega á réttum stað og ég náði að hesthúsa nokkrum blaðsíðum um cross cultural communication í leiðinni. Þegar ég kom heim með sirka eina græna baun í maganum fékk ég þær frábæru fréttir að aðalbókin sem ég kann utan að, verður ekki til prófs en hinsvegar bækurnar sem ég ætlaði ekki að lesa væru mikilvægar, ojbara ullabjakk pjakk. Sko hvusslags logandi endemis seinasinahægahægðaniðurganggangur að drulla því út úr sér, nokkrum dögum fyrir próf. Svo sem gott að kunna þennan doðrant en hellóóó, kannski allt í lagi að vera samkvæmur í skilaboðum og það í kúrsi sem einmitt kennir mikilvægi skýrra skilaboða. Nú jæja 2 aðrir póstar voru frá prófessornum, þannig hann hlaut að vera að leiðrétta eitthvað málið í þeim, en neiiiii, nei, nei, bara að láta vita að plakatstærðin sem var gefin upp var vitlaus og við þyrftum sem sé að breyta plakötunum í aðra stærð hahahaha, frábært, nú jæja síðasti pósturinn,von, en hahahaarg nei þar var hann bara að segja að verkefnið mitt væri áreiðanlega mjög vel gert en hann gæti ekki gefið mér feedback fyrir skiladag sem er á mánudaginn af því að hann hefði svo mikið að gera. Þá var mér allri lokið og þrátt fyrir súkkulaði þá lægði ekki pirringinn, ég skrifaði kvörtunarbréf, sendi það og hananú án þess að lesa yfir og sé enn ekki eftir því. Ég meina gæði námsins eru í húfi finnst mér bara, þoli ekki hræsni, mont um að bara úrvalsnemendur komist að í þetta og svo er maður látinn sitja á hakanum. Nei takk pent, hér er ég eyðandi öllum mínum tíma í þetta þannig ég kemst varla á klósettið og þarf að skipuleggja bíóferðir með vinkonum mínum 2 vikur fram í tímann, þetta er ekki grín. Og svo var Valli að stríða mér, nudda puttanum undir nefið á mér og segja ojojojojojooj á sænsku. Hrmpff. En jæja, Tom Waits er að syngja fyrir mig, það er rauðvín í glasinu mínu, gólfin eru hrein og Vallitrallinn minn er að elda ítalska grænmetissúpu. En já hér verður sem sé ekki bloggað í einhvern tíma heldur lesið á sig með gaffli en ekki skærum. Heyri líklega í ykkur eftir 8 apríl eða eitthvað nema ég þurfi að pústa eða bara lumma á góðri sögu og aukamínútum.

Brynja í vondu skapi fyrir prófin



Brynja í góðu skapi eftir prófin

10 comments:

Anonymous said...

jiii og þú ert alveg jafn sæt samt á myndunum ;)

Vona að þú hafir ekkert klippt í tunguna á þér með skærunum !

Knús
Ed

Anonymous said...

æji sæta mín, veit að allt kemur til með að ganga vel hjá þér, skil samt ósköp vel gremjuna sem er að hrjá þig. Hlakka til að heyra í þér í apríl hvort sem þú verður með rautt nef eða fallega appelsínugular fjaðrir:)

Fnatur said...

Hvernig hefur Brynsí beib það eftir föstudagsfíluna?
Er hún runnin af þér?
Elska myndirnar af þér:)

Ást og kossar.

Anonymous said...

En hvað ég skil það að þú hafir orðið fúl - prófessorinn átti bréfið skilið. Og líka gott að fleiri en ég verða pirraðir yfir hlutunum..
Flottar myndir af þér, þú ert sæt hvort sem þú ert í góðu skapi eða vondu.
Knús frá okkur hér í Snægili 10.

imyndum said...

Gott gengi í prófunum elsku vinkona, hugsa til þín

Kossar
Rósa

Anonymous said...

Hello. This post is likeable, and your blog is very interesting, congratulations :-). I will add in my blogroll =). If possible gives a last there on my blog, it is about the Smartphone, I hope you enjoy. The address is http://smartphone-brasil.blogspot.com. A hug.

Lilý said...

Æji elsku fallega gullgrjón.. takk fyrir að snúa reiði þinni og pirringi uppí orðaflaum sem læddi glotti á andlit og hlátri í loft. Að borða salat með skærum hlýtur að vera met.. svo kann ég líka vel að meta nýyrðið hjá þér. 9,5. Ást alltaf.

Anonymous said...

Frábært að fylgjast með þessum skrifum þínum, kemur manni í gott skap. Páskakveðjur af brekkunni, Affí

Berglind Rós Magnúsdóttir said...

Gangi þér vel í prófunum elsku Brynja. Þú rúllar þessu upp :)

Anonymous said...

Mér finnst gott hjá þér að láta prófessorinn heyra það. Það er allt í lagi að minna þetta lið á nemendur þeirra eru líka fólk. Þú getur kallað fram bros með lýsingum úr þínu daglega lífi.
mér finnst alveg dásamlegt að nota skæri fyrir hnífapör. Getur verið varasamt ef liggur illa á manni.
Gangi þér allt að sólu í prófunum, kæra vinkona.
Kram Lóla.