
þetta var yndisleg helgi, Lilýlillan kom í heimsókn og við nutum lífsins með henni, ljúfastan gladdi okkur öll. Borðuðum hér úti í garði með Tobbu og kó á föstudagskvöldinu og smjöttuðum á jarðarberjum og ananas sveipuðum ljúfengri súkkulaðisósu. Meðan frúrnar og ungfrúin ræddu listir og unaðssemdir horfðu börnin ásamt feðrum á klassíska bleika pardus mynd, hlátursrokurnar heyrðust til næstu bæja. Við vorum boðin í brunch til Tobbu Túttu á laugardegingum og það var með eindæmum rausnarlegt eins og alltaf. Þar voru staddar nokkrar góðar íslenskar valkyrjur til viðbótar og hersingin fór á flóamarkað í hverfinu. Stórkostlegt að sjá á eftir Tobbunni um leið og skotið var inn, reykjarmökkurinn stóð aftan úr henni enda gerði hún líklega bestu kaupin ásamt syni sínum sem keypti sér þetta fína sjónvarp á fimmtíu kall, sjaldan fellur eplið langt frá eikinni. Við Valur keyptum okkur tvo týpíska sænska ruggustóla, handsmíðaða með fallegu handbragði, núna sitjum við öllum frístundum á veröndinni og ruggum í takt og tyggjum strá. Við snæddum svo íslenskt grill lamb á laugardagskvöldinu, sem var unaður en ég skellti deginum áður í mortél:
Vænum slurki af fersku rósmaríni, timjani og hvítlauk (úr garðinum, montigrobbason), fínt rifnum sítrónuberki og slurki af olívuolíu og kramdi vel og lengi. Kryddaði lambið með gamla góða aromatinu og kött og grillkryddinu, nuddaði því vel inn í, smurði svo með mortélsmaukinu, vafði inn í álpappír og lét taka sig í sólarhring, grillaði við vægan hita og kjetið bráðnaði í munni og var svo gott að beinið var nagað svo stór sá á.
Ströndin var áfangastaður sunnudagsins. Krakkarnir og Valur voru dugleg að stíga í saltan sjó en ég sá um að passa svæðið okkar á meðan með Lilý, því miður engar myndir úr strandferðinni en Monti Grobbason gleymdi myndavélinni...já sem sé frábær helgi og viðburðarrík, takk fyrir mig.










