Sunday, October 05, 2008

Af draumórum og lúmskum hugsunum

Hugsanir eru skrýtnar og koma stundum aftan að manni. Þær lauma sér inn í skúmaskot heilabúsins og láta svo á sér kræla þegar forsendur gætu vissulega verið hagstæðari. Alveg ágætis forsendur í heilabúinu þannig, sem er enn nokkuð ferskt og snyrtilegt en staðan á fróni ætti að halda draumórum og lúmskum hugsunum um gildi þess að flytja aftur á klakann fjarri. En svei mér þá staðan ullar bara á okkur og við erum farin að velta fyrir okkur kostum og göllum þess að snúa aftur heim. Mjög tvíbentar tilfinningar vægast sagt og ekki auðvelt að taka afstöðu enda svo sem enn ekki komið að því. Kannski getið þið hjálpað mér að gera kosta og galla lista. Verið umfram allt heiðarleg, veit alveg að sum ykkar myndu gera allt til að fá okkur aftur heim en já eru einhverjir kostir við það að flytja heim?

Kosta og galla listi, vinsamlegast bætið við!

Að vera nálægt fjölskyldunni
Ala Íslandið upp í börnunum,stutt í afþreyingar fyrir þau
Að vera nálægt vinunum, sem eru margir á Akureyri
Að geta farið í sundlaug, rækt, matvörubúð, jafnvel vinnuna (vitið þið um vinnu handa mér) í göngufæri
Hægt að fara á gönguskíði


Landið er á hausnum
Það er kalt
Mikið vinnuálag
Engin eplatré

Nú þarf ég að fara í göngutúr, kannski viðrar rokið af mér þessar pælingar og ég held áfram í ástarsambandi mínu við Svíþjóð, þessu þægilega sambandi sem auðvelt er að festast í vegna þæginda og fyrirsjáanleika, tja nú þarf að leggja hausinn í bleyti.

28 comments:

Anonymous said...

Ég hef alltaf átt mér þann draum að flytjast til útlanda í styttri tíma. En þareð ég hef enn ekki látið drauminn rætast ætla ég að bíða með það þar til synir mínir verða "uppkomnir" allir þrír. Langt í það sem sagt.
Draumurinn er aðeins til kominn vegna þess að mig langar að víkka eigin sjóndeildarhring, ekki að Ísland sé svo slæmt.
Ég finn aðeins eitt að Íslandi, það er veðurfarið.
Annað jafn gott hér og þar, sumt betra meira að segja.
Systa

Anonymous said...

bíddu - hvar er bloggvinalistinn þinn? veist hvað ég tapaði mörgum bloggum við þetta?

Systa

Anonymous said...

Hæ mig langar til að kommenta á vinnuálagið, það þarf ekkert að vera mikið, maður hefur það bara eins og maður vill.
Mér finnst td 100 sinnum minna álag hérna og streita miðað við í Englandi, hver dagur er bara chilldagur með notalegheitum. Veðrið er fínt en gott er að stunda skíði til að mars-apríl séu ekki hræðilegir.
Kveðja, Ásta tannsi

Berglind Rós Magnúsdóttir said...

Haha ég var akkúrat að hugsa það sama, bara staðsett í öðru landi þar sem allt er orðið fokdýrt.

Anonymous said...

Brynja !
í fyrsta lagi er listinn ekki rétt uppsettur hjá þér... þú ert með mörg atriði í sömu línunni þannig að kostirnir virðast færri en þeir í raun eru !
Og svo vil ég bæta við:
1. það tekur ekki nema rúmlega 2 klukkustundir að labba bæinn þveran og endilangan(með barnavagn á undan sér) og þá meina ég heiman frá mér út í byko inn í bæ og upp með skautasvellinu og heim aftur !!! semsagt maður kemst langt á stuttum tíma og ekkert mál að labba, hvert sem maður ætlar að fara.
2. Frítt í strætó
3. Frítt í sund fyrir þig þegar þú verður búin að kaupa þér kort í nýju vaxtaræktinni sem er víst stórglæsileg
4. Hægt að ganga á fjall, fyrir hádegi og baka vöfflur eftir hádegi :)
5. Laugardagsgrautur í Snægili :)
6. Kolfinna og Ásbjörn í Geislatúni ;)
7. HB og DK geta labbað til ömmu og afa og mín eftir skóla
og svo framvegis.
8. tvær ljómandi fínar sundlaugar plús þelamörk og hrafnagil

Varðandi gallana sem þú nefndir:
1.flest lönd á hausnum er það ekki;)
2.kuldi er tækifæri til þess að nota skemmtilegar húfur og ekki síður til að vera inni með þeim sem maður elskar og drekka heitt kakó og spila :)
3.það er mikilvægt að velja sér vinnu sem manni finnst skemmtileg og kunna sér hóf þannig að maður geti leyft sér að vinna örlítið minna ;)
4.mæli með að þú takir með þér eplatré og hafir í stofunni hjá þér. Annars má vel bara rækta rófur og gulrætur og svona ;)

Ég hlakka til að taka úr gámnum með ykkur og labba við hjá ykkur í alvörunni en ekki bara ímynda mér það ! Er orðin leið á að vera konan með barnavagninn sem labbar vanabyggðina dreymandi á svip.... langar að koma inn :)

Saknaðarkveðjur
Edda

brynjalilla said...

mig langar að rækta rófur og gulrætur og baka vöfflur og labba á fjall og hitta ykkur yfir kakó og spili og fara í sund eftir góðan tíma í ræktinni og rölta upp í snægil þar sem krakkarnir fá soðna ýsu og grjónagraut verandi með fyndna húfu á hausnum....dæs já þetta er falleg sýn

Anonymous said...

má ég minna á...
1.Að það væri líka hægt að fá sér rúnt í sveitina og fá sér kaffibolla.
2. Eða fiskisúpu við hlóðareld.
3. Og hleypa börnunum á skeið í litlum skógarlundi í sveitasælunni.
4. Að stórhríð getur einnig boðið upp á kertaljós og bóklestur með kakóbollanum.
5. Það er hægt að taka þátt í leitinni að rétta eplatrésyrkinu til að rækta hér á Islandi.
6. Hér eru svo margir sem elska ykkur.
7. Að þú getur horft á misheppnaðar dvd myndir með systur þinni.
8. Systir þín ætlar að kaupa hús handa ykkur.

Á ég bara ekki að panta flug fyrir ykkur.

Fnatur said...

Ferlega fæ ég skrítna tilfinningu við að lesa þessa lista.
Sennilega vegna þess að ég hef svo oft spáð í þessi mál fram og til baka og enn er ég hér í USA.
Hef sterka tilfinningu að innst inni sértu nú þegar búin að taka ákvörðun:)

Vallitralli said...

atriði númer 7 finnst mér sérstaklega freistandi, nú og svo náttúrlega húsið sem þú ætlar að kaupa handa mér, alveg magnað hvað þú græddir á hlutabréfunum þínum í Glitni kæra systir......

Fanney ef þú værir á listanum yfir kosti Íslands væri ekki erfitt að taka ákvörðun, við myndum nú njóta hvor annarrar í botn, pældu í því og svo myndi ég kannski bara búa í næsta húsi við Ástu....

brynjalilla said...

afi er orðin amma mín og brynjalillia er orðin vallitralli....svo sem ekki slæmt

Anonymous said...

Kostir : islenskt kók, humar, reyktur silungur, rúgbrauð, Djúpur, íslenskar auglýsingar, íslenskur húmor, íslenskar biðraðir sem ganga 1000 hraðar en hér, engin regla um að setja strikamerki að sér þegar maður verslar (sem ég geri aldrei), öllu reddað, engir fyrirlestrar í apótekum þegar maður er að flýta sér, amerísku vöflurnar hennar ömmu gömlu, matarboð hjá mömmu og pabba, Gunna vinkona í næsta húsi, flottari konur vel snyrtar með fallegar strípur, engir með Fjellreven bakpoka í fótlaga ekkoskóm, íslenskur húmor, íslenskt vatn, íslensk náttúra, sund, tengdó og allt hennar hyski, allar fallegu vinkonur mínar, færri reglur og meira frelsi.frí í vinnu vegna veðurs, bæði ef óvenju hlítt og líka ef óvenju kalt!, færri ógeðslegir glæpir, hærri laun lækna,

Gallar: dýr matur, dýrt húsnæði, dýrt vín, nýfátækir vinir, slydda, súld, landnyrðingur, útsynningur, stormur, materialismi, íslenskir stjórnmálamenn, launamunur fólks, dýr leikskólagjöld, skata, alltaf með húfu,

af þessu má sjá að kostir fleiri en gallar, enda er ég Íslendingur í húð og hár, rauðhærð og skapgóð, og núna á þessum síðustu og verstu tímum dýfi ég nefi mínu ofan í kryddjurtakassan minn og þefa óvenju oft af íslenska blóðberginu sem Silla vinkona smyglaði í handfarangri og gaf mér í brúðkaupsgjöf.

lifið Heil,
Tobba tútta

brynjalilla said...

Tobba viltu vera memm?

Anonymous said...

Það er greinilega ekki spurning, Brynja, þú átt að flytja heim aftur :-) Svo getur þú komið í Snægilið og kíkt til mín líka. Það væri ljúft.

Hogni Fridriksson said...

Mikið þekki ég þessar pælingar vel og hef gaman af því að lesa þetta. Þegar maður hefur upplifað það að búa í útlöndum þá breytist ekki aðeins skoðanir manns á landinu sem maður býr í heldur á Íslandi líka. Ég hef upplifað þetta bæði sem barn og fullorðinn og er því náttúrulega orðinn kengruglaður í þessu öllu saman. Allar breytingar eru líka í eðli sínu óþægilegar og því oftar sem maður hefur flutt því meira hikandi verður maður að taka það skref aftur. Ég mæli eindregið með bókinni "Almost French" eftir Sarah Turnbull, sem lýsir öllum þessum pælingum mjög vel. Gangi þér vel með þessar ákvarðanir, "It is a curse to love two countries".

brynjalilla said...

þar hittirðu naglann á höfuðið. Eitt af því sem svona útlandsdvöl hefur í för með sér að maður lærir að meta sjálfssagða hluti í hversdagsleikanum betur eins og að geta kíkt í kaffi til mömmu. En maður sér líka betur það neikvæða. Efnishyggjan á Íslandi er gott dæmi. Ég mun aldrei gleyma augnablikinu sem ég átti með sjálfri mér við eldhúsbekkinn hér í Svíþjóð þegar ég var búin að eiga heima hér í dágóðan tíma. Ég uppgötvaði svo áþreifanlega að ákveðinn baggi var horfinn út brjóstinu á mér, baggi ytri krafna um eignir og skraut, áttaði mig þá því hvað ég var búin að vera áhrifagjörn , vonandi er ég hætt því núna eftir góða dvöl í jafnaðarþjóðfélaginu. Hugsanlega er efnahagskreppa þjóðarinnar fyrsta skefið í að aðstoða okkur í að vega þyngra en áður náungakærleika og einfaldleika sem getur gert tilveruna auðveldari þegar upp er staðið. Þannig sé ég Íslandið mitt þegar ég fer þangað á ný og ætla að gera mitt besta til að skapa mér þá tilveru. Sátt í litlu húsi með góða vinnu í réttu magni, litandi hversdaginn með öllu því smáa sem Akureyrin bíður upp á, samveru við vini og vandamenn, nestisferð í kjarna og kakóbolla. Kannski ég kaupi mér bókina svo ég geti styrkt sjálfa mig í viðleitni minni til að skapa mér minn ideal Íslandsveruleika. Hér lifi ég mínum sænska ideal veruleika, sem ósköp notalegur en hættulegur um leið því já það er vissulega auðvelt að festast í þægindunum hér sem felast m.a. í þessu frelsi sem felst í því að vera milli tveggja heima...ég vil það bara ekki til lengdar því ég er Íslendingur og hananú.

Anonymous said...

og þá er það ákveðið !

Anonymous said...

og hananú...

Anonymous said...

sagði hænan og lagðist á bakið!

Sjáumst

Kv.
BV

brynjalilla said...

ertu að líkja mér við hænu ungfrú Brynja vala

Anonymous said...

Hæ Brynja!
Sé að hér eru miklar pælingar í gangi. Verður þú ekki bara að láta hjartað ráða ;o). Það er hægt að velta sér upp úr þessu endalaust án niðurstöðu. Mæli bara með að þú hlustir á Eddu, því á okkar morgunrölti (sem eru þó trúnaðarupplýsingar ;O)) finn ég að ykkar er sárt saknað. Þú getur ekki haft það á samviskunni að Edda þurfi endalaust að vera án ykkar og jú allt ykkar fólk. Kíkt hefur verið á hús á þessum góðu morgunröltum og munum við væntanlega halda því áfram og láta svo bara Áslaugu vita um verð.

Hafið það sem best, hér er allt í rassgati en við sem hvort eð er eigum engan pening erum í svipuðu rassgati og við vorum í. Nú er gott að hafa stóran rass.

kv. úr nágrannabyggðinni Álfabyggð

Anonymous said...

Elsku Brynja 40 þúsund krónunum mínum var vel varið í Glitni. Gott að sjá að 20 ára sparnaður minn hefur þó orðið almenningi til góðs því sjálfsagt er það þeim að þakka að að Íslendingar hanga þó enn á sjálfstæði landsins.
Hins vegar verð ég að tilkynna þér að vegna örlítillar rýrnunar á þessum sjóði mínum verð ég að takmarka kaup mín við litla raðhúsíbúð handa þér og fjölskyldu þinni. Tek samt fram að valið verður vandað og íbúðin falleg. Treysti ég þar einnig á góðar ábendingar frá Eddulillu og Sollulillu.
Núna er þín beðið með mikilli eftirvæntingu til að taka út úrvalið.
þín elskandi systir.

ps. Ég á hér heima 100 kr. danskar, hef verið að velta því fyrir mér hvort það væri ekki góður leikur að fara og stofna gjaldeyrisreikning og leggja krónurnar mínar þar inn og stuðla þar með að auknum gjaldeyrirforða í landinu. Ráðleggingar þegnar.

Thordisa said...

Elsku Brynja mín mikið vildi ég viljað fá ykkur heim. Ekki get ég sagt að það sé þó spennandi að koma heim í þetta ástand sem hefur skapast hér undanfarnar vikur. Kostir eru þó margir eins og góð fjölskylda og fullt af bestu vinum sem bíða eftir ykkur. En ekki látta blekkjast þegar þú kemur aftur til Íslands þá dettur þú í sama gamla farið þannig er það nú bara yfirleitt en það þarf ekkert að vera slæmt að öllu leiti. En mér finnst þú vera búin að vera of lengi í burtu og vil nú fara að vera eigingjörn og fá þig til baka sama hverjir kostir og gallar eru. Svo segi ég eins og Fanney held að þú sért búin að gera þetta upp við þig :-)

Anonymous said...

Hahaha, það er dýrðlegt að lesa athugasemdirnar allar. Mitt ráð er bara eitt, og það er þegar maður er kominn með upp í kok af gestalandinu, (þ.e. Svíþjóð), þá er kominn tími til að flytja heim. Það eru alltaf einhver þjóðareinkenni sem fara í taugarnar á manni - fólk er of kurteist, hefur ekkert frumkvæði, segir ekki skoðun sína, margir flytja heim til að krakkarnir verði ekki "útlendingar", fólk kvartar yfir öllum sköpuðum hlutum o.s.frv. Þegar þetta fer að vaxa manni meir í augum en veðrið (fof), þá er kominn tími á skerið.

Anonymous said...

Áslaug mín ég og Sólveig erum þekktar fyrir það hversu hæglátar og hófsamar við erum þannig að ekki hafa áhyggjur af því að húsið sem við finnum verði of dýrt. Því fer fjarri enda hagsýnar húsmæður með eindæmum ;)
Annars á ég held ég einar 300 danskar krónur uppí skáp... heldurðu Áslaug að það komi betur út að leggja saman inn eða ????

Við söknuðum ykkar í kvöld í skírn en barnið hlaut nafnið Jóhanna Margrét..ekki amalegt það. Nú svo söknuðum við ykkar enn meira í dýrindis kvöldverði í Snægilinu. Þið misstuð af því þegar Kolfinna braut þar í fyrsta sinn glas ;)

Knús
Edda, Addi, Kolfinna og Ásbjörn

brynjalilla said...

Sæl og bless Brynja!

Ég ætlaði að kommentera bloggið þitt, þetta með að flytja til baka eða ekki, en ég var ekki nógu tæknilega sinnaður til að láta það takast. Hér er minn kommentar:

Hvað ertu að pæla Brynja? Ef þú ert ekki með hreina köllun eða gilda ástæðu til að flytja til baka, þá bara slepptu pælingunum. Að reyna að búa til ástæðu veldur bara þreytu og ringulreið. Þegar við erum spurð hvort við ætlum að flytja til baka svörum við því einfaldlega að svo lengi sem það ekki kalli á okkur eða gild ástæða komi upp detti okkur ekki í hug að velta því fyrir okkur.

Með bestu kveðju frá Valdísi og Guðjóni

brynjalilla said...

hahaha já þið eruð öll yndisleg og gott að fá góð ráð í sarpinn. Þetta er ekki auðveld ákvörðun enda staðan þess eðlis heima að það er ekki hægt að ákveða neitt að svo stöddu. En við höfum margar góðar og gildar ástæður til að koma heim og njóta hversdagslegrar samveru nú og spari samveru líka við ykkur öll. Vissulega yrði eftirsjá í mörgu hér í Svíalandi en svo margt mun fylgja okkur heim, reynslusarpurinn feitari og tímabundinni útþrá vonandi fullnægt. Ég spái því allavega að á Íslandi munum við eiga heima áður en fyrsti tugur aldarinnar rennur út. Þá líka verða dönsku krónurnar þeirra Eddu og Áslaugar orðnar sællegar og sáttar.

Anonymous said...

Verð að segja nokkur orð hér. Þar sem ég hef lesið bloggið þitt og hef gaman að. Hef sjálf búið í Sverige í 10 ár já 10 ár þau áttu bara að vera 4 já 4. En það er mjög auðvelt að láta sér líða vel í sænsku velferðarþjóðfélagi,og bara vera og vera. En þú ert bara sniðin inn í þetta umhverfi mér finnst yndislegt að fylgjast með ykkur þarna og sjá hvað þið blómstrið. Ég fæ oft flash-back þegar þú byrjar á jólaundirbúningnum með piparkökum,lussekatter ofl. En ég skil vel fólkið ykkar að vilja hafa ykkur nálægt sér en segir það ekki margt um ykkur og tómleikan á Akureyri neinei ég segi bara svona. Hef líka búið á Akureyri það var ágætt en er glöð að vera komin í höfuðborgina. En þetta er alltaf ykkar ákvörðun, en mér finnst ég skynja svía-væntumþykju hjá þér Brynja.
Sverige er mysigt,men svenskar kan gnälla lite eller hur.
En þig eigið eftir að koma heim það er engin spurning bara hvenær ??
Þóra ( Kærastan hans ella )

brynjalilla said...

takk þóra, gaman að fá ráð sem ná manni svolítið niður á jörðina, þetta er einmitt málið, auðvitað komum við heim en spurningin er hvort okkur liggi nokkuð á, mér þykir nefnilega eins og þú segir ansi vænt um Sverige þrátt fyrir gnällið, hlakka alveg svakalega til að fara að jólast, hvar bjóstu annars í Svíþjóð?