Tuesday, March 27, 2007

krummakona

Ég ligg í rúminu í lopapeysu af Valla og appelssínugulum lopasokkum. Hóstinn er svíðandi og augun rauð, fæ mér koníaksopa. Ímynda mér að það sé árið 1880 og ég sé fátækur rithöfundur, fletti í bókinni "Svält" eftir Knut Hamsun. Búin að semja 2 og hálft krummaljóð, ætla að reyna að myndskreyta þau í dag þegar ég er búin að fá mér annan koníakssopa.

Svarta, mjúka, fallega krummabarn
með rauðan munn.
Guðsgjöf sem getur gengið
með sterka fætur
og vængina hefur enginn betri fengið.

Svarta mjúka, fallega krummamóðir
með rauðan munn.
Sterkbyggðir vængir sem geta flotið
með hlýjan faðm
og ástina hefur enginn meiri hlotið.

----

Við söfnumst saman í klettahlíð og fjöru.
við verðum að hoppa svolítið og hreyfa okkur.
Litlir vængir fljóta um fjallið.
Við böðum okkur í vindinum.
Nestiskarfan bíður á landi.

---

í litlu húsi býr lítil kona með fjögur börn,
hún sýður graut
hún veiðir fisk
hún setur haus á disk

Á grænum hól býr krummamamma með fjögur börn
hún kroppar kjöt
hún drepur mýs
hún étur það sem úti frýs

...á eftir að bæta við þetta en svona til að þið áttið ykkur á skáldsemi minni er þetta hluti af verkefni sem ég er að gera fyrir skólann, ætla að semja mín krummaljóð á íslensku allavega meðan ég er að koma mér í haminn, hamsunhaminn.

hóst, hóst
Brynja

7 comments:

Anonymous said...

Mér líst ljómandi vel á þessar krummavísur.
Hvernig væri svo bara að myndskreyta og gefa út í bók ?

Krunk krunk
Edda

Anonymous said...

Flottar krummavísur! Eitthvað annað en þetta endalausa "krummi krunkar úti" og "krummi svaf í klettagjá" þó þær standi fyrir sínu og séu vinsælar hjá syni mínum. En hvað er það við krumma sem heillar okkur Íslendinga svona? Hví höfum við ort svona mikið um hann??

Takk fyrir kveðjurnar hinumegin. Jamm og já, það er bumbubúi, lítill enn en kemur vonandi heill og hraustur í heiminn um miðjan september.

Hana! Þá er það opinbert - á veraldarvefnum meira að segja.

brynjalilla said...

yndislegt Ingibjörg mín til hamingju, enn ein ástæðan komin til að heimsækja Íslandið í haust...

Lára said...

Frábær krummaljóð hjá þér, Brynja!! Ég fylgist vel með krumma útum eldhús og stofugluggana hjá mér. Varð að orði við pabba um daginn að ég myndi sakna þeirra hrikalega þegar ég færi til Akureyrar. En viti menn!! Það eru líka krummar þar!! Það sagði pabbi allavega og þá hlýtur það að vera satt.

hannaberglind said...

flott hjá þér að velja krumman í þetta verkefni, finnst fátt íslenskara en krumminn. Hlakka til að sjá myndskreytingarnar. vorum með fjölþjóða viku í leikskólanum þemað fyrir ísland var krumminn og búkolla, soðin ýsa með kartöflum, það er fátt íslenskara en þetta:)

Anonymous said...

Krunk, krunk elsku kerlingin mín! Láttu þér batna. Annars þá er annar fugl búinn að láta sjá sig hér á skerinu í dag...fyrsta lóan hefur sýnt sig og ég fagna í hjarta mínu vorboðanum ljúfa.

Knús og kveðja frá annars Ísaköldu landi,
Guðrún

Anonymous said...

Skemmtilegar vísur hjá þér Brynja - spennandi væri að sjá myndirnar með!
ÉG ætla að reyna að koma með krakkana í vor, veit ekki með Himma hann kemst líklega ekki. Góða skemmtun um páskana bæjó Freydís